23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Magnús Kristjánsson :

Jeg býst ekki við að tala langt mál. En það er eitt mál, sem mikið hefir verið talað um, en virðist þó talsvert óljóst fyrir háttv. þingmönnum, en það eru tillögurnar viðvíkjandi brimbrjótnum í Bolungarvík. Þær eru fjórar og talsvert mismunandi.

Fyrst er tillaga stjórnarinnar um 10 þús. kr. hvort árið. Í öðru lagi er tillaga nefndarinnar um sömu upphæð, en að styrkveitingin sje bundin tveimur skilyrðum, í fyrsta lagi því, að verkið sje framkvæmt eftir fyrirsögn verkfróða manns, og í öðru lagi, að lögð sje fram eigi minni upphæð annarsstaðar frá. — Þriðja tillagan er frá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um 15000 kr. hvort árið, og loks kemur 4. till. frá sama háttv. þm., sem er viðaukatillaga sama efnis og fyrra skilyrðið, sem fjárln. setti fyrir styrkveitingunni. Þetta eru nú nokkuð margar tillögur og breytilegar, og jeg verð að álíta, að það muni vera nokkuð óljóst fyrir ýmsum mönnum, hvað verið er að gjöra stundum, hvort heldur er verið að gjöra hafnir tryggar eða bryggjur í stórum og smáum stíl, víðs vegar kringum landið. Og jeg álít, að svo búið megi ekki standa lengur, að menn gjöri sjer það ekki ljóst, hverjar afleiðingar það hefir, að samþykkja fjárveitingar til slíkra fyrirtækja, ef þeim er hagað svona alveg út í loftið. Það er ekkert á móti því, þegar um einhverja smá- bryggjuna er að ræða, að landið leggi til hennar svo sem 1/4 kostnaðarins, því að þá peninga getur það borið upp á annan hátt, þar sem með því sparast bæði tími og fje við greiðari afgreiðslu strandferðaskipanna o. fl.

En það horfir nokkuð öðruvísi við, þegar um það er að ræða, að ráðast í stórfyrirtæki, þar sem kostnaðurinn veltur á hundruðum þúsunda. Það er nú upplýst, að í þennan brimbrjót er þegar búið að leggja 40 þús. krónur úr landssjóði, og hjer er enn farið fram á 30 þús. kr., auk þess sem hjeraðið hefir þegar lagt talsvert fje í fyrirtækið, og þó vantar enn yfir 200 þús. krónur. Þegar þessa er gætt, þá finst mjer vera kominn tími til að athuga, hvernig á að ráða fram úr þessu.

Það er víst, að það er óhjákvæmilegt, að vinna þetta verk áfram, og það sem fyrst. Og eins víst er hitt, að ekki tjáir að ætlast til þess af hjeraðsbúum, að þeir geti lagt fje í það til muna hjeðan af. Þá verður landið að taka verkið að sjer, og þá finst mjer jafnframt, að komi annað til greina, og það er, að tryggja sjer að landið fái þar þær lóðir, sem þarf til þess, að menn geti stundað þar þann atvinnurekstur, sem nauðsynlegt kann að verða. Hvort það gæti orðið með samkomulagi eða þá þannig, að taka þyrfti landið eignarnámi, það er annað mál. En víst er um það, að þetta mannvirki er þá orðið landsins eign, og þá á landið að geta lagt þar gjöld á atvinnureksturinn, að minsta kosti sem svarar vöxtunum af fje því, sem til þess hefir verið varið.

Jeg býst ekki við, að þingmenn geti nú annað gjört en að greiða atkvæði með stjórnarfrumv., auðvitað með þeirri athugasemd, að verkið fari fram undir umsjón verkfróðs manna. Allar aðrar tillögur eru alveg þýðingarlausar, og miða að eins til að hefta framgang verkeins, en það er alveg ófært, þar sem um jafnmikið fjárspursmál og jafnstóran atvinnurekstur er að ræða. Það er ekki að tala um, að halda föstu því skilyrði, að hjeraðsbúar, skuli leggja svo og svo mikið fram.

Jeg hefi sagt þetta til þess, ef verða mætti, að málið yrði tekið til nákvæmari íhugunar, því að það hlýtur að reka að því innan skamms, að í það verði lagt mikla meira fje, og þá vil jeg að menn hafi fyrir augum, að algjörð stefnubreyting verður að eiga sjer stað um fjárframlagið, eins og jeg hefi bent á hjer að framan.