24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

74. mál, skipun prestakalla

Guðmundur Hannesson:

Mjer þykir ánægjulegt að heyra, að læknastjettin sje vel metin af almenningi.

Vona jeg, að hún sýni það betur og betur, að hún verðskuldi þetta traust.

Þó að jeg sje enginn trúmaður, þá langar mig til, að taka svari prestanna. Íslenska prestastjettin á ekki það ámæli skilið, sem hún fær hjer. Jeg hefi þekt marga presta, sem eru, hvað sem trúmálunum líður — þau læt jeg liggja milli hluta — góðir búmenn. Jeg get tekið undir með háttv. þingm. Snæf. (S. G.), að prestastjettin, eins og raunar flestar embættismannastjettir, kostar okkur minna fje tiltölulega en nokkra aðra þjóð, sem jeg þekki til. En aftur er víst hvergi jafn alþýðleg prestastjett eins og hjer, og jafn lítið frábrugðin öllum almenningi. Hvergi búa prestarnir við jafn lík kjör og alþýða manna, eins og hjer á landi. Á liðnum tímum hafa prestarnir verið hreinustu máttarstólpar hver í sinni sveit. Og þeir eru það víða enn. Þetta er skylt að viðurkenna. Ekki hefi jeg orðið var við það, að prestar sætu alment jarðir sínar illa, heldur þvert á móti. Þó kann það að hittast. Prestar hljóta að vera misjafnir búmenn, eins og aðrir.

Kirkjufjöldann í Eyjafirði er ekki að marka. Þær eru þar hver ofan í annari. Það er þessi undarlega fastheldni í mönnum við gamlar venjur, að vilja endilega halda dauða haldi í þessar ljelegu kirkjukytrur, og það alveg að þarflausu. Grundarkirkja hefir risið upp stór og falleg innan um þennan krans af ljótum og lítilfjörlegum kirkjum, en þó halda menn í þær dauðahaldi. Þetta er ekki af guðrækni. Eyfirðingar eru ekki trúaðri en annað fólk, heldur fastheldnir við gamalt fyrirkomulag. Jeg held, að þingið eigi ekki að taka tillit til þessa. Jeg er ekki kunnugur á Snæfellsnesi, en trúi vel svo kunnugum manni sem háttv. þingm. Snæf. (S. G.). Þori því ekki að leggja neitt til þessa máls, sem hann flytur.