31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

129. mál, útflutningsgjald

Flutnm. (Sveinn Björnsson):

Jeg skal drepa nokkrum orðum á ummæli einstakra háttv. þingmanna. Í fyrsta lagi hafa flestir byrjað ræður sínar á því, að þetta frumv. komi fram alt of seint, og legið okkur á hálsi fyrir það. Ef nú svo skyldi vera, þá gjöri jeg samt ráð fyrir, að menn álíti, að hjer sje þörf á að gjöra einhverjar ráðstafanir; því hafa þeir þá ekki sjálfir hafist handa, þessir góðu herrar, og gjört eitthvað til þess að bæta úr dýrtíðinni? Eins og jeg tók fram áðan, þá var þessum dýrtíðarmálum hreyft í byrjun þings, og nefnd þá kosin. Tillögur hennar voru skornar niður, en þar sem fyrirsjáanlegt var, að nefnd myndi verða kosin fyrir alt þingið, þá sá jeg mjer ekki annað fært en að bíða með frekari ráðslaganir uns sú nefnd væri kosin. Þetta hefði því getað komið fyrr fram, ef háttv. þing hefði tekið það ráð fyrr, að kjósa Velferðarnefndina. Eftir að hún var kosin, var þetta hennar fyrsta verk. Hún hefir haldið fund á hverjum einasta rúmhelgum degi að minsta kosti, og alt af haft nóg til að ræða um, svo jeg hygg, að ekki sje hægt að liggja henni á hálsi fyrir iðjuleysi. Þeir, sem það gjöra, ættu heldur að stinga hendinni í sinn eigin barm. Jeg vil ekki taka á móti neinum ákúrum fyrir þetta, og síst frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem leyfir sjer að setjast niður með þeim ummælum, að heppilegast mundi vera að láta frumv. ekki ná fram að ganga, þar sem ekkert hafi verið gjört.

Þá komu og fram ýmsar aðfinslur við þær leiðir, sem farnar væru. Ef farið væri útflutningsgjaldsleiðina, þá væri heppilegra að leggja tollinn á eftir verði, en ekki eftir þyngd o. s. frv. Jeg hygg, að flutningsmönnum sje þetta engum neitt kappsmál, ef að eins er hægt að benda á framkvæmanlegar leiðir til þess, að leggja tollinn á eftir verðhækkun, og vilji menn bera saman ráð sín, þá er ekkert ólíklegt, að sú leið kynni að finnast. Mjer er þetta ekkert kappsmál. Aðalatriðið fyrir mjer er að fá tekjur á einhvern framkvæmanlegan hátt. Þá hefir og verið fundið að því, að gjöldin kæmu alt of hart niður á landbúnaðinum og of lítið á sjávarútveginum. Jeg gat þess áðan, að með þessum taxta, sem jeg hefði lagt á, þá væru gjöldin, sem kæmu á sjávarútveginn, hjer um bil jafnmikil og á landbúnaðinn. En jeg mun síst vilja halda því fram, að þetta gjald eigi að koma hart niður á landbúnaðinum. Jeg vil á engan hátt íþyngja honum fram yfir sjávarútveginn, enda má sjálfsagt finna leið til samkomulags út úr þessu. En jeg fæ ómögulega skilið, að bændur þessa lands vilji engan þátt taka í þessu gjaldi. Jeg er þess fulltrúa, að þeir líti svo stórum augum á þetta, að þeir beinlínis krefjist þess, að fá að vera með. Töxtunum má gjarna breyta fyrir mjer; jeg hefi aldrei ætlað mjer að fylgja þeim í gegn um þykt og þunt.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að með því að fara þessar leiðir, sem frv. bendir á, þá mundi þetta gjald ekkert snerta kaupmenn, sem þó hefðu manna mest grætt á ófriðnum. Þetta er misskilningur. Gjald þetta hittir má ske engu síður þá kaupmenn, sem grætt hafa en aðra menn.

Sami háttv. þingmaður kvað rjettast, að vinnuveitendur greiddu verkafólki sínu hærra kaup. Þótt þetta sje má ske alveg rjett, þá má ekki gleyma því, að það er ómögulegt, að skylda vinnuveitendurna til þess með lögum, meðan þeim bjóðast menn fyrir lægra kaup.

Þá fór háttv. þm. Dal. (B. J.) mörgum fögrum orðum um, að engin meining væri í því, að leggja þyngri gjöld á bændur en hæfilegt væri í samanburði við sjávarútveginn. Hann gjörði mikið úr því stórtjóni, sem bændur hefðu orðið fyrir í fyrra. Jeg veit, að svo muni hafa verið sumstaðar, t. d. í kjördæmi háttv. þingm. sjálfs, Dölunum. Jeg er ekki viss um, að menn hafi alment orðið svo hart úti, að menn þyldu nú ekki að greiða lítið gjald af gróða sínum nú í ár. Jeg hygg, að niðurstaðan myndi verða sú, ef rannsakað væri nákvæmlega, að hjeruðin myndu standa sig vel við, að leggja eitthvað af mörkum á móti sjávarútvegsmanninum. Og vel má athuga það í því sambandi, að jeg hygg, að kostnaðurinn við framleiðslu hafi aukist meira í ár hjá sjávarútvegsmönnum en bændum.

Háttv. þingmaður fór og þeim orðum um dýrtíðarhjálpina, að það væri undarlegt hringsól, ef bóndinn ætti fyrst að borga útflutningsgjald af vöru sinni, en fá svo hjálpina. Má vel vera, að þetta sje undarlegt hringsól, en svona er nú gangurinn í þjóðfjelaginu, að menn fá inn á einn hátt aftur, það sem þeir borga út á annan hátt, og er þetta dæmi því ekkert sjerlegt »fænomen«. Háttv. þingm. Dal. (B. J.) viðurkendi fullkomlega, að svo mikil dýrtíð væri í landinu, að full þörf væri sjerstakra ráðstafana frá hálfu þess opinbera. Honum líkaði að eins ekki þessi leið, sem farin væri í frumv. Jeg skal ekki gjöra það að neinu kappsmáli. Fyrir mjer vakir að eins það, að koma málinu í hreyfingu hjer á þingi, svo að það verði tekið til rækilegrar íhugunar. Hverri einustu uppástungu, sem betur má fara, skal tekið með þökkum. En út af þessari nýju uppástungu háttv. þingm. Dal. (B. J.), um að landssjóður kaupi nægilegar kornbirgðir og selji svo aftur með lágu verði, þá skal jeg geta þess, að á henni eru annmarkar, sem menn mega ekki vera blindir fyrir. Ef nægilegt korn á að kaupa handa landsmönnum öllum, þá þarf til þess svo mikið rekstursfje, að jeg veit ekki hvernig landssjóður á að fá það. Hann þyrfti margar miljónir króna til þess. Í öðru lagi má ekki skaða þá kaupmenn, sem þegar hafa fengið sjer miklar birgðir. Landssjóður yrði þá að kaupa af þeim birgðir þeirra, og til þess alls þyrfti meiri höfuðstól en jeg sje, að landssjóður geti ábyrgst sjer. Má vera, að hægt sje að fá bændur til þess, að selja landssjóði fje gegn hæfilegu verði. Jeg skal ekkert um það segja, en það hlýtur að koma bráðlega á daginn, því nú þegar hafa verið gjörðar ráðstafanir í þá átt, að grenslast eftir hjá Sláturfjelaginu fyrir hvaða verð það mundi vilja selja landsstjórninni kjötbirgðir.

Tekjuskattsfrumv. háttv. þingm. Dal. (B. J.) álít jeg að fari of langt, en ef vissa fengist fyrir því, hvar tekjur væri hæstar, þá gæti það verið gott, en slíkt mun verða afarerfitt. Þær einu tekjur, sem menn vita um með vissu, eru tekjur embættismanna, en um tekjur flestra kaupmanna, útgjörðarmanna og bænda mundi verða afarerfitt að segja, svo ábyggilegt væri.

Jeg á hálf bágt með að svara ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. J.). Hún var svo persónuleg. Hann hjelt, að jeg væri með þessu frumv., að búa mig undir næstu kosningar. O-jæja. Má ske hann fái fleiri á sína skoðun. Jeg verð að að reyna, að taka því með ró, en jeg held, að þetta sje svo mikið alvöru mál, að það verði að hugsa alvarlega um það, jafn vel þó einhver kynni að vera svo lítt vandaður, að vilja gjöra það að kjósendakjöti.

Eftir að þessi uppástunga kom frá nefndinni, hafa komið fram margar aðrar uppástungur, sem sýna, að menn hafa alment áhuga á þessum málum.

Jeg held, að heppilegast væri, að kjósa sjö manna nefnd af öllum stjettum, sem svo athugi þetta í samráði við Velferðarnefndina, því þar sem uppástungur þessar eru í frumvarpsformi, þá er hið eina þinglega, að kosin sje nefnd, til þess að athuga það.

Jeg hefi ekki heyrt eitt einasta atriði hrakið af því, sem jeg sagði um ástandið í landinu, og að það beri nauðsyn til þess, að hefjast handa. En vilji einhverjir háttv. þingmenn ekki lofa þessari tillögu fram að ganga, af því að hún »passar ekki í þeirra kram«, þá taki þeir sjálfir við og gjöri betur.