10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Eggert Pálsson :

Jeg vænti þess, að þetta mál fái greiðan byr í gegn um þingið, enda er því ekki varpað inn undirbúningalaust. Frá því sjónarmiði er ekkert að frv. að finna. Það gefur að skilja, að þetta getur verið viðkvæmt máli; tollmál eru það alt af. Þess vegna er það vel farið, að málið hefir verið »settlað« áður en frumvarpið sjálft var borið fram. Það var einmitt ókosturinn á frv. þeim, sem áður hafa komið fram í þessu efni, að þau komu mönnum á óvart og undirbúningslaust, og með fram þess vegna, hygg jeg, að forlög þeirra hafi orðið þau, sem þau urðu. Sakir þessa undirbúnings, sem hjer hefir verið hafður, má vænta þess, að mál þetta gangi nú greiðlega, þótt talsverðar umræður hafi orðið um það.

Andmælendur frv., háttv, þm. Dal. (B. J.), háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) og hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E ), hafa komið fram hver á eftir öðrum með sín andmæli, og látið mjög á sjer bera, eins og vænta má, þar sem hver þykist öðrum meiri.

Háttv. 2. þm. S: Múl. (G. E.) var í þessu sambandi að hrósa mjer fyrir staðfestu. Jeg kann honum þakkir fyrir það, enda þykist jeg eiga það hrós skilið. En hafi hann haldið, að andlegt ættarmót hafi verið með okkur um einstrengingsskap og þverhausshátt, þá hefir honum skjátlast. Allir andmælendur frumvarpsins hafa haldið því fram að þeir menn, er feldu frumvarpið um daginn, hlytu að vera á móti þessu frv. líka. En þetta er rangt til getið. Að jeg var á móti hinu frv., en er með þessu, stafar af því tvennu, að hjer er um annan grundvöll og annað takmark að ræða fyrir þessu frumvarpi, heldur en var fyrir hinu. Það er altaf mikið undir grundvellinum komið. Það vita allir. »Varðar mest til allra orða að undirstaðan rjett sje fundin«. Þar sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) sagði, að hinu frv. hefði mátt vísa til nefndar, til þess að bæta það, þá skal jeg geta þess, að frv. var ekki hægt að bæta, nema nefndin kæmi með alveg nýtt og óskylt frumvarp, bygt á alt öðrum grundvelli. Eftir því frv. átti skatturinn að leggjast á vörurnar, án tillits til vöruverðsins. En eftir þessu frv. hvílir enginn tollur á vörunum, ef verðið nær ekki ákveðnu hámarki. Það hlýtur hverjum manni að skiljast, og andmælendum frv. líka, að hjer er um alt annan grundvöll að ræða.

Það er enn fremur mikill mismunur á tilgangi þessa frumvarps og hins frv. Tilgangur hins frv. var auðsær á dilkinum, sem því fylgdi. Tekjurnar átti að brytja niður jafnóðum og þær kæmu inn, svo að landssjóður hefði orðið jafn tómur eftir sem áður. En hjer er tilgangurinn sá, að þegar vjer lúkum nú þingstörfum í þetta sinn, þá sjeum vjer oss þess meðvitandi, að eitthvað verði til í landssjóði. Allir vita, að fjárlögin hljóta að fara út úr þinginu með talsverðum tekjuhalla, og ef ekki er gjört ráð fyrir auknum tekjum, þá eru horfurnar ekki glæsilegar. Það hefir verið skipuð Velferðarnefnd, til þess að bæta úr ástandinu eftir föngum, og það hefir verið gripið til þess ráðs, að heimila stjórninni einnar milj. króna lántöku. Þetta er auðvitað gott og blessað, en það geta komið fyrir þau tilfelli, að ómögulegt verði að fá lán. Við getum hugsað okkur að Norðurlönd lendi í ófriðnum, og hvert á þá að snúa sjer í þeim efnum, að fá peningalán? Þá sje jeg fyrir mitt leyti engar útgöngudyr, því ekki munu þjóðir þær, er í ófriði eiga, hafa fje afgangs til að lána öðrum. Haldist dýrtíðin, þá gefur þetta frumv. landssjóði álitlegar tekjur. Þær yrðu auðvitað fyrst notaðar til þess að bæta upp tekjuhallann, en yrði afgangur, þá gjörði það stjórninni og Velferðarnefndinni auðveldara að ráða fram úr vandræðunum. Færi aftur á móti svo, eins og andstæðingarnir gjöra ráð fyrir, að frumv. gæfi engar tekjur, þá er þar með sagt, að dýrtíðin minki og vörurnar falli niður í »normal«-verð. Andstæðingar frumv. eru því að eins að reyna, að þyrla upp ryki. (Sigurður Eggerz: Prestleg illgirni). Og mig furðar ekki á því, þegar jeg lít á, hvernig framkoma þeirra hefir verið hingað til. Þeir eru að reyna að kitla eigingjarnar hvatir lægst hugsandi manna með þessum mótmælum sínum. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu; það get jeg fullvissað þá um. Það eru færri, sem eru svo lágt hugsandi, að þeir tími ekki að borga lágt gjald í landssjóð, þegar hann þarf þess við og þeir fá hátt verð fyrir vöru sína. Þjóðin verður þessum mönnum því alls ekki þakklát fyrir framkomu þeirra.

Það er líka kostur við þetta frv., að það er ekki tilætlunin að nota fje þetta strax. Stjórnin og Velferðarnefndin hafa það í vösunum, þangað til vandræði ber að höndum. Þau eru ekki komin enn, og þess vegna væri rangt að brytja fjeð niður nú þegar.

Andmælingar frumv. óttast, að þetta fje gangi til einhverra nauðsynja fyrirtækja — Miklavatnsáveitunnar, eða einhverra vegagjörða. — Það er þeim skiljanlega þyrnir í auga. Þó það væri brytjað niður í óþarfa bitlinga, mundi þeim verða minna um, að minsta kosti sumum þeirra.

Það er rjett, að við, háttv. þm. Dal. (B. J.) og jeg, höfum flutt saman frv. um stimpilgjald, sem gefa mun af sjer í tekjur handa landssjóði að minsta kosti 25 þús. kr. um árið; en þótt þessi tekjuauki sje betri en ekki, þá dylst samt engum, að þessar tekjur munu hrökkva skamt, einkum ef vandræði verða.

Jeg skal ekki orðlengja frekar um þetta mál, en það liggur í hlutarins eðli, að úr því að, eins og jeg hefi tekið fram, þetta frv. hvílir á öðrum grundvelli og tilgangurinn er annar en var í frv. því, um útflutningsgjald, sem felt var hjer á dögunum, þá get jeg vel staðið mig við að greiða því atkvæði, og gleðst jeg af því, og veit, að allir samviskusamir Íslendingar munu gleðjast af því, að geta á einhvern hátt reist við hinn fallanda fjárhag landssjóðs, og það með tiltölulega jafn auðveldum og sanngjörnum hætti og hjer er lagt til að verði gjört.