20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Sveinn Björnsson:

Það er ekki rjett að segja, eins og sagt hefir verið, að tilgangurinn með þessari brtt., sem jeg og aðrir hafa flutt fram á þgskj. 453, sje sá að »pilla« nokkrar krónur í landssjóð. Það vakti fyrir mjer, að um leið og seðlaútgáfurjetturinn væri aukinn, þá væri að vel við eigandi að löggjafarvaldið ljeti það koma fram á einhvern hátt, að það væri nokkuð fast á þessum rjetti sínum. Um formið má deila. En það finst mjer sanngjarnt, að þegar íslandsbanki færi leyfi til að gefa út seðla, sem eru ógulltrygðir, og þannig sama sem fengnir að láni hjá löggjafarvaldinu, að bankinn greiði þá ekki sömu lágu vextina sem áður af hinni gulltrygðu seðlafúlgu; ef hann hefir nokkura þörf fyrir aukninguna, tel jeg ekki eftir bankanum að greiða þetta gjald. Annars væri að ræða um peningagræðgi bankans, sem óþarft væri að svala. Aðalatriðið er þetta, að bankinn sjái um, að nógir seðlar sjeu til fyrir viðskiftaveltuna.

Jeg skildi ekki háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) Hann sagði, að ef till. á þgskj. 453 væri samþykt, þá væri það sama sem að ætla bankanum að greiða 6% vexti af seinni hlutanum. Mjer er óskiljanlegt, hvernig háttv. þm. fær þetta úr. Segjum, að bankinn hafi úti 600 þús. kr., þá nemur tryggingin 300 þús. kr., en eftir verða þ´að aðeins 100 þús., sem bankinn greiðir af 4%. Þetta skilja allir, sem athuga vilja.