26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

93. mál, hagnýting járnsands

Framsögum. (Jón Jónsson) :

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði um það, hvernig hugsað væri að vinna sandinn, skal það tekið fram, að eftir skýrslu leyfisbeiðanda, er til þess ætlast, að sandurinn verði unninn í húsum, bygðum á landi, verði þurkaður með segulmögnuðum völsum, en járnið loði svo við sívalningana og kastist niður í annan stað. Þess vegna er ekki um það að ræða, að sandurinn verði fluttur út óhreinsaður, enda mundi það ekki borga sig, að flytja út bráðónýt efni.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að rjett væri að fara varlega í þetta mál, því að vel mætti vera, að svik ein byggju undir. Það getur verið, en svo er þó ekki frá þess manns hálfu, sem um leyfið sækir, því að hann vissi ekkert um þetta fyrr en Lambert hafði gjört rannsóknir sínar. Jeg get auðvitað ekki sagt, hvað haldgott fjelagið verður, en engin ástæða er til að tortryggja leyfisbeiðanda; hann þekkir nokkuð til fjelagsins, hefir skrifast á við Lambert og gjörir sjer yfirleitt bestu vonir um framkvæmdirnar.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vildi láta fella niður forgangsrjett leyfisbeiðanda. Jeg skil ekki, að það ákvæði geti verið hættulegt; ef háttv. þingmaður telur það vera svo, þá er það til marka um, að hann telur málið vera stórmál. En hins vegar er þess að gæta, að ef leyfisbeiðendum er gjört svo lágt undir höfði, að löggjafarvaldið veiti ef til vill öðrum leyfi á öðrum stöðum, án þess að þeir, sem eru upphafsmenn fyrirtækisins, fái að hugsa sig um, hvort þeir vilja sitja fyrir, þá er leyfið miklu

óútgengilegra. Jeg sje ekki heldur neitt hættulegt við að veita þennan forgangsrjett. Setjum svo, að landið sjálft vildi leggja út í slíkt fyrirtæki, og er það því heimilt.

Háttv. sami þingmaður sagði, að engin vissa væri fyrir því, hvernig verkið yrði unnið. Jeg get ekki sagt annað en að til er ætlast, að járnið verði svo vel unnið, sem frekast er unt, því að það borgar sig best.

Viðvíkjandi útflutningi járnsandsins, þá hefir nefndin ekki rannsakað, hvernig því atriði yrði hagað. Það getur vel verið, að járnið verði flutt út í klumpum, og ef svo yrði, þótti oss vissast að setja þetta ákvæði, og þá sjálfsagt, að meira yrði greitt fyrir. En það veit jeg, að leyfisbeiðendur hafa að eins hugsað sjer að flytja út hreinan járnsand.

Ekki þarf að óttast það, að vinnan færi fram í skipum, en þótt svo yrði, þá yrði það í landhelgi, og eftirlitið því sama sem á landi.

Jeg álít ekki nauðsynlegt að vísa málinu til stjórnarinnar. Ef einstakir þingmenn vilja breyta frumvarpinu, geta þeir komið með þær brtt. til 3. umr.