04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

30. mál, vörutollaframlenging

Sveinn Björnsson:

Fyrst enginn tekur til máls, þá álít jeg rjettara að skýra háttv. deild frá, hvers vegna brtt. á þgskj. 193 er fram komin. Þegar litið er á málið í sjálfu sjer, þá sjá allir, að heppilegra væri að strigi og segldúkur sjeu ekki í sama vöruflokki og silki. Það sjá allir, að ekki er heppilegt að sami tollur leggist á hvort um sig. En nú er því þannig háttað, að mikið af striga er flutt hingað til landsins til fiskumbúða. Mest kemur þessi strigi frá Englandi; er hann nýr, þegar hann kemur hjer fyrst, og er þá tollaður sem silki í sama flokki. Síðan fer hann út sem umbúðir um fisk og kemur því næst aftur tvisvar eða þrisvar sinnum, og hefir þá þyngst gríðarmikið. Og ábyggilegur og fróður maður um þetta hefir sagt mjer, að þá væri striginn enn tollaður sem silki. Menn hafa fundið sárt til þessa, bæði í Reykjavík og víðar, sem von er. Og því er það, að 11 fiskútgjörðarmenn úr Reykjavík og af Vesturlandi hafa sent þinginu erindi, þar sem farið er fram á, að breyting verði gjörð á þessu. Erindi þetta hefir legið frammi á lestrarsal, og er vonandi að háttv. þingmenn hafi kynt sjer það.

Jeg skal leyfa mjer að lesa nokkrar línur upp úr erindinu. » . . . Í fyrsta lagi er strigi til fiskumbúða mestmegnis fluttur inn frá einu landi (Englandi), og svo mikið í einu af hverjum einstökum, að engin vefnaðarvöruverslun mun taka til eins árs, sem nemur 1000 metrum, en sem fiskútflytjendur fá oft í einni sendingu 4–5000 metra. Þetta er auðskilið, þar sem vefnaðarvöruverslanir flytja inn striga af líkri gjörð, að eins til fatnaðar (millifóður)«.

Frá sjónarmiði þeirra, er á móti frv. kunna að vera, er að vísu hægt að segja, að svíkja megi inn vöru í skjóli strigans, en sú mótbára er ekki rjett.

Ef rjettilega er að gáð, þá gildir sama um striga og ýmsar aðrar vörur, samkvæmt breytingu á vörutollslögunum 2. nóv. 1914, eins og um tóma poka og strigaábreiður.

Jeg þykist samt vita, að sagt muni verða, að vefnaðarvöruverslunum sje í lófa lagið að gefa upp vefnaðarvöru sem striga, og þær muni gjöra það, ef tollur á striga verði lækkaður. En eins og bent er á í erindinu, þá er striginn mest megnis fluttur inn frá einu landi og fluttur til ákveðinna manna, þ. e. útgjörðarmanna; og ef vefnaðarvöruverslanir gæfu upp striga svo um munaði, þá er hægurinn hjá að aðgæta, hvort þær í raun og veru fengju svona mikið af striganum, og ef um svik væri að ræða, þá hlytu þau þannig að komast upp. Þetta eftirlit er auðvelt að mínu áliti.

Jeg vona að háttv. deild fallist á, að hjer er ekki einungis um sanngirniskröfu að ræða, heldur sje þetta og nauðsynlegt til að koma lögunum í samræmi við sjálf sig.