07.09.1915
Neðri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra:

Þessar brtt., sem fram eru komnar, eru þær sömu og í Ed , og það svo nákvæmlega þær sömu, að jafnvel formlegar villur eru ekki leiðrjettar.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) lítur svo á, að með áorðnum breytingum sje það trygt, að opinberir starfsmenn geti sagt af sjer, en þetta er ekki rjett, því að opinberir starfamenn geta ekki sagt af sjer fyrirvaralaust. En ef brtt. nær fram að ganga, þá væri betra að hafa engin lög; því að samkvæmt henni gætu allir starfsmenn sagt af sjer og lagt málið í gjörðardóm. Þá gæti svo farið, að landssjóður yrði að borga svo og svo mikið, og þar með tekið fjárveitingarvaldið af þinginu og fengið í hendur gjörðardómi. Ef þessi brtt. nær fram að ganga, verður landsstjórn og þing alveg máttlaust gagnvart starfsmönnum sínum. Jeg býst við að önnur tilfinning hafi vakað fyrir flutningsmönnum þessa frumvarps. Háttv. þm. Dal. (B. J.) áleit, að landinu væri borgið, ef breytingartillögurnar næðu fram að ganga, en því fer fjarri, að svo sje; það getur þvert á móti kostað landið stórfje, auk þess sem það er viðurhlutamikið fyrir þingið, að afsala sjer fjárveitingarvaldinu. Það er því gjörsamlega rangt hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að brtt. útiloki þá hættu.

Í Ed. var komist svo að orði, að menn mættu ekki einu sinni kvarta. En það er alla eigi svo að skilja, að mönnum sje bannað að berjast fyrir launahækkun og rjettarbótum á rökrjettan og sæmilegan hátt. Hitt er satt, að kúgun viljum við ekki þola.

Opinberir. starfsmenn standa betur að vígi en aðrir, því að þó að ekki gangi saman með þeim og stjórninni, þá geta þeir farið til þingsins og sannfært þingmenn. Þeir standa einnig betur að því leyti, að ekki getur til þess komið, að þeir missi atvinnu sínu fyrir lock aut. Auk þess hafa þeir eftirlaun, og er varla vikið úr stöðunni fyrr en þeir hafa reynst óhæfir til hennar. Það er öllum ljóst, að það er mikilvægt atriði, ef hægt væri að koma í veg fyrir, að menn leggi niður verk sitt, og vitanlega eru hagsmunir landsins í voða, ef starfsmenn þess leggja niður vinnu sína.

Það er ekki rjett hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að verkfall sje ekki talið refsivert í öðrum löndum. Hann nefndi Frakkland. Þar varðar það tveggja mánaða fangelsi hið minsta, og hjer gæti það ef til vill heimfærst undir 144. gr. hegningarlaganna. Í Noregi er það einnig talið hegningarvert. Ef þessi brtt. verður samþykt, þá væri betra að hafa engin lög um þetta atriði, önnur en þau sem nú gilda.