24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

74. mál, skipun prestakalla

Eggert Pálsson:

Jeg skal játa það, að jeg var fyrst á báðum áttum um það, hvernig jeg ætti að greiða atkvæði í þessu máli, er hjer liggur fyrir. Sparnaðarhugsunin gjörði mig dálítið hikandi annars vegar, því að frumvarp þetta hefir í för með sjer aukin útgjöld fyrir landssjóð. Enn fremur verð jeg að kannast við þann sannleika í nefndaráliti meiri hlutans, að gagngjörð breyting í kirkjumálum stæði fyrir dyrum, að skilnaður ríkis og kirkju yrði gjörður og fríkirkja sett á stofn. Jeg hefi alt af verið þeirri hreyfingu fylgjandi, en, að því er jeg hygg, af öðrum hvötum en háttv. meiri hluti. Fyrir mjer hefir það vakað, að jeg er sannfærður um, að þessi breyting yrði til þess, að reisa við og lífga kristindóm í landinu. Aftur á móti virðist mega draga þá ályktun út úr nefndaráliti meiri hlutans, að kristindómur muni deyja út með aðskilnaði ríkis og kirkju. Að minsta kosti sýnist svo, sem lesa megi það milli línanna, og virðist háttv. meiri hl. hlakka yfir því.

En jeg skal játa það, að eftir að jeg hefi lesið nefndarálit minni hlutans og athugað málið frá báðum hliðum, þá hika jeg ekki við, að greiða frumvarpinu atkvæði mitt. Jeg fæ ekki annað sjeð en meðan sú breyting á kirkjufyrirkomulaginu, er meiri hlutinn talar um, er ekki komin á, þá beri löggjafarvaldinu að sjá svo um, að það, sem landið einu sinni hefir tekið á sínar herðar, sje ekki neitt kák. Og þessar brauðasamsteypur, sem nú eiga sjer stað, eru óneitanlega víða hið mesta kák, frá kirkjulegu sjónarmiði skoðað.

Það er ekki að furða þótt kirkjulífið dofni, og menn sæki ver kirkjur, þegar sami presturinn verður að annast 7 eða 5 sóknir, eins og á sjer stað, að því er þessi prestaköll snertir. Það liggur í augum uppi, að menn sækja ver kirkjur, þegar fyrirkomulagið er svona. Jeg hefi reynslu fyrir mjer í því, jafnvel þótt presturinn sje hinn sami, og fólkið sama, þá verða tiltölulega tíðari messuföll eða minni kirkjurækni, ef kirkjurnar eru margar, heldur en ef þær eru fáar, sem sami presturinn þjónar. Fólkið venst þá eins og ósjálfrátt af því að sækja kirkju. Jeg þjóna sjálfur tveimur kirkjum, og messa þar af leiðandi sinn sunnudaginn í hvorri. Og vitanlega stundum með fremur fáu fólki. En nokkurn tíma var það, að önnur kirkjan var ekki nothæf, ýmist vegna endurbyggingar eða viðgjörðar. Jeg tók þá eftir því, að þá var hin kirkjan, sem messað var í á hverjum sunnudegi, því sem næst alt af full, án þess þó, að fólk úr hinni sókninni, þar sem kirkjan var niðri, sækti hana að mun.

Þetta sýnir það, sem líka er mjög skiljanlegt, að því fleiri kirkjur, sem presturinn verður að skifta sjer á milli, því meir dofnar kirkjuræknin í söfnuðunum. En fólkið vill ekki, að kirkjunum sje fækkað, og afleiðingin verður því óhjákvæmilega daufara trúarlíf og þverrandi kirkjurækni. Jeg verð að halda fast við það, að þar sem landinu ber að sjá um þessi mál, þá megi ekki horfa í tvisvar sinnum 1300 kr., til þess að ráða bót á þessu.

Jeg get lýst yfir því, að jeg vil ekki áfellast neinn mann fyrir það, þótt hann greiði atkvæði á móti þessu frumv., en það verður að vera af skynsamlegri ástæðum en háttv. meiri hluti ber fram.

Jeg fæ ekki dulist þess, að enda þótt fríkirkjufyrirkomulagið komist á hjer á landi, þá verður það þó ekki fyr en eftir nokkur ár, og landssjóði ber þangað til að bæta úr þessum og öðrum göllum, sem á prestakallaskipuninni eru. Væri nokkur von um það, að fríkirkja kæmist á nú þegar, með hæfilegum og skynsamlegum aðskilnaði ríkis og kirkju, þá mundi jeg ekki leggja kapp á þetta mál, enda teldi jeg þá, eins og jeg hefi tekið fram, kirkju og kristindómi hjer á landi betur borgið en ella. Og þetta álit mitt er ekki gripið úr lausu lofti. Við sjáum það á dæmunum frá löndum okkar vestan hafs. Það er fólk alið upp við sama hugsunarhátt og við, en klifar þó þrítugan hamarinn, til þess að þurfa ekki að lifa prestlaust. Jafnframt sjest vottur hins sama á því, hve illa fólki hefir fallið það, þegar brauðunum hefir verið steypt mikið saman. Þegar til kastanna kemur, virðist það ekki kunna sem best við prestleysið, þótt verið sje við og við að hnýta í þá á meðan þeir eru.

En jafnvel þótt háttv. meiri hluti hafi verið á móti því, sem þetta frumv. fer fram á, þá var samt óþarfi af honum að nota tækifærið, til þess að kasta hnútum í prestastjettina yfirleitt í nefndaráliti sínu. Þar segir meðal annars, að sumir prestar hafi níðst mjög á ábýlisjörðum sínum. Það getur verið, að þetta hafi átt sjer stað um einn og einn prest, sem við fátækt eða erfiðar kringumstæður hefir átt að búa, en þrátt fyrir það, var það óþarft, að vera að sletta þessu í þingskjali, því að víst er um það, að afarmörg prestsetur eru mestu fyrirmyndar heimili í sinni sveit, en þau forðast nefndarálitið að nefna. En þótt fátækir prestar í einstaka tilfelli hafi ekki getað setið jörð sína sem best, þá er það ekkert undarlegt nje sjerstakt fyrir prestastjettina. Það sama á sjer stað á ýmsum bóndabýlum, ekki síst þeim, er setin eru af leiguliðum. Og flestir prestanna eru einmitt leiguliðar. Það vita allir.

Þá er það eigi síður undarlegt, að vera að kasta hnútum í prestana fyrir það, að þeir hugsi of mikið um tímanlega hluti. Þetta kemur líka hálfilla heim við ámælin fyrir það, að þeir sitji illa jarðir sínar. Eftir því, sem háttv. meiri hluta farast orð í nefndaráliti sínu, finnur hann prestum það til foráttu, að þeir hugsi ofmikið og oflítið um veraldlega hluti. Og þá sýnist svo, sem þeim fari að verða vand farið. Báðar eða rjettara sagt allar þessar ákúrur, er hv. meiri hl. ber fram, eru þannig ekki að eins á hinum mesta misskilningi bygðar, heldur sýna þær beinlínis að mennirnir vita ekki, eða hafi ekki hugsað um, hvernig til hagar hjer á landi í þessum efnum. Það þarf engan, er athugar málið samviskusamlega, að furða á því, þótt hugur prestanna verði að vera nokkuð tvískiftur, þar sem laun þeirra eru ekki hærri til að byrja með en 1300 kr. Með slíkum launum fyrir hið prestlega starf, verður vitanlega ekki hjá því komist, að presturinn verði að gefa sig að öðru jafnframt.

Jeg gæti vitanlega, og hefði gilda ástæðu til, að tala meira um þetta mál og víta enn frekar, ekki að eins orð háttv. meiri hluta í nefndarálitinu, heldur sjerstaklega hugsunarhátt þann og óvild til presta og kirkju, sem andar út úr því öllu saman, en læt þó hjer við staðar numið.