30.07.1915
Efri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

59. mál, vélstjóraskóli í Reykjavík

Kristinn Daníelsson:

Jeg stend upp til þess að minnast á breytingartillögur þær, sem prentaðar eru á þgskj. 126. Jeg þarf reyndar ekki að tala mikið fyrir þeim, því að það var gjört vel í gær. Þessar breytingar eru sama eðlis og breytingarnar, sem gjörðar voru þá, og vona jeg því, að þessar fái sömu undirtektir.

En af því að minst hefir verið á, að nýyrði bentu oft ekki á hvað í þeim fælist, þá vildi jeg minna á, að svo er reyndar um flest nöfn, að þau geta ekki bent á öll hugtök, sem í einu nafni kann að felast. Þannig er með „geometrískar konstruktionir“, að þótt flatarmálsteiknanir ekki innifeli í sjer nákvæmlega sömu hugsun, þá getur það ekki misskilist, þegar útlenda orðið stendur í svigum á eftir. Auk þess er þetta skýrt nánar í kenslubókum og því enginn vafi á, að það getur engum misskilningi valdið.

Jeg vil einnig minnast á b-liðinn á þgskj. 126. Það gengur út á að breyta bifvjel í hreyfivjel með mótor í svigum fyrir aftan. Jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti álítur að þessa tillögu mætti skoða sem breytingartillögu við sama atriði í þgskj. 117, og ef okkar tillaga verði samþ. þá falli breytingartillagan um þetta sama atriði á þgskj. 117.