12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

47. mál, atvinna við siglingar

Guðmundur Eggerz :

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 278. Jeg var raunar fyrst í vafa um, hvernig ætti að taka ákvæðum 2. gr., en við nákvæma íhugun komst jeg að þeirri niðurstöðu, að ófært væri að láta hana standa.

Háttv. framsm. (M. Ó.) sagði, að allir formenn ættu að þekkja þessi skilyrði. Jeg ímynda mjer, að allir formenn þekki á áttavita, en hitt atriðið, alþjóðareglur um ásigling, efast jeg um að sje eins einfalt og háttv. framsm. (M. Ó.) telur það vera, því að það kemur væntanlega undir því, hverjar kröfur yrðu gjörðar.

Háttv. framsm. (M. Ó.) sagði, að hver maður geti lært þessar reglur á einum degi. Þetta getur ekki verið rjett. Jeg hefi hjer sönnunargagn fyrir mjer, reglur upp á 50 bls. og munu fáir svo gáfaðir, að þeir læri þær á einum degi og gangi síðan undir próf. Og alt annað er að taka próf í þessum einum, eða hitt, að geta stýrt þannig vjelbát, að engin hætta stafi af. Jeg ímynda mjer að fæstir gætu fengið þenna undirbúning á skemmri tíma en viku eða hálfum mánuði. Það má segja, að þeir gætu lært þetta á vetrum, eða öðrum tíma, þegar þeir róa ekki. En setjum svo, að þeir hefðu fengið þenna undirbúning og gengju undir próf hjá siglingafróðum manni, þá er að athuga, hvað er skilið við siglingafróðan mann. Annaðhvort hlýtur hann að hafa próf frá stýrimannaskóla, eða eitthvert próf, sem því jafngildir. Afleiðingin er sú, að ekki er víst, að slíkur siglingafróður maður verði í hverju kauptúni, og gæti þá orðið langt að fara og kostnaðarsamt. En svo eru engar reglur um það, hvernig eigi að prófa. Slíkt gæti þá verið komið undir geðþótta hvers eins. Enn fremur er ekkert sagt um það, hver eigi að greiða kostnaðinn við prófin. Einhver yrði hann þó.

Hins vegar gæti sjómannastjettinni orðið bagi að þessu, t. d. formaður yrði veikur, eins og oft getur orðið, og enginn væri þá á bátnum til að stýra, og yrði þá ekki róið; en dýrir geta hlutirnir orðið fátækum að missa.

Af þessum ástæðum vil jeg fella úr 2. grein.

Jeg skal taka það fram, að bera hefði átt málið undir Fiskifjelagið og fiskideildir landsins.

Jeg skal þó geta þess, að 29. l. brtt. bætir mikið úr, þar sem ákveðið er, að þeir, sem nú eru formenn, þurfi ekki að taka próf.

Jeg get tekið dæmi til þess að sýna, hvaða gagn þetta ákvæði gjörir. Við skulum segja, að maður rói suður í Garði. Hreppstjórinn vill fá að vita hvort hann hafi verið formaður áður; maðurinn svarar því játandi, og þá dettur hreppstjóranum ekki í hug að rekast meira í því. Þetta dæmi sýnir best, hvílíkt pappírsgagn í raun og veru 2. gr. er orðin, sbr. 29. lið brtt.

Jeg ætlaði að tala miklu meira um þetta mál, en bekkirnir eru nú sem oftar auðir hjer í þingsalnum, þegar mál sjómannastjettarinnar eru til umræðu. Jeg óskaði þess í byrjun ræðu minnar, að málið yrði tekið út af dagskrá sökum þess, að öll deildin er stödd inni í háttv. Ed., til þess að hlusta á umræður um brennivínsmálið.