28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Stefán Stefánsson: Jeg á hjer þrjár brtt , sem allar eru gamalkunnugir gestir hjer í deildinni. Fyrst er brúin á Ólafsfjarðarós, sem var samþ. hjer á dögunum með 15:7 atkv., og hefir það veitt mjer djörfung til þess, að bera hana hjer fram aftur, þótt háttv. Ed. færi um hana svo hörðum orðum. Jeg þykist ekki þurfa að fara að segja hjer tildrög þess máls, því að jeg rakti sögu þess við 3. umræðu. Að eins skal jeg geta þess, að þarna hafa einir 136 menn lofað að greiða alt að 4 þús. kr. á ári í 4 ár, til vegar, sem alls á að kosta full 20 þús. kr., og svo hins, að þetta var eina fjárveitingin til Eyjafjarðarsýslu, sem var í fjárlagafrumvarpinu hjeðan til Ed. Jeg minnist þess ekki, að hafa heyrt, að svo fáir menn hafi boðið svo rausnarlegt boð til móts við fjárlagastyrk, og jeg treysti því þess vegna, að það hafi ekki áhrif til hina verra á þessa háttv. deild, hvernig þessi litla og hógláta tillaga hefir verið leikin í háttv. Ed. Að farið er fram á þenna styrk, byggist á því, að verkið verður að byrja á brú, sem áætlað er að kosti 3400 kr., og það treysta sveitarbúar sjer ekki til að leggja fram, svona alt í einu.

Jeg hefi víst getið þess hjer áður, að þessi brú sje bara á hreppavegi, en hún á að byrja veg, sem kemur saman við sýsluveg, þegar búið er að leggja af honum 5000 faðma, og síðan verður þeim vegi haldið áfram. Jeg vænti þess, að háttv. deild taki þessu máli jafnvel og síðast.

Önnur till. er um framhald akvegar frá Akureyri og inn í Öxnadal. Í stjórnarfrv. var sú upphæð tiltekin 7 þús. kr., og man jeg, að stjórnin ljet þess getið, að hún væri svo takmörkuð einungis af því, að fje skorti. Þessi fjárveiting var nú samt feld bjer með talsverðum atkvæðamun, svo að jeg sá mjer ekki fært að fara fram á meira en 3 þús. Að þessum vegi hefir nú verið unnið í sumar fyrir 5 þús. kr., sem nú eru veittar í fjárlögunum, og þegar það fje var veitt, þá var ætlast til þess, að það gengi til þess, að gjöra við torfærur frá Moldhaugnahálsi og inn að Bægisá, en verkfræðingur landsins vildi láta verja því til áframhalds vegarins svo að nú standa torfærurnar eftir, og er ógjört við þær. Jeg vil því mikillega mælast til þess, að þessi till. verði samþykt, enda mætti það undarlegt heita, ef ekki fengist svo lítil fjárhæð til vegar, sem þrír hreppar nota mest eða eingöngu til aðdrátta, þar sem nefndin hefir aftur á móti lagt til, að hækka styrkinn til Langadalsvegarins úr 3 þús. upp í 7 þús. kr., og notar hann þó ekki nema einn eða hálfur annar hreppur til aðdrátta, og báðir eru þessir vegir þó jafnt á þjóðvegarleið. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sjái ofsjónum yfir því, þótt bætt sje við styrkinn til Langadalsvegarins, heldur af því, að það er ekki samrímanlegt að gjöra það, en ganga um leið alveg fram hjá Öxnadalsveginum, þótt þrjár sveitir noti hann, auk allrar almennrar umferðar.

Síðasta brtt. mín er þess efnis, að styrkurinn til sálarfræðisrannsókna sje færður niður úr 3 þús. kr. hvort árið í 1500 kr. Sú fjárveiting er nú búin að ganga hjer á milli manna í þinginu með ýmsum breytingum, og hefi jeg alt af verið í móti henni og aldrei komið auga á það, að hún geti haft nokkra verulega eða »praktiska« þýðingu. Fyrst kom fram frv. um að stofna nýtt prófessorsembætti við Háskólann, þar sem átti að kenna hagnýta sálarfræði. Í nefndinni, sem um það mál fjallaði, var sagt, að ekki hefði verið nema einn maður með frumvarpinu. Svo var stungið upp á dócents stöðu, og þá fengust víst tveir. Síðan var þessu máli vikið frá með rökstuddri dagskrá, en upp úr því verður svo 3 þús. kr. fjárveiting á ári í fjárl., til þess að endurbæta — ja, jeg trúi vinnubrögð í landinu. Svo fór þetta hjeðan til hv. Ed., en það lítur út fyrir að »lávarðarnir« hafi ekki skilið vel, hvað meint var með þessum dýrindis vinnubrögðum, því að þeir hafa nú breytt endurbótunum á vinnubrögðunum í sálarfræðisrannsóknir, en 3 þús. kr. styrknum á ári hafa þeir þó haldið. Jeg sje nú ekki, að gagnið af þessu muni aukast neitt fyrir það, hvernig sem hringi að er með nöfnin á því, og til þess því, að ekki skuli vera varið svo miklu fje til þess, sem jeg tel, að ekki muni verða að neinum verulegum notum, þá legg jeg til, að þessi fjárhæð sje færð niður um helming, með það fyrir augum, að þessi maður, sem jeg álít að sje góðs maklegur, þurfi ekki að hætta við stöðu sína við Landsbókasafnið, en geti þó unnið að því, sem jeg tel að muni þó ef til vill geta orðið til nokkurra bóta, sem sje ef hann gæti ferðast út um sveitir ríma úr árinu og leiðbeint mönnum. Hygg jeg, að ekki sje farið verr með manninn eða styrkinn á þann hátt, en þótt veittar væru 3 þús. kr. á ári til þess að fást við einhverjar rannsóknir hjer eða í útlöndum.

Hann gegnir stöðu sinni við Landsbókasafnið, en einhvern vissan tíma ætti hann svo að vera úti um alt land. Jeg held meira að segja að það væri miklu hagkvæmara, heldur en að veita honum þrjú þúsund krónur til að kynna sjer málið úti í heimi. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje þessu máli mótfallinn, heldur af því að jeg, eins og jeg þegar hefi tekið fram, álit hitt miklu heppilegra.

Jeg sje að það er komin fram brtt. frá háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), um að fjárveitingin hljóði upp á tilraun til að bæta vinnubrögð í landinu. Mjer fyrir mitt leyti finst það eiga betur við, að samþykkja hana, Hann gæti þá ferðast um landið á sumrum sjer til skemtunar, án þess að það ætti að vera nokkur sjerstakur skaði fyrir Landsbókasafnið, enda gæti hann þá fengið mann í sinn stað, þann tíma. Það hefir verið svo mikið um þetta mál rætt, að jeg get ekki verið að orðlengja um það, en legg málið á vald háttv. deildar.

Þá hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. við 10. lið 12. gr., um miðstöðvarhitun í Holdsveikraspítalanum, sem fer í þá átt, að heimila stjórninni að fresta þessu verki, meðan efni alt er svo miklu dýrara en venjulega. Mjer er sagt, að það sje ekki bráðnauðsynlegt, og því möguleikar á því að fresta því þangað til, að efni fæst með hæfilegu verði. Jeg heyri sagt, að reykurinn sje ekki verri nú enn hann hefir verið. En falli verðið á efninu, þá er sjálfsagt fyrir stjórnina að láta framkvæma verkið.

Framsm. (P. J.) mintist á 200 króna fjárveitingu til sútunar á skinnum. Það er ekki nema von, að hann álíti það fjarstæðu. Mjer er sagt, að þessi fjárveiting sje einungis ætluð til hlutafjár söfnunar í því skyni. Það eru skósmiðir og söðlasmiðir í Skagafjarðarsýslu, sem vilja safna hlutum bæði í Húnavatnssýslu, Eyjafjarðarsýslu og svo í sinni eigin sýslu. Af því að þetta er svo lítil upphæð, þá greiði jeg atkvæði með þessu. Og sannast að segja., eru það nærri því vandræði að sækja öll skinn út úr landinu og kaupa þau við hærra verði en annars mundi vera kostur á. Fyrir nokkrum árum var byrjað á sútun skinna á Seyðisfirði, og mjer er sagt, að hún starfi enn og gangi vel. Þetta er góðra gjalda vert og óskandi, að fleiri fyrirtæki í þessari atvinnugrein kæmust á fót og gætu borið sig.

Jeg fjölyrði svo ekki meira um fjárlögin að sinni, en kann að koma að þeim síðar.