06.09.1915
Neðri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

110. mál, landsreikningar 1912 og 1913

Framsm. (Magnús Kristjánsson):

Það er sama að segja um þetta mál, og hitt sem jeg talaði um áðan, fjáraukalög fyrir árin 1912 og 1913, að það hefir orðið meiningamunur um það milli deildanna. Háttv. nefnd í Ed. hefir ekki getað fallist á gjörðir okkar í þessu máli, og við getum ekki orðið henni samdóma.

Eina brtt. háttv. Ed. getum við fallist á. Það er við 10. lið útgjaldanna. Þar hafði misritast 40,324,10kr, fyrir 40,325,10 kr., þennan einnar krónu mismun er sjálfsagt að leiðrjetta. En svo koma tvær brtt. sem við getum ekki fallist á.

Í stjórnarframv. eru taldar 250 þús. kr. gjaldamegin til jafnaðar móti lántökum landssjóðs, en lánið var alt 750 þús. kr. Háttv. Ed. vill breyta þessu þannig, að telja alla upphæðina 750 þús. kr. gjaldamegin til jafnaðar. Þetta viljum við ekki fallast á. Því að þegar reikningurinn var gjörður, þá voru 500 þús. kr. óeyddar af láninu, og því er alveg rjett að telja þessa upphæð með öðrum tekjuafgangi, eins og stjórnin hefir gjört.

Við leggjum því til, að breyta þessu aftur, eins og það var í stjórnarfrumv., og færa þessar 500 þús. kr. aftur sem tekjuafgang á fjárhagstímabilinu.