08.09.1915
Neðri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Guðmundur Eggerz:

Samkvæmt tillögum nefndarinnar sýnist mjer, sem frumv. þessu sje aðallega ætlað að ná til símamanna, póstafgreiðslumanna, vitavarða, og ef til vill nokkurra fleiri af starfsmönnum landsins. Að því er snertir símamennina, þá hafa þeir nú á dögunum sjálfir tekið sjer rjett sinn, og þessa frumv. þarf því ekki með þeirra vegna. Aftur á móti kannast jeg við það, að brýn nauðsyn er til þess, að hækka laun póstafgreiðslumannanna, en ekki eingöngu vegna atriðsins, heldur álít jeg, að þurft hefði að hækka laun þeirra, jafnvel þó að ekkert stríð hefði orðið, því að mjer er kunnugt um, að störf þeirra eru orðin geysimikil.

Háttv. framsögum. (Þ. J.) tók það fram, að þessi uppbót ætti að falla burtu, þegar stríðinu væri lokið. Þessu get jeg ekki verið samþykkur, að því er póstafgreiðslumennina snertir.

En þótt jeg játi þörf póstafgreiðslumannanna, þá get jeg samt ekki fallist á, að hækka laun starfsmanna á þann hátt, sem farið er fram á í frv. þessu, og ekki get jeg heldur fallist á röksemdaleiðslu nefndarinnar í málinu að öllu leyti.

Jeg vildi mjög gjarna geta hjálpað öllum þeim mönnum, sem erfitt eiga uppdráttar. En með þessu frumv. er engin tilraun gjörð, til þess að hjálpa verkafólki eða yfirleitt fátæklingum í kaupstöðum landsins, og er þó vitanlegt, að kjör þeirra muni ekki verða glæsileg í vetur.

Jeg verð því að álíta, að frumvarp þetta sje kák, að því leyti, að það nær til svo örfárra manna af öllum þeim fjölda, sem hjálpar þarfnast En auk þess er hjálpin svo nauðalítil fyrir þá, sem hennar verða aðnjótandi, 50 kr. handa manni, sem hefir 1000 kr. laun, og 75 kr. handa þeim manni, sem hefir 1500 kr. laun. Þetta er svo lítil hjálp, að menn munar ekkert um hana. Þess vegna er frumv. kák.

Jeg get ekki heldur fallist á röksemdaleiðslu nefndarinnar, þar sem hún

segir, að kaup verslunarfólks og verkamanna hafi hækkað 1 ár yfirleitt. Þetta getur verið rjett, hvað Reykjavík snertir, en annarstaðar mun ekki vera svo. Raunar er mjer kunnugt um, að sumstaðar hefir verkafólki verið lofað 5 aurum hærra fyrir klst., svo að það fengi 30 aura í stað 25 aura. En þessi hækkun er alveg þýðingarlaus, með því að kaupið hefir ekki verið greitt með peningum, heldur með útlendum varningi, sem settur er upp um leið og kaupið er hækkað, jafnvel meira en kauphækkuninni nemur. (Sveinn Björnsson: Kaupið má ekki greiða í vörum). Jú, og jeg hjelt, að háttv. sessunautur minn (S. B.) væri svo góður lögfræðingur, þótt hann sje ungur, að eftir lögunum er það svo, að verkafólk má krefjast peninga, en það getur líka, ef það andmælir ekki, fengið kaup sitt í vörum. Og allir ættu að vita það, að verkamenn eru oft svo óframfærnir og svo stórskuldugir, að þeir þora ekki og geta ekki haft í fullu trje við kaupmennina, sem einnig geta haft það til, ef verkamennirnir heimta peningakaup, að setja þeim alveg stólinn fyrir dyrnar, og segjast ekki lána þeim framar.