30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

63. mál, Dalavegur

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Þetta litla frumv. lá hjer fyrir þinginu í fyrra. Það gekk þá greiðlega, að fá það samþykt hjer í Nd., en í Ed. var það kæft. En af því að ekki er hægt að ákveða brúarstæðið á Ljá, fyrr en frumv. nær fram að ganga, þá er nauðsyn á því, að fyrir því verði greitt sem best.

Þeir, sem þekkja til í Dalasýslu, vita, að þetta; sem frumv. fer fram á er heppilegra; en þeir, sem ekki þekkja þar til, munu fljótt skilja, að svo er, þegar þeir heyra, að hjer er um það eitt að ræða, að flytja veginn á örlitlum kafla í Dalasýslu; láta hann liggja um kauptúnið og yfir brú þá, sem nú er á Laxá.

Það, sem mönnum í fljótu bragði mun sýnast kostnaður fyrir landssjóð, er ekki neinn kostnaður, ef að er gáð, því ef vegurinn lægi framvegis sem nú, hjá Hjarðarholti, þá er áin þar breiðari, og því dýrara að gjöra þar brú.

Jeg vil því biðja menn að láta frv. ganga rjetta boðleið gegn um deildina, því að brúin þarf að komast á í ár, svo að eigi þurfi nýjar fjárveitingar til hennar.

Jeg skal svo ekki tefja tímann með þessu.