31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

129. mál, útflutningsgjald

Skúli Thoroddsen:

Af því, að svo hefir atvikast, að jeg er talinn einn af flutningsmönnum frumv. þess, er hjer ræðir um, þótt eigi sje jeg því, nje stefnu þess, fylgjandi, þykir mjer þó nauðsyn til bera, að fara um það nokkrum orðum.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) gat þess, að í »Velferðarnefndinni«, sem svo er nefnd, hefðum vjer allir verið á því, að afla bæri landssjóðinum tekna, sem og á því, að það ætti að gjörast með útflutningsgjaldi.

Hvað fyrra atriðið snertir, þá er það rjett.

Seinna atriðið, þ. e. að teknanna ætti að afla með útflutningsgjaldi, það er á hinn bóginn ekki rjett, — ekki nema hálfur sannleikur, að vjer höfum allir í »Velferðarnefndinni« verið þeirrar skoðunar, að það ætti að gjörast með útflutningsgjaldi.

Bæði jeg, og hv. þm. Skagf. (J. B.), bentum í nefndinni á það, að væri fjárins aflað með útflutningsgjaldi, þá mætti það ekki gjörast á þann hátt, sem frv. fer fram á, heldur yrði útflutningsgjaldið þá að miðast við verð vörunnar, eins og það væri á hverjum tíma, þar sem gjaldið gæti ella — ef varan fjelli í verði — orðið að versta ójafnaðargjaldi.

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) var og í »Velferðarnefndinni« verðtollinum hlyntari.

En hví jeg hafi þá gjörst einn af flytjendum frumv., munu menn spyrja, þar sem jeg hafi þó verið því mótfallinn.

Til þess er því að svara, að rjett þótti, að allir vjer »Velferðarnefndar«-mennirnir, sem í neðri deild erum, flyttum frumv. inn á þingið, svo að það sæist þá á þann hátt, að það væri vilji »Velferðarnefndarinnar«, að málið kæmist inn á þingið.

Útflutningsgjaldsfrumvarpið, sem hjer liggur fyrir, lá og fyrir, samið af einum í »Velferðarnefndinni« (1. þm. Rvk.), og því ekki annað en koma því í prentið, þar sem það þá og á hinn bóginn hefði — í öllu annríkinu — tekið að mun tíma, að fara að semja nýtt frumvarp, hvort sem nú verið hefði þá verðtollsfrumvarp, eða eitthvað annað.

Á hinn bóginn þegar liðið, mjög á þingtímann, og því afar-áríðandi, að málið kæmist þegar inn á þingið, svo að þingið gæti vísað því til nefndar, og ráðið því þá sjálft — í stað þess að láta ráðherra, og aðstoðarnefnd hans gjöra það — á hvern hátt tekjur yrðu landssjóðnum útvegaðar.

Að því er framkomu mína í »Velferðarnefndinni« til þessa snertir, hefi jeg — í fám orðum sagt — haldið því fram, er hjer segir:

1. að nauðsynlegt væri, að útvega almenningi svo ódýra útlenda vöru, sem kostur væri, — og að sjá um, að nauðsynjavörurnar væru, ef til þyrfti að grípa, til taks á ýmsum höfnum hjer á landi

2. að landsstjórnin gjöri og sitt til þess, að afla almenningi í höfuðstaðnum, sem og kaupstöðunum, eigi síður íslenskra afurða en útlendrar vöru, með þolanlegu verði;

Benti jeg í »Velferðarnefndinni« í því skyni á það, að mjer virtist og rjett, hvað íslenskar landsafurðir sjerstaklega snerti, að ritað væri í sýslufjelögin og spurst fyrir um það, hvort menn þar væru eigi fáanlegir til þess, að selja landsstjórninni eitthvað tiltekið af kjöti o. fl. við lægra verði en markaðsverðið yrði.

Vakti það þá fyrir mjer, að þeir, sem á ófriðnum græða, þ. e. framleiðendurnir, ættu af fúsum vilja — og án þess til nokkurrar lagaþvingunar kæmi — að vilja vera þeim vel, sem bágt eiga, og verða að kaupa miklu dýrari vörur, ófriðarins vegna, en ella.

En þessari tillögu minni, sem jeg hefi þó og skotið að ýmsum þingmönnum, þ. e. mönnum utan »Velferðarnefndarinnar«, hefir þó hvergi verið vel tekið.

3. Hefi jeg talið nauðsyn, að landið væri birgt svo vel að ýmsri nauðsynjavöru (kornvöru, salti, olíu, kolum, veiðarfærum o. fl. o. fl.), að til væri einatt nægur forði, þótt hjálpað væri þeim um ódýra vöru, jafnvel nú þegar í haust — til einhvers af vörunni gripið þá þegar í því skyni —, er þess helst þyrftu.

Og þessi forði, — tryggingin þess, að eigi yrðu nein vandræði, þótt siglingar jafnvel al-teptust um hríð — ætti þá og að sjálfsögðu eigi að vera til hjer í Reykjavík að eins, en og eigi síður á hinum og þessum höfnum.

4. Hefi jeg og talið áríðandi, að landsstjórnin gæti og verið við því búin, að geta veitt sveita- og bæjarfjelögum: a. hjálp, er eigi væri talin sveitarstyrkur, eða þá

b. lán, eða

c. fje, til að veita mönnum atvinnu í kaupstöðunum, kauptúnunum og sjávarhverfunum, þar sem að sverfur.

Vjer vitum t. d., að að því kemur, fyrr eða síðar, að vjer byggjum landsspítala, háskóla o. fl.

Á sama hátt má og styðja sveita- og bæjarfjelögin með hagkvæmum lánum, til þess að geta veitt mönnum atvinnu við ýms gagnleg fyrirtæki, og ættu lánin þá að vera afborgunarlaus fyrstu árin, og vextirnir mjög lágir.

En til alls þessa þarf fje — sem og til dýrtíðaruppbótar fyrir símafólkið o. fl. af starfsmönnum landssjóðs —, og getur þá svo farið, að einnar millj. króna lántöku heimildin nægi ekki, þótt lánið þá fengist.

Færi svo, sem vel getur orðið, er minst varir, að verslunarviðskiftin við Danmörku, og Norðurlönd, stöðvist, ef eigi og við Bretland, eða ef Bretar bönnuðu enn frekar en orðið er, útflutning á nauðsynjavörum ýmis konar, svo að eigi væri nema til Ameríku að leita — hvar stöndum vjer þá með fje?

Það villir mönnum um of sýn — en á eigi, nje má, villa mönnum sýn, — að eigi er hjer bjargarskortur, nje vandræði enn, enda nú um hásumarið.

Alt hefir og í vetur, er leið, og enn fram á þenna dag, gengið að mun þolanlega, þrátt fyrir stríðið.

En því má eigi gleyma, að hættan er nú æ sívaxandi.

Ríkin, er í ófriðnum eiga, eyða æ meira og meira fje, og því — verður að fara að skera úr sem fyrst.

Heiptin er og sí-vaxandi, — heiptin er alls einskis svífst.

En vel getur svo farið, að landsstjórnin verði um lengri eða skemri tíma — tíma, er orðið gæti enda 1–2 ár, en nægði, þótt eigi stæði yfir, nema ¼–½ eða ¾–1/1 ár — »»verði«, að koma í stað kaupmanna, og kaupfjelaga, að því er það snertir, að sjá þá öllum almenningi fyrir erlendum nauðsynjavarningi.

Jeg á við það, ef öll siglingasambönd við Danmörku, Norðurlönd, og jafnvel við Bretland, alteppast.

En viðskiftasambönd (og lánstraust) kaupmanna, sem og kaupfjelaganna, ef eigi þá og bankanna, algjörlega við þau lönd ein bundin, sem kunnugt er.

Það er því rjett, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) benti á, að landsstjórnin getur þarfnast eigi einnar, eða 3–4 milj., en jafnvel 8–10 milj., ef eigi enn meira.

Og þegar eigi verður neitað, að slík er hættan, er yfir getur vofað, og á dottið, er minst varir, þá væri það stök óforsjálni, að tryggja eigi landsstjórninni nóg fje, eða heimila henni þó nægilega lántöku, ef ske kynni, að hún — t. d. fyrir milligöngu Vestur-Íslendinga — gæti þá fengið fje að láni í Ameríku.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) benti á, að sem stæði væri eigi um neyð að ræða, en að eins um örðugleika í kaupstöðunum, og þetta er — alveg rjett.

En vjer eigum, að brynjast gegn því, er orðið getur, — neyðin á æ að fyrirbyggjast, sem unt er, og þing verður nú eigi háð, eða stendur eigi til, að verði, fyrr en eftir tvö ár.

Alt fjeð, sem landssjóður á í Ameríku, var um 600 þúsund króna, í banka í New-York, og þar af ganga nú þegar:

a, til olíukaupa (Fiskifjel. Íslands) um 100 þús.

b, matvara, þegar pöntuð frá Ameríku, eða þá

sama sem pöntuð, fyrir 300–400 þús.

Eftir þá 100–200 þús.

Allir sjá, hve vel þar er búið, eða hitt þó heldur.

Jeg tek það því enn upp, og legg áherslu á það, að þingið ætti ekki svo við að skilja, að eigi væri sjeð fyrir því svo vel, sem unt er, að landsstjórnin væri sem allra best fær um að mæta öllu því, er Jeg hefi vikið að í ræðu minni, og væri og — fær um, að birgja að vörum, og hjálpa, og lána, eins og jeg á benti, ef eigi enn frekar.

En hvað útflutningsgjaldsfrumv., sem hjer liggur fyrir, snertir, þá er mjer, eins og jeg vjek þegar að í byrjun ræðu minnar, alveg sama, hvað um það verður.

Aðalatriðið er, að það sje gjört, — fyrir því nægilega sjeð, sem þörfin er á.

Hitt skiftir eigi, hver aðferðin að öðru leyti er höfð.

Jeg mun því greiða atkvæði með nefndarskipun, svo að málið verði sem rækilegast íhugað, þó að mjer, ef eigi lægi nefndaríhugun fyrir, væri að sjálfsögðu næst skapi, að vera móti frumvarpinu.