03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsm. minni hl. (Jón Jónsson):

Jeg ætla ekki að fara meira út í þetta mál, en vil að eins geta þess út af orðum háttv. framsm. meiri hlutans (S. B.), að jeg sagði aldrei, að þetta hefði verið gjört að kappsmáli af meiri hluta nefndarinnar. Meiri hlutinn fór hógværlega í málið, og það hefir háttv. framsm. meiri hlutans gjört líka. En ástæðan fyrir því, að jeg sagði, að þetta mál hefði verið gjört að kappsmáli, er sú, að jeg var viðstaddur í háttv. Ed., er málið var þar til umr.; heyrði jeg þá, af hversu miklu kappi fyrir málinu var barist, og hygg jeg, að því verði ekki neitað.

Mjer er mikil ánægja í því, hversu rólega hjer hefir verið tekið í málið, og skil jeg það svo, að deildinni sýnist mál þetta ekki mikið nauðsynjamál, enda vona jeg það komi fram við atkvæðagreiðsluna.

En hvað það snertir, er háttv. framsögum. meiri hlutans (S. B.) sagði, að lögin væru mest brotin vegna þess, að á móti þeim væri barist, þá held jeg að það sje ekki rjett. Jeg fullyrði það, að þau muni verða meira brotin og verr liðin, ef ákvæðin verða gjörð enn harðari, ef út af er brugðið.

Ef þingið ljeti málið afskiftalaust og sæi hverju fram færi, þá gæti farið svo, að við, sem í fyrstu vorum lögunum andvígir, gætum sætt okkur við þau.

Heilbrigðir menn geta ósköp vel lifað án áfengis; við, sem höfum verið og erum á móti banni, gjörum það ekki af því, að okkur langi svo ósköp í vín, heldur af því, að við álítum rangt, að ákveða þetta með lögum. Það getur verið, að einstöku menn sjeu á móti bannlögunum vegna sjálfra sín, en jeg get fullvissað háttv. framsögum. meiri hl. (S. B.) um það, að .því er ekki þannig farið með okkur.

Því hygg jeg, að rjettast hefði verið, að láta lögin standa óbreytt fyrst um sinn, og það hjelt jeg að verið hefði meiningin í upphafi. Það kom því flatt upp á mig, og víst marga aðra, er þetta frumvarp var lagt hjer fyrir Alþingi, því að jeg veit, að það hefir ekki verið gjört að vilja almennings.

Það er víst umhyggja, þessara mannúðarmanna, er vilja afstýra óhamingu með því, að einstakir menn geti ekki fengið sjer í staupinu, er hefir hrundið þessu af stað, þó að mannúðin skíni reyndar ekki út úr hverju orði í umræðum þeirra um málið og í lögunum sjálfum. En þar sem jeg tel engan veginn víst, að þeim tilgangi verði náð með þessu, hefir minni hlutinn leyft sjer að koma fram með svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

»Í því trausti, að stjórnarráðið löggildi nú þegar til lækninga, með viðauka við lyfjaskrá landsins, Rauðvín, Malaga, Skerry, Portvín og Cognac, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.

Þessi rökstudda dagskrá er í samræmi við skoðun meiri hlutans, því að hann hefir verið hógvær og sanngjarn, og viðurkent, að ilt væri að varna því, að þessar víntegundir, er í dagskránni eru nefndar, fáist í lyfjabúðum.