23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Einar Jónsson:

Það hefir komið fram mikið álag um nefndarálitið, sjerstaklega frá háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.). Beindi hann því aðallega til skrifara nefndarinnar, en jeg verð að álíta, að allir þeir, sem undir nefndarálitið skrifa, eigi að bera sameiginlega ábyrgð á því. Jeg hefi skrifað undir þetta nefndarálit, og jeg vil gjarnan bera minn hluta af ábyrgðinni og taka við mínum hluta af álasinu og svara fyrir.

Því miður er þingmönnum of oft gjarnt til að vera einhliða í málunum. Annað hvort telja þeir sjerhvert mál að öllu leyti ágætt, eða einskis nýtt, en hitta þar engan milliveg. Nefndarálit þetta tekur bæði það, sem mælir með og líka það, sem mælir á móti þessu máli, og er síst að þeirri reglu að finna.

Eins og vitanlegt er, þá er nú málið, sem hjer er um að ræða, í þetta horf komið, enda þótt það kæmi inn á þingið í annari mynd. Fyrst var farið fram á að stofna prófessorsembætti við Háskólann í hagnýtri sálarfræði, fyrir þenna mann. Fjekk það engan byr í nefndinni, og var þá talað um dócentsembætti í stað prófessors, en einnig það fjekk lítið fylgi í nefndinni. Komst það að síðustu í þetta horf, sem sje, að styrkur sje veittur í fjárlögum til tilrauna í vinnuvísindum, og hölluðust 4 nefndarmenn af 5 að þeirri stefnu, í von um, að þannig geti það komið að nokkrum notum.

En ef svo færi, að það kæmi ekki að sama gagni, þá er þó mikil bót í máli með þessu, að hafa þetta styrk, en ekki fast embætti, því að styrkinn má altaf strika út, ef fram á það sjest, að gagn sje ekki að. En ef dr. Guðmundur Finnbogason fær aðstöðu til að reyna sig, er sennilegt, að gagnið af starfi hans verði meira en sem þessum krónum nemur.

Það voru einkennileg ummæli hjá hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Þau voru eitthvað í þá átt, að hann þekti ekki neinn mann, er kynni að vinna nema eitt verk, og eftir því þyrfti jafnmarga kennara í vinnuvísindum og vinnubrögð alls landsins væru margvísleg. En þetta er fjarstæða, sem ekki þarf að svara, þar sem nú hjer er um mann að ræða, sem treystir sjer, og aðrir hafa mikið álit á, að geta komið vinnubrögðum í landinu í betra horf en áður er, sem engin vanþörf er á. Er ef til vill varlega í það farandi, að standa á móti öllu í þá átt, því að þótt leitt sje til þess að vita, þá eru margir verkamenn við vinnu, sem hafa ekki verksvit. Skyldi þá ekki vera full þörf á þessum tilraunum.

Háttv. 2. þingmaður S.-Múl. (G. E.) vildi hvorki að veittur yrði styrkur nje stofnað embætti, af því að gagnið væri óvíst. En er ekki oft ráðist í að veita fje til ýmislegs, þó að ekki sje hægt að segja um gagnið fyrir fram. Var hægt að segja um það með vissu fyrir fram, hvort gagn yrði að honum sem embættismanni, þegar honum var veitt embætti? Og þó var það gjört.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) spurði, hvers vegna jeg hefði þetta álit nú. Jeg get fyrst svarað því, að jeg var ekki samþykkur að stofna embætti í þessari grein við Háskólann, vegna þess, að mjer fanst það hvorki eiga heima í Háskólanum, nje heldur vert að óreyndu máli að mynda fast embætti í þessu skyni. En síðan farið var fram á styrk, virtist mjer málið vera komið í rjettari átt.

Í öðru lagi var það meiri binding að stofna embætti, því ef þetta kemur ekki að gagni, má hætta að veita styrkinn, sem ekki var hægt með embættið, en ef þetta yrði að liði og verulegum notum, þá mætti þetta embætti verða stofnað síðar. Jeg hefi því ekki breytt skoðun, og hefi þegar fært ástæður fyrir því.

Annars fanst mjer hv. 2. þm. Rang. (E. P.) fara undan í flæmingi í þessu máli, þó að hann sje ekki því vanur. Jeg skil ekki þá afstöðu, að vilja endilega embætti við Háskólann, en ekki styrk, sem horfir þó miklu betur við. Þetta er því einkennilegra, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) er alt af vanur að fylgja því, er skynsamlegra er. En jeg held að það hafi verið alveg rjett hjá háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), að úr því að nú sje um styrk að ræða, þá vilji menn heldur embætti, en hefði það verið embætti, sem farið var fram á, þá hefðu menn talið styrkinn sjálfsagðan. En þess háttar heyrir til beinna undanbragða, en ekki hreinskilni.

Ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) skyldi jeg vel, af því að uppi á áheyrendapöllunum sat greindur og gegn Árnesingur. (Sigurður Sigurðsson: Slúður!). Það er eftirtektavert, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) og háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) eru hvassyrtastir, þegar flestir áheyrendur eru, og þeir halda að bezt sje að mótmæla vegna kjósenda.

Hyggilegast held jeg verði, að greiða atkvæði með rökstuddu dagskránni, því að jeg hefi þá trú, að þess verði ekki langt að bíða, að fje þetta borgi sig með því gagni, sem af því leiðir.