03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson):

Það eru 2–3 athugasemdir, er jeg vildi koma fram með. Fyrst er það, að háttv. þm. Ak. (M. K.) skaut því fram, að fella algjörlega burt 2. og 3. málsgr. 3. gr. frv., en láta að eins ákvæðið um eignarnámið standa. Hæstv. ráðherra svaraði þessu, en jeg að eins undirstrika það, að eignarnám getur verið óþægilegra en bann, og allra síst ef menn óttast að lögin verði misbrúkuð, er betra að byggja á eignarnámi en banni. Ef ekki er hægt að tryggja nógar vörur í landinu með útflutningsbanni, þá er það ekki fremur hægt með eignarnámi.

Þá var það eitt atriði hjá háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem jeg vildi athuga. Reyndar lýsti hann því yfir, að full þörf væri á að gjöra ráðstafanir, vegna ástandsins í heiminum. Mjer þátti vænt um að heyra þetta, því að það hefir ekki fyr heyrst úr hóp þeirra, er á móti mæla. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Það er enginn vafi á því, að landið græðir miklu meira á hækkun verðsins á íslensku vörunum en það, sem það skaðast á hækkun verðlags á útlendum vörum, því er rjettara að flytja íslensku vörurnar út og kaupa útlendar vörur í staðinn.

Þetta lítur vel út, en í fyrsta lagi vantar sannanir um verðhækkun varanna, og þegar fram á kemur, eru ýmsar orsakir, er binda þetta. Við vitum ekki nú, hvernig þetta muni verða í haust. Það getur vel staðið svo á í haust, að það borgi sig betur að kaupa hina hækkuðu íslensku vöru en hina hækkuðu útlendu vöru. Útlenda varan getur hækkað svo mikið. Jeg vil benda háttv. þm., sem eru mótfallnir útflutningsbanninu, á það, að vel getur farið svo, að það verði búmannlegra, að kaupa íslensku vöruna, þótt með hækkuðu verði sje, en að sæta því verði, sem í gefnu augnabliki kann að verða á útlendu vörunni. Auk þess vil jeg benda á það, að útlenda matvaran er mestmegnis kornmatur. Það má komast langt með því, að lifa á kornmat, en einhvers staðar er það sagt, að maðurinn lifi ekki á einu saman brauði, og jeg hygg að það sje rjett. Og að flytja út úr .landinu allan fisk og alt kjötmeti, en flytja tóman kornmat inn í staðinn, að flytja út allar kjarnbestu. manneldisvörurnar, en kaupa aðrar lakari í staðinn, þótt ódýrari kunni að vera, það er ósannað mál, að það borgi sig. Danir hafa deilt mikið um þetta, eða þessu líkt, og munu margir kannast við það, sem hjá þeim er kölluð »Margarinepolitik«, Þeir flytja út því nær alt smjör sitt, svo sem kunnugt er, en kaupa smjörlíki í staðinn, og orkar mjög tvímælis, hvort það sje rjett.

Nei, svo falleg sem kenning þeirra háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) kann að vera til að sjá, þá vantar mikið á það, að hún hafi rök við að styðjast, sem bygt verði á.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) gjörði margar fyrirspurnir. Jeg heyrði eiginlega ekki nema eina af þeim, og hún er þessi :

Er það meiningin, að þessi bannaða vara, sem ekki fæst útflutt, fáist þá seld hjer innanlands við sama verði og fyrir hana fengist, ef leyfilegt væri að flytja hana út?

Jeg skal nú svara þessu því fyrst og fremst, að ef nokkur er sú vara, að bannað sje að flytja hana út, og hún seld hjer innanlanda, þá hlýtur að skapast hjer á henni innlent markaðaverð. Það er ekki gott að segja nákvæmlega, hvert það verð myndi verða. Jeg hygg fyrir mitt leyti, að það myndi verða dálítið lægra en hið útlenda markaðsverð, en það er erfiður samanburður, t. d. á kjöti, sem hjer er selt í kroppum og einstakir menn salta sjálfir, og hinu, sem flutt er út í tunnum og »fragt« legst á. Ef framleiðendur ættu að fá jafnt fyrir hvorttveggja, þá ætti það auðvitað að vera í lægra verði, sem selst hjer innanlanda. (Sigurður Sigurðsson: Jú, auðvitað þeim mun lægra, sem sendingarkostnaðinum nemur). Og þá verður spurningin sú, hverjir eigi að borga þann mismun. Jeg hygg nú fyrir mitt leyti, að flestir framleiðendur hjer á landi muni vera svo gjörðir, að þeir myndu ekki horfa í það, þótt nema kynni örfáum aurum, þar sem annars vegar er um að ræða mikinn gróða þeim til handa, ef þeir væru sannfærðir um það, að tilslökunin kæmi miklum hluta þjóðarinnar að gagni. Því að það verða menn að muna, að þótt oft og einatt sje talað fyrirlitlega um kaupstaðabúa hjer á landi, þá eru þeir þó eigi minna en 1/8 hluti þjóðarinnar, og sá hluti hefir þó rjett til þess, að nokkurt tillit sje tekið til hans.

Í þessu sambandi þykist jeg verða að segja það, sem þó ætti að vera óþarfi að taka fram, að það hefir engum manni dottið í hug, að þessi lög ættu að vera gjörð fyrir Rvík eina, enda finst hvergi, hvorki í umræðunum, nefndarálitinu eða frumv. sjálfu, minsta átylla fyrir því, að svo sje. Alt þess konar verð jeg að álíta, að sje einbert hugmyndaflug hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Enda virtist mjer ekki betur en að hann notaði þetta að eins eins og »Springbrædt«, til þess að komast að öðru. Hann vildi að vísu ekki drótta því að mjer, auðvitað, að jeg væri hjer eingöngu að hugsa um hag »betri borgaranna« hjer í Reykjavik, en hins vegar mátti skilja það á honum, að það »líti svo út«, eins og jeg gjörði það. Og þá komst háttv. þm. út á þá línu, sem honum er svo títt að vega salt á, sem sje milli bændanna annars vegar og jarðnæðislausra smælingja hins vegar, og þegar þangað er komið, þá veit jeg, að þessi háttv. þm. á mjög bágt. En það vona jeg að allir skilji, að verði kaupstaðarbúum það til góðs, sem jeg fer hjer fram á, þá hlýtur það að verða eins til góða þeim, sem efnaminni eru, og jafnvel engu síður.

Já, jeg vildi gjarna reyna að stytta þessar umræður sem mest. Næst held jeg sje, að minnast örfáum orðum á hrossin. Jeg vil benda háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) á það, að hjer er að eina um heimildarlög að ræða, og jeg gæti hugsað það, að með því mikla verði, sem nú er á hrossum, og þeim gífurlega útflutningi, sem af því stafar, þá gæti farið svo, að hrossum fækkaði svo hjer í landi, að þau yrðu ekki nógu mörg til þess, sem landsmenn þurfa nauðsynlega á að halda. Og hjer er ekki farið fram á annað en það, að ef svo færi, þá skuli stjórnin hafa heimild til þess, að taka í taumana. Það getur orðið þessu landi tjón, ekki síður en öðrum löndum, ef of mikið selst af þessari vöru.

Þá kem jeg að því, sem háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) sagði, að heppilegast mundi vera, að hafa nefndir sem víðast í hjeruðum til aðstoðar í þessu máli. Jeg held að það hafi vakað fyrir nefndinni, að þetta geti orðið, og að hún hafi meðal annars haft það fyrir augum, þegar hún gjörði ráð fyrir að stjórnin mætti verja nokkru fje í kostnað. Það stendur beint í 5. gr., að stjórnin láti safna skýrslum, og hæstv. ráðherra hefir lýst yfir því, að þegar hafi verið gjörðar ráðstafanir í þá átt.