03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson):

Það er ekki gustuk að þreyta menn á löngum ræðum, enda skal jeg ekki vera langorður.

Jeg nota tækifærið til að slá því föstu, að við umræðurnar um daginn komu fram frá minni hlutanum tvær aðalástæður gegn frv., og þær voru ekki á rjettum rökum bygðar.

Önnur var bygð á því, að það væri hugmynd meiri hluta nefndarinnar, að bannað væri algjörlega að flytja út innlendar afurðir. En nefndinni hefir aldrei komið til hugar, að bannað væri að flytja út meira en sem nemur litlum hundraðshluta útfluttra afurða landsins.

Hin var bygð á því, að hvort sem bannað væri að flytja út mikið eða lítið, þá væri það áreiðanlega víst, að afurðirnar yrðu færðar niður. Þetta hefir þó nefndin hvergi látið í ljós.

Í öðru lagi vil jeg benda á það, að í ástæðum minni hlutans felst það, annað tveggja, að ekki geti til þess komið, að hefta þurfi útflutning; þeir um það, hvað þeir hugsa um þetta atriði. En svo getur líka falist í þeim vantraust til stjórnarinnar, um að hún beiti þessari heimild vel: Þann grun tel jeg ástæðulausan, ekki síst þar sem stjórninni verður til aðstoðar 5 manna nefnd kosin hlutfallskosningum af öllum flokkum.

Að lokum skal jeg leyfa mjer að óska nafnakalls um brtt. á þgskj. 113. Jeg giska á, að það geti verið þægilegt fyrir stjórnina, að vita ef neyð verður í landinu vegna matvælaskorts, til hverra þingmanna hún geti snúið sjer.