28.07.1915
Neðri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

44. mál, fuglafriðun

Framsm. (Sveinn Björnsson) :

Háttv. þm. S.-Múl. (G. E.) þótti frumv. of grautarlegt. Hann vildi bæta úr því, með því að breyta lögunum frá 1913 á ný. Nú vil jeg spyrja, hvort er meiri grautur, að samþykkja nýju lögin breytt nú, eða láta eldri lögin vera í gildi um stuttan tíma? Það er sá minsti grautur, sem hægt er að gjöra. Og það var þetta, sem vakti fyrir nefndinni, þegar hún kom fram með tillögu sína. Með þessu er háttv. þm. Húnv. (G. H.) líka svarað. Þetta þarf engan mann að hneyksla, ef hann að eins vill athuga hvað verið er að gjöra. En ef menn taka frumv. án þess að athuga, að það er svona úr garði gjört, til þess að valda sem minstum ruglingi, þá má vel vera, að fundvísar sálir finni einhver smá atriði, til þess að skopast að, eins og uglufræðingar hjer í deildinni hafa gjört. En jeg bið háttv. deild að taka frumv., eins og það liggur fyrir.

Jeg skal ekki fara langt út í það, hvort það sje til gagns í dýrtíðinni, að mönnum leyfist að skjóta ýmsa fugla til matar, en það vita bæði jeg og aðrir háttv. þingmenn, að það eru til heil bygðarlög, sem hafa mikla atvinnu við það, að skjóta rjúpur. Jeg vona, að háttv. þingm. sje það ljóst, að jafnframt verður bannað að flytja þessa fugla út, og verður þetta því ódýrari fæða yfir veturinn, þegar kjötið er stigið í verði.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fór mörgum fögrum orðum um það, hve ljótt það væri, að ófriða rjúpuna nú, þar sem þetta væri fyrsta friðarárið, sem hún nyti. Hún er nú búin að njóta þess í hálft ár, og það eru mjög skiftar skoðanir manna um, hvort þessi friðun sjöunda hvert ár hafi nokkura þýðingu, hvori hún nái tilgangi sínum, að varðveita kynið, ef á annað borð er hætta á, að því verði tortímt. En jeg veit samt, að af þeirri ástæðu þarf ekki að vera athugavert að samþykkja frumv., því það á ekki að vera til langframa, en að eins til bráðabirgða. Jeg býst við því, að nefndin haldi fast við tillögur sínar, en auðvitað geta einstakir þingmenn komið með brtt., til þess að skopast að uglum og hrossagaukum. Aðalatriðið er, að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.