08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

8. mál, grasbýli

Sigurður Sigurðsson:

Eg lít svo á, að þetta mál sé all þýðingarmikið, og vænti þess vegna, að háttv. deildarmenn taki ekki hart á því, þó að eg segi fáein orð um frumv. Málið er ekki eingöngu stórmerkilegt, heldur er það nýmæli hér á þingi. Þetta málum grasbýli, nýbýli, eða hvað menn vilja nefna það, er eitt af þeim málum, sem efst er á baugi hjá öllum menningarþjóðum og um þessar mundir hvað mest rætt á Englandi. (Guðmundur Hannesson: Við vitum það.) Mér hefir altaf skilist, að þessi háttv. þm., sem nú tók fram í fyrir mér (G. H.), bæri þetta mál mjög fyrir brjósti. (Guðmundur Hannesson: Eg geri það líka.) En mér fanst svo köldum anda slá af ræðu hana á málið, að eg hafði sízt búist við því úr því horni. Það er ekki tilgangur minn að fara að svara ræðu háttv. þm. (G. H.), en eg get aðeins um þetta, hvernig orð hans verkuðu á mig.

Það er náttúrlega órannsakað mál, hvað minst land þurfi til þess, að fámenn fjölskylda geti lifað á því. En eg geri ráð fyrir, að það verði aldrei rannsakað til hlítar, fyrr en einstakir menn ráðast í að gera tilraunirnar sjálfir. Fyrir því lít eg svo á þetta frumv., að það geti stutt vel að því, að hvetja einstaka unga og efnilega menn, sem ekki eiga kost á stórum jörðum til ábúðar, að ráðast í að stofna grasbýli eða nýbýli. Og þá um leið fæst reynsla fyrir því, hvað minst land þurfi til þess að fæða lítil heimili.

Það er rétt, sem tekið var fram, að hér má ekki miða við það, sem á sér stað í öðrum löndum. Og eg get bætt því við, að það dugir ekki að miða við það, sem er hugsanlegt í þeim landshlutum eða sýslum, sem bezt eru fallnar til slíks búskapar. Eg er meira að segja ekki bjartsýnni en það, að eg hygg, að þessi smábýlabúskapur hljóti altaf að verða mjög takmarkaður, og geti naumast þrifist annarstaðar en þar, sem land er vel fallið til ræktunar og greitt um allar samgöngur.

Mér dettur í hug ein bygð hér á landi, þar sem í rauninni á sér stað reglulegur grasbýlabúskapur. Það er Þykkvibærinn í Rangárvallasýslu. — Þykkvibærinn er allur 60 hdr. að fornu mati. Þessari jörð er nú skift á milli 30 eða rúmlega 30 búenda og hjá þeim öllum til samans eru um 200 manns.

Annars lít eg svo á, að ef um nýbýli væri að ræða hér á landi, þá þyrfti að sníða þeim sama stakkinn og sniðinn er búskap á stærri jörðum. Smábýlin þurfa ekki eingöngu tún, heldur líka engi, ítök í bithaga og tilkall til afréttar ef landið væri betur lagað fyrir sauðfjárrækt en nautgriparækt. Ef hugsanlegt á að vera, að smábýlabúskapur geti þrifist hér á landi, þá þurfa býlin að eiga tilkall til þeirra landsnytja, sem annars tíðkast. Hitt, að taka aðeins smáblett til ræktunar og ætla heilli fjölskyldu að lifa á honum einum, hygg eg að eigi nokkuð langt í land. Hina vegar er það mín hugsun, að taka beri stórar jarðir, einkum þær sem illa eru setnar, og skifta þeim niður í smábýli, 3–4 eftir því sem á stendur. Á þann hátt mætti auka býlatöluna í landinu mjög mikið, jafnvel þó að þetta væri ekki gert nema í þeim sýslum, sem bezt eru settar.

Það er ekki mín skoðun, að aðalatriðið sé það að útvega bændum vinnukraft. Það var að vísu fyrsta hugsunin með smábýlabúskapnum í Danmörku og Noregi. En eins og háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) mintist á, hefir þeim tilgangi ekki verið náð. Smábýlabændurnir hafa krafist þess, að býlin væri stækkuð svo, að þeir og fjölskylda þeirra gæti lifað á þeim einvörðungu, án þess að leita sér atvinnu hjá öðrum. Sama hygg eg að hér yrði ofan á. En eins og eg tók fram áðan, hefi eg enga trú á að menn geti lifað með sig og sína á litlum jarðarbletti án þess að eiga tilkall til venjulegra landsnytja, engja, bithaga og jafnvel afréttarlands.

Eg vil mæla með því, að málið verði sett í nefnd. Ef frumv. nær því að verða að lögum, hefi eg þá trú, að það nái því takmarki smátt og smátt, sem háttv. flutn.m. (J. E ) óskar, sem sé að styðja að því, að býlum fjölgi í landinu og ræktun landsins aukist og margfaldist.

Viðvíkjandi því sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sagði, að Búnaðarfélagið eða Ræktunarfélagið eða bæði þau sómafélag, tæki að sér að gera tilraunir með hvað meðal fjölskylda gæti lifað af minstu landi, þá álít eg, að sá vegur yrði bæði seinfær og »ópraktískur«. Sami háttv. þm. (G. H.) gerði lítið úr því, sem ýmsir búfræðingar hefði lagt til málanna um áburðarrannsóknir, og býst eg við, að eftir hans kokkabók yrði það eitthvað svipað ef þessir sömu menn færi að gera tilraunir í þessa átt. Bezta og öruggasta reynslu fær maður með því að styrkja unga og efnilega menn til þess að koma á fót nýbýlum og á reynslu þeirra er síðan hægt að byggja í framtíðinni. Það er vitanlega ekki rétt að fara ört í byrjuninni, en færa sig heldur upp á skaftið eftir því, sem reynsla, bendir til og kennir.