12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

95. mál, stofnun Landsbanka

Framsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Eins og menn sjá, hafa komið hjer fram tvö nefndarálit, en ágreiningur er þó furðu lítill. Nefndin í heild sinni vill ekki, að málið gangi fram á þessu þingi.

En það, sem greint hefir á um, er það, að hverju leyti og á hvaða hátt yrði ráðin bót á stjórn bankana. Bæði meiri og minni hluti nefndarinnar hefir komið sjer saman um, að þörf sje á að í þjónustu bankana verði fenginn bankafróður fjármálamaður, einkum til að annast sölu íslenskra verðbrjefa og greiða fyrir viðskiftum bankana við erlendar peningastofnanir, í því skyni að útvega landinu fje, þegar þörf er á.

Um þetta var ekki ágreiningur. Munurinn er að eins sá, að minni hl. vill láta stjórnina athuga skipulag bankana og leggja tillögur sínar fyrir næsta þing. En meiri hlutinn vill fara sem friðsamlegast og láta bankastjórnina bæta sjálfa úr brýnustu þörfunum í bráð, og reyna að ráða bót á misfellunum, að tilhlutun stjórnarinnar.

Ef vikið er að frumv., þá eru kjarnaatriði þess þau, að skipaður verði við Landsbankann nýr lögfróður bankastjóri og gæslustjórarnir verði lagðir niður. Meiri hluta nefndarinnar hefir ekki fundist brýn þörf á því, að þessi nýi bankastjóri væri lögfræðingur, en hitt hefir meiri hlutanum verið ljóst, að nauðsyn bæri til, að hann hefði sjerþekkingu á fjármálum og bankamálum. Þess þarfnast bankinn umfram alt.

Þegar litið er á fjármálaspurninguna, þá dylst nefndinni það ekki, að brýn nauðsyn ber til þess, að koma peningamálum landsins í gott horf. Og við Íslendingar verðum að viðurkenna það, að fremur lítið hefir verið gjört til umbóta í þessu efni. Það hefir ekkert verið gjört til að undirbúa menn til að hafa umsjón á bankamálum. Við höfum tekið þá menn til að standa við stýrið, er buðust og færastir voru álitnir, án þess að þeir hefðu beinlínis þekkingu á bankamálum, en ekkert gjört til þess, að senda efnilega og álitlega menn utan, til þess að afla sjer víðtækrar og verulegrar þekkingar í þessum efnum. Þetta ættum við ekki lengur að láta undir höfuð leggjast, því að þeim peningum, sem færu til þess, að kosta efnilega menn til þessa, sem svo brýn þörf er á, væri alla ekki á glæ kastað, því að náminu loknu myndu þeir að sjálfsögðu telja sjer skylt að starfa í þarfir þjóðar sinnar. Þetta eru því áreiðanlega orð í tíma töluð. Verið getur, að ekki sje nú fje til slíks náma, en æskilegt væri það, og ætti að komast í kring óðara og fje verður til þess.

Eins og áður er sagt, er það aðalágreiningurinn milli meiri og minni hluta nefndarinnar, að hve miklu leyti eigi að auka ráð landsstjórnarinnar yfir bankanum. Meiri hlutanum hefir ekki virst nein ástæða til þess, að skora á stjórnina, að ráða bót á skipulagi bankans, en álitum rjettara að leggja málið í hendur bankastjórnarinnar. Og þar þar sem annar bankastjórinn (B. K.) var í nefndinni, og tjáði sig fúsan til þess, að útvega fjármálafróðan mann, til þess að starfa í bankanum, þá virðist ekki bein ástæða vera til þess, að fela landsstjórninni þetta og framkvæmd þess fyrir næsta þing. En ef bankastjórnin vanrækir skyldu sína og alt sækir í sama horfið, þá verður þingið að taka málið til verulegrar íhugunar. Líka getur stjórnin undirbúið málið, þó ekki sje skorað á hana um það.

Að þessu athuguðu verð jeg að mæla með, að stefna meiri hlutans verði ofan á, þótt ekki beri mikið á milli. Meiri hlutinn hefir því afráðið að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, er jeg með leyfi hæstv. forseta skal lesa upp:

Í þeirri von, að landsstjórnin stuðli að því, að stjórn Landsbankans ráði sjer um tíma duglegan fjármálamann bankafróðan, að enduðum Norðurálfuófriðinum, til þess að starfa að sölu bankavaxtabrjefa veðdeildarinnar erlendis og greiða fyrir viðskiftum bankans við erlendar peningastofnanir og efla lánstraust landsins í útlöndum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.