12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

95. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson:

Ræða mín áðan hefir gefið tilefni til allmikillar umræðu. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir að miklu leyti svarað því, sem jeg hafði ætlað mjer að svara, en jeg vildi þó að eins skýra háttv. deild frá því, að þetta mál hefir ekki verið borið fram í samráði við bankastjórnina. Hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni, að á þinginu 1909 hefði verið talað um, að full þörf væri á að hafa þrjá bankastjóra. Jeg man ekki eftir því, og nokkuð er það, að hafi sú skoðun komið fram, þá hefir þingið hafnað henni. Þar sem hæstv. ráðherra skýrði frá því, að hann hefði átt tal við einn úr bankastjórninni um þetta mál, þá verð jeg að segja, að jeg kann ekki vel við það. Jeg lít svo á, að það eigi best við, þegar landsstjórnin er að semja mikilvæg frumvörp um breytingu á fyrirkomulagi bankans, að hún beri sig þá saman við alla bankastjórnina, en ekki einstaka menn úr henni. Það er ekki rjett, að fara slíkar bakdyraleiðir í mikilsvarðandi málum. Þetta bendir á, hve óheppilegt það er, að bankinn skuli þurfa að standa undir pólitískri stjórn, að þessi stofnun skuli þurfa að vera bolti, til að kastast á milli ólíkra flokka og ólíkra stjórna. Reynslan hefir líka orðið sú, að öll þau afskifti, sem landsstjórnin hefir haft af bankanum, hafa borið pólitískan blæ, bankanum í óhag. Þó skal jeg undantaka þann tíma, þegar Hannes Hafstein var ráðherra í seinna skiftið. Þá voru afskifti hans af bankanum á engan hátt pólitísk, en að öðru leyti hefir landsstjórnin fyrr og síðar að eins haft pólitísk afskifti af bankanum, og önnur ekki. Við ráðherra Sigurð Eggerz hafði bankastjórnin svo sem ekkert að sælda.

Hæstv. ráðherra taldi það nauðsynlegt, að í stjórn bankans sæti lögfræðingur, sem bæri lagalega ábyrgð á athöfnum bankastjórnarinnar, og nefndi sem dæmi, að bankastjórnin skyldi hafa ákveðið að hætta að leysa inn seðla bankans erlendis fyrir bankans reikning. En þar sem við fjórir, sem í stjórn bankana sitjum, vorum sammála um þetta, þá er jeg sannfærður um, að þótt fimta bankastjóranum hefði verið bætt við, með lögfræðisprófi, þá hefði hann orðið okkur sammála, enda hafa verið færð skýr rök fyrir þessum gjörðum bankastjórnarinnar í innlendum og erlendum blöðum, t. d. í »Börsen«, og veit jeg ekki af neinum, nema kann ske núverandi stjórn, sem ekki hafi fallist á þau rök. Það hefir verið haldið áfram að leysa inn seðla bankans með 1/2% affölum, alveg eins og hefir verið praktiserað frá 1885 og þangað til Íslands banki var stofnaður, svo að í því efni hefir lagabókstafnum verið nákvæmlega fylgt, og því alls eigi hægt að setja út á það.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að við hefðum orðið að fresta framkvæmdum mála fyrir lögfræðingsleysi. Jeg neita því; að minsta kosti hefir það aldrei komið að baga, en skeð getur, að slíkt hafi komið fyrir í smámálum, sem ekkert er um vert, en stærri lánveitingar og ákvarðanir eru aldrei bornar undir lögfræð- ing. Þá gat hann þess, að endurskoðendur bankans væru að eins tölu-revisorar. Það sýnir, að hæstv, ráðherra er ekki nógu kunnugur því, hvað skeður í bankanum. Þeir rannsaka öll skjöl, bæði að formi og efni. (Ráðherra: Fyrirfram ?). Nei, eftir á, en þeir hafa aldrei gjört neinar athugasemdir, og það verð jeg að segja, að þetta er meira en að vera tölurevisorar. Af þessu leiðir og, að það er ekki ástæða til að skipa lögfræðing sem bankastjóra.

Þá gat hæstv. ráðherra þess, að það þyrfti meira en almenna vöru- og verslunarþekkingu til að vera bankastjóri. Jeg neita því. Jeg álít það nóg, ef maður hefir góða verslunarþekkingu, hefir vit á brjefaskiftum og gjörð samninga, og kann að stjórna starfsfólkinu. Þá er fengið það, sem þarf.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) spurði, hvers vegna korrespondentinn þyrfti að vera útlendur maður. Það liggur í því, að hjerlendir menn eru óvanir erlendum viðskiftum. Þeir eru að vísu vanir viðskiftunum eins og þau gjörast hjer á landi, en þeir eru alveg ókunnugir erlendum viðskiftum og geta ekki sett sig inn í þau. Þeir eru og illa að sjer í verslunarmálinu, þó þeir sjeu alment tekið vel að sjer í einhverju erlendu máli. Þess vegna hefir Íslandsbanki fengið sjer erlendan mann, af því að hann hefir ekki getað fengið neinn innlendan, sem honum líkaði til þessa starfa..

Það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að bankastjórnin er ekki alvitur, og það finnur hún vel sjálf. Hún hefir oft óskað þess, að til væri 5–10 manna ráð henni til aðstoðar, en því er nú svo varið, að bankinn hefir eigi ráð á slíku. Enda er svo fyrir að þakka, að þetta fámenni hefir ekki orðið honum að tjóni, enn sem komið er.

Jeg mótmæli því, að nokkurs hroka hafi kent í fyrri ræðu minni. Jeg sagði það alveg látlaust, sem jeg sagði. En hins vegar skil jeg það, að það kemur sjer ætíð illa fyrir þá, sem hafa ljelegan málstað, að fá skýr og ákveðin mótmæli.

Jeg hygg svo; að það sje ekki fleira, sem jeg þarf að svara hæstv. ráðherra. Jeg vona, að hann sjái það, er hann gætir vel að, að engin brýn þörf er á þessari fjölgun. Auðvitað get jeg alt af orðið veikur, en þá segi jeg af mjer og nýr maður kemur í staðinn. Jeg hefi aldrei ætlað mjer að gegna þessari stöðu lengur en jeg verð fær um, og meira að segja ekki lengur en þingið óskar, því mjer hefir aldrei verið það kappsmál, að sitja í henni. Jeg hefi skoðað svo, sem jeg gjörði það meira fyrir bankann en sjálfan mig.

Aðrir háttv. þingmenn hafa stungið upp á því, að þessu máli verði vísað til sömu nefndar, og þegar hefir skipuð verið í öðrum bankamálum, og svo skildi jeg háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) í gær, að sú væri tilætlunin. Mjer er nú reyndar nokkuð sama, hvort það er gjört, eða ný nefnd skipuð, en útúrdúrar virðast mjer það samt vera, og eins alveg ástæðulaust, að vera að taka málið út af dagskrá nú. Jeg skal svo ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu, en þetta áleit jeg mjer skylt að taka fram.