31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

54. mál, póstsparisjóðir

Forseti:

Út af umræðum þeim, sem hjer hafa orðið, skal jeg taka það fram, að það virðist koma í bága við anda þingskapanna og sömuleiðis við þingvenju, að tvær nefndir hafi sama mál til meðferðar í einu. Jeg sje mjer því ekki fært, þótt tillaga kynni að koma fram um það, að láta kjósa nýja nefnd í þetta mál. — Annars skal jeg geta þess, að eins og þgskj. 107 ber með sjer, þá kemur þetta frumv. beint frá sparisjóðanefndinni, og það er altítt, að nefndir og einstakir flutningsm. koma fram með brtt. við sín eigin frumvörp, einmitt eins og þessi nefnd hefir gjört á þgskj. 114. (Bjarni Jónsson: Svo má vísa frumv. til nefndarinnar aftur). Það er annað mál, og það er auðvitað ætíð á valdi deildarinnar, að gjöra það, ef henni þykir misbrestur á meðferð mála í nefnd. Og enn fremur getur nefnd bætt við sig mönnum, ef þurfa þykir, og deildin leyfir það. Þessar tvær aðferðir álít jeg að sjeu þær einu, er hjer geti komið til greina og sjeu í samræmi við þingsköpin.