23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Sigurðsson :

Jeg skal reyna að haga orðum mínum svo, að enginn þurfi að hneykslast af, enda miður vel gjört að egna ilt skap og stuðla þannig að því, að umræðurnar lengist úr hófi.

Háttv. fjárlaganefnd, eða meiri hluti hennar, hefir nú komist að þeirri niðurstöðu, að fella niður styrkinn til búnaðarfjelaganna bæði árin. Þó að jeg vilji nú spara landsfje og láta þann sparnað koma eina niður á landbúnaðinum og öðru, þá þykir mjer þetta helst til langt gengið. Þess vegna hefir það orðið að samkomulagi milli mín og meðnefndarmanna minna, að jeg mætti koma fram með brtt., sem er á þgskj. 347, og fer fram á það, að styrkurinn verði veittur síðara árið, og skal jeg nú stuttlega gjöra grein fyrir því, hvers vegna þessu er svo hagað.

Að vísu eru skiftar skoðanir um nytsemi þessarar styrkveitingar. Sumir halda því fram, að hún megi vel missa sig, eða sje jafnvel með öllu óþörf. En menn verða samt að líta á það, að það er ekki lítið þessum styrk að þakka, hvað jarðabótum og ræktun landsins hefir miðað áfram á síðari árum. Þess vegna myndi það koma sjer illa, ef honum væri kipt burtu nú, og ef hann hyrfi bæði árin, þá væri vafasamt, hvort þingið 1917 færi að taka hann upp aftur. Búnaðarfjelögin eru nú flest komin í búnaðarsamböndin og hafa sínar skyldur gagnvart þeim, greiða þeim árlegt gjald, sem þau hafa meðfram tekið af þessum styrk. Ef þess vegna þessi breyting væri nú gjörð, þá myndi það ekki einungis verða til þess að há sveitabúnaðarfjelögunum, heldur og búnaðarsamböndunum. Þess vegna tel jeg það naumast geta komið til mála, að kippa styrknum burt bæði árin. Og jafnvel þótt skoðunin um það, að styrkurinn sje ekki í sjálfu sjer nauðsynlegur, væri á einhverju bygð, þá er ekki enn kominn tími til þess nú, að fella hann burtu. Til þess þarf að gjöra frekari ráðstafanir og undirbúning, t. d. því viðvíkjandi, hvernig sambandi búnaðarfjelaganna og sambandanna ætti þá framvegis að verða háttað o. a. frv. Jeg skil að það geti komið til tals, að breyta forminu á þessum styrk, en það er enn ekki búið að koma sjer niður á því, hvernig þá væri æskilegast að fyrirkomulagið yrði í framtíðinni. Jeg vona því, að háttv. deild sjái það, að full ástæða er til að samþykkja þessa tillögu mína á þgskj. 347, og læt þetta því nægja að sinni. Jeg kannast við, að styrkurinn ætti að standa bæði árin, en bæði af því, að nefndin hafði hvarvetna fyrir augum að spara sem mest, og þarfirnar hins vegar kalla alstaðar að, þá varð þetta ofan á í nefndinni. Yfir höfuð er starfsemi búnaðarfjelaganna og sambandanna komin á svo fastan rekspöl, að það myndi raska þeirri starfsemi mjög, ef styrkurinn alfarið fjelli burt.

Um hækkunina á styrknum til Búnaðarfjelags Íslands skal jeg ekki segja mikið. Hún er meðal annars miðuð við það, að fjelagið geti styrkt mann til þess að kynna sjer vatnsveitur og fullkomna sig svo í þeirri fræðigrein, að hann geti tekið að sjer »kulturteknisk« störf í landsins þjónustu. Og þetta er er eitt af því, sem mælir mjög með hækkuninni.

Viðvíkjandi lánaheimildinni til Skeiðaáveitunnar, vil jeg að eins upplýsa það, að þetta fje, sem nefndin leggur til að veitt verði, 50 þús. kr., er ekki nema rúmur helmingur þess, sem gjört er ráð fyrir að áveitan muni kosta. Þetta er sagt til þess, að menn gjöri sjer það ljóst, að hjer er ekki gjört ráð fyrir láni til fyrirtækisins, nema að nokkru leyti. Hver ráð verða til þess að afla þess fjár, sem á vantar, það kemur ekki svo mjög þessu máli við. Þeir menn, sem þar eiga hlut að máli, munu reyna að sjá þar einhverjar útgöngudyr.

Um fjárveitinguna til Miklavatnsáveitunnar, skal jeg geta þess, eins og bent var á í dag, að hún er í frumv. stjórnarinnar, og er ætluð til þess, að fullkomna það verk, ef kostur er á.

Úr því að jeg stóð upp, þá get jeg ekki leitt hjá mjer að minnaat á örfá atriði í einstökum liðum þessara greina, sem nú eru til umr.

Hæstv. ráðherra gat í dag um styrk til að gefa út Landsyfirrjettardóma frá 1800–1873. Það mun nú vera nauðsynlegt, og ekki hefi jeg á móti því, enda kannast nefndin við það. En mjer skildist svo, sem það hefði verið hugsun fyrrv. stjórnar, að það starf hefði verið ætlað þáverandi háskólakennara Einari Arnórssyni. En með því að hann er nú orðinn ráðherra, muni hann ekki geta snúist við því, en vafasamt, hvort annar myndi fást jafn fær til þess starfa. (Ráðherra: Jú, jú. Nógir menn, sem kunna að lesa prófarkir). Hvað sem því líður, þá býst jeg við því, að þótt þetta kunni að vera þarfaverk, þá sje það þó, eins og sumt annað, að það geti ekki kallast beinlínis aðkallandi nauðsynlegt.

Þá skal jeg minnast á styrkveitingar til lista og vísinda. Þar hefir sjerstaklega háttv. þm. Dal (B. J.) vítt nefndina fyrir það, að þessi liður í fjárlagafrumvarpinu skuli vera sundurliðaður í nefndarálitinu, eins og þar er gjört. En mjer er óhætt að segja, að sú sundurliðun er ekki annað en bending um það, að nefndin telur sjálfsagt, að þeir, sem að undanförnu hafa notið þeirra styrkveitinga, fái að halda þeim áfram. Bæði hún og flestir aðrir hafa litið svo á, að þeir, sem um mörg undanfarin ár hafa notið styrksins, eigi rjett á því, að þeir sjeu ekki sviftir honum nú, þótt þessi breyting verði, og þessu minnir mig, að jeg hafi einmitt skotið að hv. þm. í dag, þegar hann var að fjargviðrast út af þessu. (Bjarni Jónsson: En er þá meiningin að útiloka, að þeir fái hærri styrk en verið hefir?). Nei, ekki hygg jeg það. — Um upphæðina í heild sinni hafa verið skiftar skoðanir, og varð ofan á í nefndinni að hafa hana 9 þús. kr. á ári. — Hæstv. ráðh. ljet það í ljós í umræðunum í dag, að sjer hefði þótt fara betur á því að hafa þá upphæð hærri, og að stjórninni bæri ekki skylda til að úthluta henni allri. Það getur nú verið, en trúað gæti jeg því, að fleiri yrðu þeir ráðherrarnir, sem myndu útbýta öllum styrknum, jafnvel þótt hann væri nokkrum þúsundum hærri en til er tekið, og jafnvel telja það skyldu sína. — Að minsta kosti er jeg sannfærður um það, að ef háttv. þm. Dal. (B. J.) yrði einhverntíma ráðherra, þá myndi hann ekki telja það á sig. (Bjarni Jónsson: Alveg rjett). Jeg segi það ekki til þess að ámæla þeim vísa manni. Það vita allir, að það væri samkvæmt skoðunum hans: Þess vegna álít jeg það rjett gjört af þinginu að takmarka þann gjaldalið sem mest. Jeg skal fúslega kannast við það, að mjer þætti það æskilegast, að geta sint öllum þeim fjárbeiðslum, sem jeg hjeldi að gætu á einn eða annan hátt orðið til gagns. Ef ástæður og fjárhagur leyfðu, þá vildi jeg vera þeim meðmæltur. En það er hjer eins og annarsstaðar, að getan verður að ráða, og þar sem ekki er hægt að sinna öllu, jafnvel ekki öllu því, sem gagnlegt er, þá verður að vinsa úr og láta það sitja fyrir, sem álitlegast er og arðvænlegast.

Hins vegar þykist jeg nú vita, að skiftar skoðanir sjeu um það, hvað það sje, og skal jeg ekki fara langt út í það. En þó að listir og vísindi sjeu mikils virði hjá okkur eina og öðrum þjóðum, þá verður þó fyrst og fremst að styrkja þau fyrirtæki, sem styðja beinlínis að velmegun þjóðarinnar, svo sem atvinnuvegina o. fl. Og þegar það hefir verið gjört um skeið, þá kemur sá tími, og það vona jeg að verði áður en langt um líður, að þjóðin verður færari til að sinna vísindunum og veita ríflegri styrk til skálda og listamanna.

Hæstv. ráðherra mintist eitthvað á styrk til að kaupa gerlarannsóknaráhöld Gísla Guðmundssonar og að veita honum þóknun framvegis fyrir rannsóknir hans. Þótti honum miður, að embætti það, sem um var rætt hjer í þinginu að stofna við Háskólann, skyldi falla, því að þar ættu að fara fram slíkar rannsóknir jafnhliða. En jeg vil nú fyrir mitt leyti ekki setja það tvent í samband, því að það er óskylt. Starf Gísla hefir verið í þarfir atvinnuveganna og landbúnaðarins, og sjerstaklega miðað að því, upp á síðkastið, að rannsaka gerla í mjólk og osti, í þeim tilgangi að bæta tilbúning og meðferð mjólkurafurða og greiða með því götu þeirra til hærra verðs en nú á sjer stað.

Jeg verð að álíta þetta þýðingarmikið atriði fyrir landbúnaðinn, og jeg sje ekki að það þurfi að verða þessari fjárveitingu að falli, þótt þetta háskólaembætti fjelli hjer í háttv. deild.

Jeg mun svo ekki fara frekar út í einstaka liði í brtt. nefndarinnar, eða brtt. einstakra manna; það myndi verða of langt mál. En það mun sjást á sínum tíma, er til atkvæðagreiðslu kemur, hver er afstaða mín til hinna ýmsu styrkbeiðna.