21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

30. mál, vörutollaframlenging

Björn Hallsson:

Það er að eina stutt athugasemd. Eins og nefndarálitið ber með sjer, leggjum við nefndarmennirnir til, að frumvarpið verði samþykt óbreytt. Það er þó ekki fyrir það, að við sjeum allir ánægðir með það, heldur sáum við ekki aðra leið færa en að framlengja vörutollslögin eitthvað, og þá vildum við tiltaka sama takmark fyrir framlengingunni og stjórnin hafði gjört í frumvarpi sínu.

En jafnframt vakti svipuð skoðun fyrir meiri hluta nefndarinnar, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafa látið í ljós, að heppilegast væri að stjórnin undirbyggi skattamálin undir næsta þing, svo að þá væri hægt að taka ákvörðun um, hvort haldið væri áfram með þessi lög eða vörutollinum breytt í beina skatta að einhverju leyti. Þetta er okkar tillaga um það atriði. Hins vegar höfum við ekki tekið ákvörðun um verðtollsfrv. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að ekki sje tiltækilegt að samþykja slík lög nú. Úr því að vörutollurinn hefir einu einni komist á, og alt það kerfi hefir verið sett í framkvæmd, kostar það ekki litla fyrirhöfn að fara nú að breyta til, og einkanlega er í mikið ráðist, þegar ekki er vissa fyrir því, að skift sje um til hina betra. Jeg hygg, að verðtollurinn verði erfiður til framkvæmda. Einnig hygg jeg, að það sje mikið spursmál, hvort ekki sje rjettara að stefna meira að föstum sköttum. Skattalögin frá 1877 eru orðin of gömul; eignir í landinu hafa afarmikið breytst síðan. Hitt er bersýnilegt, að það þarf sterkan tollstofn, til þessa að vinna upp á móti vörutollinum, og til þess duga ekki beinir skattar einir. Mjer þykir því líklegt, að vörutollslögin þyrfti að framlengja að einhverju leyti, en draga úr þeim það, sem fengist með beinum sköttum, ef þeir yrðu á einhvern hátt lögleiddir. Jeg get ekki verið á sömu skoðun og háttv. framsm. (B. K.), að vörutollurinn eigi að gilda endalaust. Jeg álít, að hann komi að ýmsu leyti misjafnlega niður, og sje þar af leiðandi talsvert ósanngjarnt. Þetta mál þarf að athuga rækilega. Það er síst vanþörf á, að það sje rætt á milli þinga, svo að bæði stjórninni og landsbúum gefist tækifæri til að láta uppi álit sitt á því.

Jeg get tekið undir með háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að það sje vilji okkar þingmanna flestra, að flýta þinginu fremur en seinka því. Jeg hygg, að það yrði því ekki til annars en að auka fyrirhöfn, að fara að samþykkja verðtollslög nú, sem svo yrðu afnumin aftur á næsta þingi, sem vel mætti búast við eftir öðru lagahringli nú.

Mjer skildist á háttv. þm. Dal. (B. J.), að ekki lægi á að flýta þinginu. Jeg skal taka það fram, að jeg vil ekki að við flaustrum neinum málum af um skör fram, en hina vegar vil jeg ekki, að við höngum hjer lengur en þörf er á. Og það verð jeg að segja, að ekki er alt, sem við gjörum hjer, mjög mikils virði fyrir þjóðina, að minsta kosti ekki það, sem við höfum verið að starfa nú dagana undanfarið, þar sem þrír dagar hafa gengið til þess, að þvæla um mál, sem alveg var til lykta leitt.