18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

110. mál, landsreikningar 1912 og 1913

Framsm. (Magnús Kristjánsson) :

Það er svipað að segja um þetta mál eins og það síðasta, sem var til umr. (Fjáraukal. 1912–13) að ekki er þörf á langri framsögu. Það hefir nú verið gjörð ítarleg grein fyrir fjárhag landsins af hæstv. ráðherra og háttv. framsm. fjáraukalaganna og fjárlaganna (P. J.). Það væri því ástæðulaust fyrir mig að fara nákvæmlega inn á einstök atriði. Það er sýnilegt, að endurskoðunin hefir verið framkvæmd af mikilli samviskusemi, enda hafa verið gjörðar margar athugasemdir. En eftir að stjórnin hefir svarað athugas. endurskoðendanna, hefir margt verið upplýst, svo að endurskoðendur hafa alloftast lagt til, að við svo búið mætti standa. En þrátt fyrir þetta góða samkomulag hefir nefndin samt fundið ástæðu til að benda á ýmislegt, sem betur hefði mátt fara, og get jeg í því efni vísað í nefndarálitið á þgskj. 344, og skal jeg ekki fara frekar út í það mál. Ef umræðurnar gefa tilefni til þess, mun jeg reyna að skýra einstök atriði.

Það eitt skal jeg taka fram; að sú skekkja, sem er á reikningnum fyrir árið 1912, er leiðrjett í reikningnum fyrir árið 1913, svo að hún hefir engin áhrif á sjálfa reikningsniðurstöðuna.

Nefndin er því á einu máli um það, að leggja til að reikningarnir sjeu samþyktir eins og þeir liggja fyrir.