06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

11. mál, verðtollur

Eggert Pálsson:

Eins og kunnugt er, hefir verið afgreitt hjer í deildinni frumv. til laga um framlenging vörutollslaganna, og ef það verður samþykt af þinginu nú, sem gjöra má ráð fyrir, þá má ætla, að tollamálum landsins sje nægilega borgið næsta fjárhagstímabil, svo að ekki þurfi þess vegna, að halda fram þessu frumv. til streitu samhliða. Ef litið er á brtt. flutnm. á þgskj. 213, er það ekki tilgangurinn, að þetta frmv., ef það verður að lögum, gildi fyrir næsta fjárhagstímabil, heldur frá 1. janúar 1918. Fyrir þann tíma á að koma saman reglulegt Alþingi 1917, sem ætti að geta afgreitt lögin, svo að óþarft má virðast að afgreiða þau nú. Hina vegar er svo háttað, samkvæmt afstöðu minni til þessa máls að undanförnu, sem er alveg óbreytt, að jeg get ekki greitt atkvæði móti frumv., og sömu skoðunar hygg jeg fleiri munu vera.

Til þess því að skaða ekki málið, gjöri jeg það að tillögu minni, með rjetti þeim, sem 52. gr. þingskapanna heimilar, að frumv. sje vísað til aðgjörða stjórnarinnar. Með því móti, að sú tillaga verði samþykt, tel jeg, að jeg og aðrir fylgismenn frumv. megi vel við una, úr því sem komið er.