11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

133. mál, stimpilgjald

Guðmundur Eggerz:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) gat þess, að stimpilgjaldslög væru hæg í framkvæmdinni. Þetta er ekki rjett álitið. Jeg hugsa, að jeg geti betur borið um þetta en hann, því að jeg hefi verið á skrifstofu í Danmörku, þar sem slík mál komu iðulega fyrir. Þessi skrifstofa átti að úrskurða mál, sem risu út af þar gildandi stimpilgjaldslögum. Það voru öll kynstur af málum, sem komu þar til úrskurðar, og sum voru svo flókin, að 20–30 málsskjöl komu fram. Menn stimpluðu skjölin rangt, ekki af því, að menn vildu svíkja, heldur af því, að þeir höfðu misskilið lögin, og þó voru dönsku lögin mjög ítarleg. Þau voru, ef mig minnir rjett, í 157 greinum. Menn geta nú rjett hugsað sjer, hvort ekki yrði sífelt rifrildi og sífeldir úrskurðir út af þessum lögum, sem ekki eru nema í 12 greinum. Kæmist þetta frumv. í gegn um þingið, þá yki það gjöld landsmanna um 60,000 kr. Jeg held, að við ættum ekki að óþörfu, að leggja spónnýja skatta á þjóðina, án þess að spyrja hana um það fyrirfram.

Með aukatekjulögunum nýju voru hækkuð rjettargjöld og þinglestrargjöld. Áður var hæsta þinglestrargjald 12 kr., en það hefir komið fyrir mig síðan, að taka 400 krónur fyrir þinglestur á einu brjefi. Og nú er farið fram á nýja hækkun. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki haft tíma til að setja mig inn í lögin, sem skyldi, en jeg vil leyfa mjer, að benda á einn lið, rjettargjöldin. Þau voru hækkuð með nýju aukatekjulögunum, og nú er farið fram á að hækka þau enn.

Nú á að gjalda í stimpilgjald:

Af sáttakæru kr. 0,50

— stefnu — 0,50

— innleggi 0,50, en jeg reikna

fjögur innlegg í máli. — 2,00

— útskrift 0,50, fjórar í máli — 2,00

— dómsgjörðum — 2,00

— vitnaleiðslu — 1,00

eða samtals kr. 8,00

aukin útgjöld í einu máli, og getur það talist eigi lítil hækkun.

Einhver sagði, að þetta gjörði ekkert til, því gjaldið kæmi niður á »spekulöntum«. Það getur verið, að nokkuð sje um þá hjer í Reykjavík, en það er ekki svo út um land. Yfirleitt fara menn í sveitunum ekki í mál, nema ástæða sje til. Enn vil jeg geta þess, að jeg hefi ekki tekið eftir því í lögunum, að gjört væri ráð fyrir undanþágu fyrir sparisjóði, svo sem gjört er annarstaðar, t. d. í Danmörku.

Af þessum ástæðum get jeg ekki greitt atkvæði með þessu frumv. Mjer finst það illa úr garði gjört. Það þyrfti að vera í fleiri greinum og ítarlegra.