28.07.1915
Neðri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

44. mál, fuglafriðun

Framsögum. (Sveinn Björnsson):

Jeg skal ekki fara út í einstök atriði þessa frumv., enda gefur það ekki ástæðu til þess. Nefndin hefir lagt til, að gjöra þessar breytingar, sem hjer um ræðir, til þess að gjöra mönnum hægara að afla sjer matfanga í dýrtíðinni. Jeg skal að eins taka það fram, að nefndin áleit óheppilegt, þar sem nýlega er búið að breyta fuglafriðunarlögunum, að koma fram með margar brtt. Bjóst hún við, að það gæti orðið til þess að rugla menn, og tók því það ráð, að leggja til að lögunum yrði breytt í það horf, sem þau voru í síðast, áður en þeim var breytt. Svo er gjört ráð fyrir, að núgildandi friðunarlög gangi aftur í gildi, þegar þessara bráðabirgðalaga þykir ekki lengur þörf.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að segja meira að svo stöddu. Ef menn álíta það þess vert, að lengja umræðurnar nú við 1. umr., þá mun mjer gefast tækifæri til að svara síðar.