06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

126. mál, strandferðir

Sigurður Stefánsson :

Mjer þótti vænt um að fá þá upplýsingu hjá háttv. framsm. (J. B.), að þótt samingar væru gjörðir við Eimskipafjelagið um strandferðirnar, þá ætti það ekki að vera því til fyrirstöðu, að hægt væri að hætta þeim í miðju kafi, — ef kostnaðurinn reyndist ókleifur. En varla er hægt að hætta ferðunum í miðju kafi, nema með góðu samkomulagi milli Eimskipafjelagsins og landsstjórnarinnar. En ef ferðirnar hættu í miðju kafi, þá mundu verða mjög misjafnir dómar um það, og það ef til vill baka bæði stjórninni og Eimskipafjel: ámæli og óvinsældir.

Um flóabátana er það að segja, að þeim hefir verið fækkað, þar sem flutningsþörfin er minst; það hefir verið svo loftið að gjöra, að ferðirnar hafa ekki borgað sig með allríflegum styrk. Á Austurlandi og Vesturlandi er nóg að gjöra fyrir þessa báta, og eins hjer í kringum Faxaflóa; það sjest best á flóabátnum hjer. En ferðunum verður að haga eftir flutningsþörfinni. En jeg efast ekki um að Eimskipafjelagið geti bætt úr strandferðaleysinu með þeim skipum, er það hefir nú.

Mjer datt ekki í hug að finna að því, að nefndin lagði það ekki til, að landssjóður tæki að sjer ferðirnar, en jeg tel það óviðkunnanlegt, að landssjóður greiði tekjuhallann, þegar hann sjálfur rekur ekki ferðirnar, og hefir enga hönd í bagga með rekstri þeirra. Jeg hefði sætt mig best við það, að landssjóður hefði ekki veitt neitt fje til strandferðanna. En ef Alþingi getur treyst því, að bæði landsstjórnin og Eimskipafelagið láti ferðirnar falla niður, ef mikill halli verður á þeim, þá get jeg sætt mig við það, þó jeg viti það fyrir víst, að það valdi mikilli óánægju á vissum hlutum landsins.