30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Umboðsm. ráðherra (Klemens Jónsson) :

Eg hefði helzt kosið að málið hefði gengið umræðulaust til 2. umræðu. En úr því að háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) fór að tala um einstök atriði frumvarpsins, þá vona eg, að hv. forseti hafi ekki á móti því, að eg bendi deildinni á tvö atriði, sem eiginlega eiga heima við 2. umr.

Hvorki eg né aðrir hv. þm. hafa haft tíma eða tækifæri til þess að kryfja þetta frumvarp til mergjar. En þegar eg fyrst las frumvarpið, þá rak eg augun í það, sem stendur í 4. tölulið 2. gr., um það að stjórnin getur látið hætta allri landssjóðsvinnu. Þetta er ekki hægt að gera í svipinn. Það er ekki hægt á svipstundu að stöðva allar vegagerðir landssjóðs, fyrst og fremst af því, að búið er að borga fyrirfram mikið af því, sem veitt er á fjárlögunum til vegagerðar. Og sjálfsagt er, að stjórnin láti halda áfram að vinna fyrir þá peninga, sem búið er þegar að borga út. sömuleiðis er ekki hægt að hætta við brúargerðir, sem byrjað hefir verið á. Ekki er heldur hægt að hætta við vegi, t. a. m. í miðri mýri, og fleira getur verið því til fyrirstöðu, að þetta sé hægt. Þetta atriði er þó þýðingarminna en hitt, sem eg vildi benda á. Það er þýðingarmeira, að í 3. gr. er gert ráð fyrir að bannaður verði útflutningur á aðfluttum vörum, og eru þar á meðal nefnd kol. Eg hygg, að ómögulegt verði að banna að selja útlendum skipum kol, sem þau þurfa til þess að komast heim til sín, ef þau eru fyrir hendi. Það stríðir, að eg held, móti alþjóðarétti. Eg býst því við að koma með viðaukatillögu við 3. gr., þar sem þetta væri heimilað.

Eg hygg, að verði þessu ákvæði ekki breytt, þá geti af því leitt, að lögin öðlist ekki konungsstaðfestingu. Vænti eg því, að þingið fallist á þessa breytingu frá minni hendi.