13.08.1915
Neðri deild: 32. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

66. mál, Skarfsstaðir í Hvammssveit

Stefán Stefánsson:

Af því að framsm. meiri hl. í nefndinni (G. H.) er ekki viðlátinn, þá vil jeg leiða athygli deildarinnar að því, að ástæður þær, sem tilgreindar eru í nefndaráliti meiri hlutans, ætti að athuga, því að þær ástæður munu nægja til þess, að sýna fram á, að jörðina beri ekki að selja.

Að vísu hefir sýslunefnd Dalasýslu mælt með því, að jörðin væri seld, en eftir umsögn nákunnugs manns í nefndinni og brjefi frá síra Ásgeiri Ásgeirssyni í Hvammi til stjórnarráðsins, þá má hiklaust telja það, að jörð þessi falli undir 2. gr. þjóðjarðasölulaganna, og er það því eftir þessum upplýsingum undarlegt, að sýslunefndin skyldi telja söluna heimila, því samkv. þeim er jörðin hagkvæm til sundurskiftingar og jafnvel nokkur ástæða til að ætla, að þar geti með tíð og tíma myndast dálítið kauptún. Sem sagt, ræður meiri hluti nefndarinnar til þess, að frumv. verði felt.