10.07.1915
Neðri deild: 3. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Þegar jeg tók við ráðherraembættinu, hafði fráfarandi stjórn að miklu leyti undirbúið fjárlögin. Hún hafði þó ekki lokið þeim að fullu, svo að jeg gat yfirfarið þau, án þess þó að mjer ynnist tími til að rannsaka hvern einstakan lið þeirra nægilega. En þar sem jeg hefi lagt fjárlögin fyrir H. H. konunginn og fengið samþykki hans til þess að leggja þau fyrir Alþingi, ber jeg vitaskuld alla stjórnskipulega ábyrgð á innihaldi þeirra.

Sennilega er ekki jafn vandasamt að semja nokkur lög á þessu landi og fjárlögin. Stjórnin er þar eins og á milli tveggja elda. Takmarkað fje er til umráða, en hins vegar eru þarfirnar margar, sem kalla að. Lögmæltum stofnunum verður að halda uppi, og nauðsynlegar framkvæmdir má ekki hefta að óþörfu. En þar sem getan er svo takmörkuð, er hætt við að mörg nauðsynleg verk verði að bíða framkvæmda, lengur en æskilegt væri.

Nú eru þar að auki, að ýmsu leyti, sjerstaklega erfiðir tímar, vegna styrjaldarinnar miklu, sem nú stendur yfir. Má búast við því, að ýmsar verklegar framkvæmdir hjer á landi tefjist að miklum mun hennar vegna, eða stöðvist jafnvel alveg í bili.

Ófriðurinn hefir einnig áhrif á verslun landsins. Hún getur ekki fyllilega gengið í sama horfinu og áður. Má ganga að því vísu, að minna verði flutt til landsins af ýmsum vörum, meðan á styrjöldinni stendur, án þess að annað komi í staðinn, en það hefir aftur áhrif á tekjur landssjóðs, þar sem tollarnir, aðaltekjugreinin, verður að sama skapi minni.

Svo er aðgætandi, að atvinna landsmanna, að öðru leyti, bíður að sjálfsögðu mikinn hnekki af ófriðnum. Þó að afurðir landsins, allar eða flestar, sjeu í háu verði, er útlenda varan stórum mun dýrari en venjulega. Allar, eða nálega allar, lífsnauðsynjar hafa hækkað gífurlega í verði. Þessi dýrleiki kemur aðallega niður á þeim, sem lifa eingöngu á handafla sínum, svo sem verkafólki í kaupstöðum, og á miklum hluta þeirra manna, sem lifa á fastákveðinni kaupupphæð, svo sem mikill hluti starfamanna landsins. Má búast við því, að gjaldþol manna verði alment minna, meðan á þessu stendur.

Þetta alt veit jeg að Alþingi muni taka til greina, þegar það ræður fjárlögunum til lykta.

Íslensk fjárlög eru enn vandasamari og erfiðari viðfanga fyrir það, að fjárhagstímabilið er hjer tvö ár, en ekki eitt, eins og annarstaðar. Það liggur í augum uppi, að verra er að sjá yfir tvö ár en eitt, og auk þess getur margt skipast svo á tveim árum, sem engan órar fyrir nú.

Þetta fjárlagafrv., sem hjer liggur fyrir, hefir dálítinn tekjuhalla, eins og vant er að vera um fjárlagafrv. frá stjórnarinnar hendi. Hann er þó ekki gífurlegur, og ekki hærri en venjulega hefir verið gjört ráð fyrir í fjárlagafrv. stjórnarinnar nú undanfarið. Og þinginu ætti ekki að blöskra sá tekjuhalli, því að venjan hefir verið sú, að það hefir skilað fjárlögunum með miklu meiri tekjuhalla en stjórnin hefir áætlað í sínum frv.

Tekjur landssjóðs eru nú áætlaðar 4,203,700 kr., og hygg eg, að sú áætlun sje ekki óvarlegri en venjulega. Venjan hefir verið sú, að tekjurnar hafa verið áætlaðar miklum mun lægri en þær hafa reynst í framkvæmdinni. Jeg vil ekki leiða neinar getur að því, hvort þær reynast hærri eða lægri nú en áætlað er. Það fer að líkindum mest eftir því, hver áhrif styrjöldin reynist að hafa á viðskifti landsins.

Ef litið er yfir fjárhagstímabilin frá 1902–1903 og til þess fjárhagstímabita, sem nú stendur yfir, má sjá, að tekjurnar hafa jafnan farið langt fram úr áætlun, stundum um og yfir ½ miljón, og stund. um yfir 1 miljón. Ef þær fara nú fram úr áætlun, sem því samsvarar, þá er engu að kvíða. En um það verður ekkert sagt með vissu.

Útgjaldabálkurinn er nokkru hærri en tekjurnar, eða 4,333,341 kr. 92 au. Tekjuhallinn verður því hjer um bil 130 þús. kr.

Það á ekki við að fara út í einstök atriði frv. við þessa umræðu. Eins og vant er, eru það samgöngumálin og þar næst kirkju- og kenslumálin, sem taka mest fje.

Það er eins um gjöldin og tekjurnar, að þau hafa venjulega verið áætluð of lágt. Það má vel vera að svo verði einnig nú. Í því sambandi er og þess að gæta, að oft eru sett lög, sem hafa útgjöld í för með sjer, en ekki er tekið tillit til í fjárlögunum að öðru leyti en því, að í einni (nú 21.) gr. þeirra er sagt, að ef slík lög verði samþykt, skuli fjárhæðirnar breytast samkvæmt þeim. Það verður því alls ekki sjeð, hve mikið fje þarf að greiða út, þó að menn hafi fjárlögin fyrir sjer. Svo koma venjulega fjáraukalög á eftir, því að alt af getur eitthvað nýtt komið til, sem óhjákvæmilegt er að greiða. Og útgjaldaliðir í fjárlögum reynast oft of lágir, svo að nauðsynlegt er að fara fram úr veittum upphæðum.

Á þessu tímabili, sem jeg nefndi áðan, hefir verið svipað hlutfall milli tekna og gjalda. Þar með er ekki meint, að tölurnar hafi verið jafnar. Svo virðist sem tekjurnar hafi alt af farið tiltölulega meir fram úr áætlun en útgjöldin. Og þess vegna hefir tekjuhallinn hjer um bil aldrei orðið minni. Í fjárlögunum 1904–1905 er tekjuhallinn t. d. áætlaður 400,500 kr., en þó varð á því fjárhagstímabili lítils háttar tekjuafgangur. 1912–1913 er gjört ráð fyrir svipuðum tekjuhalla, en þá verður 291,884 kr. tekjuafgangur. Ef tekjuáætlun fjárlaganna hefði ávalt verið svo há, að ekki hefði goldist meira inn en ráð var fyrir gjört, þá býst jeg við að fjárhagsástand landsins væri nú alt annað en glæsilegt. En eins og jeg sagði, hefir jafnan rætst betur úr en búist var við.

Af því að tekjurnar hafa jafnan farið langt fram úr áætlun og tiltölulega meira en gjöldin, hefir leitt, að viðlagasjóðurinn hefir hækkað. Við áramót 1903–1904 er hann ekki nema rúmlega 1 miljón 105 þús. kr. En eins og jeg skýrði frá, þegar jeg lagði fjárlagafrv. fyrir deildina, nemur verðbrjefaeign viðlagasjóða nú rúmlega 1 miljón 905 þúsundum króna. Sjóðurinn hefir með öðrum orðum vaxið um 800 þúsundir króna síðan 1903.

Þessi sjóður hefir verið skoðaður sem eins konar varasjóður. En það er í rauninni ekki fyllilega, því að hann stendur í föstum lánum, og er því ekki handbært fje. Lán úr sjóðnum hafa verið veitt með góðum kjörum, 4–4% rentum. Landssjóður hefir oft orðið að taka lán með hærri rentum. Frá sjónarmiði landssjóðs er þetta því engan veginn góður kaupskapur. En það getur þó haft rjett á sjer fyrir því, að lána sveitarfjelögum fje með góðum kjörum, þegar þau verja því til þjóðþrifa fyrirtækja.

Það sætti aðfinslu á þinginu 1913, að væntanlega útdregin bankavaxtabrjef voru talin til tekna í fjárlögunum. Svo er enn gjört hjer. Jeg býst við að mjer verði leyft að minnast á það við þessa umræðu, þó að það sje einatakt atriði. Þingið 1913 gat þó fallist á þetta fyrirkomulag, vegna þess, að afborganir af lánum landsins eru líka taldar með útgjöldunum. Jeg get því ekki sjeð neina ástæðu til að breyta þessu.

Í rauninni mætti segja, að ef fjármál landsins eru í góðu lagi, þá sje alt fengið. Ef þau eru í ólagi, er lítið hægt að gjöra á öðrum sviðum. Svo er þessu farið um einstaklingana, og eins er það um þjóðfjelagið í heild sinni. Enginn getur komið neinu í framkvæmd, ekki. aflað sjer andlegs forða, auk heldur bætt ytri kringumstæður sínar, nema hann hafi fje til þess. En til þess að afla sjer fjár þarf forsjálni og fyrirhyggju, auk heppni og annara skilyrða, sem menn ráða ekki alls kostar yfir. Mjer skilst, að þingið þurfi einmitt nú að sýna sjerstaklega gætni í öllum fjármálum. Það er ekki unt að vita, hvað þessi »krisis« stendur lengi yfir. Hyggilegast er, að vera við öllu búinn.

Þegar jeg tók við embætti því, sem jeg hefi nú, gat jeg ekki gjört mjer grein fyrir, hve lengi jeg myndi halda því, og það get jeg ekki enn. Ástæðan til þess, að jeg tók við þessu embætti, var sú, að jeg vildi leysa eitt eða öllu heldur tvö mál, sem jeg áleit komin vera í óvænt efni, en taldi. þá hins vegar hægt að fá viðunanlega lausn á. Nú er þessum tveim málum ráðið til lykta á fullkomlega viðunanlegan hátt frá mínu sjónarmiði; þótt ekki líti allir svo á, því miður.

Það er ekki .óviðeigandi, að jeg lýsi því hjer með örfáum dráttum, hver mál jeg mun reyna að styðja til framgangs. Í þessi tvö mál, sem jeg nefndi áðan, og sambandsmálið yfirleitt, hefir verið varið miklum tíma, en árangurinn hefir, því miður, til þessa orðið næsta lítill af tíma þeim, sem til sambandsmálsins hefir gengið, eða enginn. Eins og nú er ástatt, meðan styrjöldin stendur yfir, þykir mjer ólíklegt að sambandsmálið verði tekið upp aftur, enda er tvísýnt, að það geti borið nokkurn árangur. Jeg býst ekki við, að það sje ráðlegt að hreyfa því máli næstu árin við hinn málapartinn, og gæti ef til vill verið rjettast að halda því óhreyfðu lengi. En hitt getum við verið sammála um, að margt er að gjöra í landinu sjálfu, bæði »administrativ« og verkleg fyrirtæki og framkvæmdir. Í verklegum framkvæmdum getur þingið þó ekki gjört svo mikið. Það getur að vísu ráðstafað því fje, sem innheimtist, en það út af fyrir sig nær skamt til að koma öllum fyrirtækjum í gang. Mest í þeim efnum verður að byggjast á framtakssemi einstaklinganna. Og því verður ekki neitað, að einstakir menn hafa gjört mjög mikið að framkvæmdum á síðustu árum. Þarf ekki annað til að sannfærast um um það, en að líta á botnvörpuskipastól þann, sem á síðustu árum hefir risið upp hjer og er alt af að aukast, eða að líta í búnaðarskýrslurnar og sjá allar þær jarðabætur, sem gjörðar hafa verið. Jeg vil ekki segja, að allar þessar framkvæmdir hefðu orðið án tilstyrks þings og stjórnar. Þær hafa ekki einungis orðið fyrir íhlutun og atbeina góðra einstakra manna, heldur og fyrir tilstyrk og uppörfun stjórnarinnar og Alþingis, svo sem með styrk til Búnaðarfjelagsins, sem komið hefir að góðu haldi.

Nú er því áríðandi, að bæði löggjafarvald og stjórn snúi sjer að innanlandamálunum, að ræktun landsins, fiskveiðamálum, sjávarútveginum, samgöngumálum og mentamálum. Hjer er mikill akur að rækta og þingi og stjórn er skylt að leggja sitt fram til þess.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja frekar að þessu sinni. Jeg vænti þess, að háttv. deild taki frumv. til meðferðar á venjulegan hátt og að væntanleg nefnd ljúki störfum sínum svo fljótt sem unt er. Seta þingsins fer mikið eftir því, hvernig sú nefnd starfar. Á undanförnum þingum hefir þótt nokkur brestur á að fjárlaganefnd neðri deildar lyki störfum sínum á hæfilegum tíma, og hafa meðal annars heyrst raddir um það frá háttv. efri deild. Jeg skal ekki segja, að nefndin hafi setið lengur að störfum en þörf hefir verið á, því að störf hennar eru bæði vandasöm og vanþakklár. Jeg hefi bestu vonir um, að nefnd sú, er nú verður kosin, leysi störf sín að minsta kosti ekki síður af hendi en áður hefir verið.