11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

137. mál, dýrtíðarskattur af tekjum

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi gjört ósköp stutta grein fyrir því í nefndaráliti mínu, að jeg var einn á þeirri skoðun í nefndinni, að þegar hjálpa ætti fátækum mönnum í hörðu ári, þá bæri að taka fje til þess af þeim, sem aflögufærir eru, en ekki af fátæklingunum sjálfum. Í þessa átt miðar frumv. alt, og einstakar greinar þess.

Þegar jeg bar frumv. fyrst fram, var það grundvöllur frá mjer, eða tillaga, til þess að fá fje í landssjóð í þessu skyni, borin fram bjargráðasveinum til athugunar. Þá var gjaldið sett ofhátt, eftir þeim ástæðum, sem nú eru í landinu, en það hefði engan veginn verið ofhátt gjald, ef voði hefði verið á ferðum. En eins og það er nú orðið í mínum síðustu tillögum, er það orðið alt annað.

Því miður var ekkert gagn að nefndinni, sem sett var í þetta mál. Hún hjálpaði mjer ekkert til að laga frumv., heldur ákvað hún að skera það niður, án þess að leitast við að bæta það á nokkurn hátt. Jeg hefi því sjálfur gjört ýmsar endurbætur á því, og býst jeg við, að mörgum muni þykja þær til verulegra bóta.

Fyrsta brtt. er við 1. gr., um að lækka takmarkið, sem jeg hafði sett, 3000 kr. frv., niður í 2500 kr. Þessa breytingu hefi jeg gjört til þess, að skatturinn falli meira á búandmenn og aðra þá, sem geta lifað ódýrar og eiga hægara með að gjalda skatt af lægri tekjum heldur en þeir, sem lifa á dýrari stöðum. Jeg hygg, að með þessu móti komist l/3 bænda í landinu undir tekjufrumvarpið. Ef jeg byrja á því að draga frá þá, sem fátækari eru, og gjöri það 2/3 allra bænda á landinu, þá segi jeg, að sá þriðjungurinn, sem þá er eftir, hafi að meðaltali svo háar tekjur, að skatturinn nái þeim. Jeg styrktist í þessari skoðun minni, þegar jeg heyrði skýrslu þá, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) las hjer upp, þar sem hann fjekk það út, með því að deila bændatölunni í fjenaðartöluna, að meðaltekjur allra bænda á landinu væru 1200 kr. Sumir bændur fara langt yfir það takmark, og gæti jeg t. d. nefnt einn bónda, sem fjekk 3000 kr. bara fyrir ullina sína í sumar. Það er aðgætandi, að hjer er ekki verið að tala um skatt, sem eigi að standa lengi. Kosturinn við mitt frumv., fram yfir útflutningsgjaldið, er sá, að þenna skatt borga að eins þeir bændur, sem eru gjaldfærir, og mjer telst svo til, að það muni verða 1/3 hluti allra bænda á landinu. Jeg veit það, að í meðalári myndi það ekki verða svo há tala, en þegar afurðir bænda eru í jafn háu verði og nú, tel jeg víst, að 1/3 hluti þeirra að minsta kosti hafi svo miklar tekjur, að þessi skattur nái þeim. Þar næst myndi þetta gjald ná til allra þeirra háttelskuðu embættismanna í landinu, sem hafa yfir 2500 kr. árstekjur. Jeg skal játa það, að þeir, sem búa hjer í Reykjavík, yrðu harðast úti, en skatturinn er svo lágur á þeim, sem hafa minni tekjur en 3000 kr., að hann yrði þeim naumast tilfinnanlegur. Jeg býst við, að það yrði vel þegið af sumum mönnum, að þessar landssjóðsætur borguðu aftur eitthvað í landssjóðinn. Þetta eru ekki mín orð, heldur tala jeg þau í anda annara. Þar að auki myndi þessi skattur koma niður á hjer um bil 300 kaupmönnum af þeim 400 kaupmönnum, sem eru á landinu. Ef tekið er meðaltal af tekjum þeirra allra, myndi það verða rúmlega 3000 kr. á ári. Jeg veit vel, að til eru smákaupmenn, sem ekki ná þeim tekjum, en þegar tekjum allra kaupmanna á landinu er jafnað niður, verða þær að minsta kosti 3000 kr. að meðaltali á hvern kaupmann. Sennilega næðust eins miklar tekjur af þessu eins og með útflutningsgjaldinu.

Jeg hefi lækkað gjaldið frá því, sem var í mínu frumv. upphaflega og frá því, sem var í fyrri brtt. mínum þannig:

Af fyrstu 500 kr. fram yfir 2500 kr. skal greiða 2%. Af næstu 1000 kr. þar fyrir ofan 3%. Af 5000 kr. tekjum skal greiða 3½% og af 6000 tekjum 4%. Síðan fer hundraðsgjaldið vaxandi um ½% við hver þúsundaskifti, þar til það nær 10%. Þetta getur ekki talist hátt gjald, ef um það væri að ræða, að neyð stæði fyrir dyrum. En jeg skal gjarnan ganga inn á að skatturinn stigi ekki svo ótt, sem ætlast er til í brtt. mínum á þgskj. 820; mætti til dæmis láta hann stíga um ¼% í stað ½% og um ½% í stað 1% Jeg skal játa, að hvort sem menn vilja nú breyta þessu svo eða halda því, sem jeg hefi sett, þá kemur það auðvitað miklu hægar niður á þann, sem hærri hefir tekjurnar, að borga mikið gjald, heldur en hinn, sem lægri hefir tekjurnar, að borga lægra gjaldið. Eins gæti jeg gengið inn á það, að hundraðsgjaldið væri látið vaxa um l‰ í stað 2‰ þangað til það er komið upp í 15% og um ½‰ í stað l‰ til 20%. Jeg væri fús til að ganga inn á slíkar brtt. eða koma fram með þær sjálfur til 3. umr.

Svo skal jeg geta þess, viðvíkjandi hlutafjelögum, að samkvæmt frumv. mætti taka af þeim tvöfaldan skatt, nefnilega bæði af hlutafjelögunum sjálfum og af ágóða hluthafanna. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta, og mun jeg koma með brtt. þar að lútandi til 3. umr.

Þetta er það, sem þyrfti að lagfæra; annars er hundraðsgjaldið alveg laust frá minni hendi; það er ekki stefna frumv., heldur hlýtur það að fara eftir þörfinni. Og fyrst af öllu verður stjórn og Velferðarnefnd að segja, hversu mikils þarf við, en hins vegar er erfitt að vita með nákvæmni, hversu hátt gjaldið þarf að vera, af því að menn vita ekki enn, hvernig muni haga til með samgöngur, og ekki heldur afleiðingar ófriðarins, en menn verða að vera við öllu búnir.

Þá eru ýms ákvæði um það, hvernig jafna skuli skattinum niður og heimta hann inn. Það ætlast jeg til, að gjört sje með skattnefndum, en hreppsnefndir og sýslunefndir eiga að segja til, hversu miklar tekjur þessi og þessi hefir, og skal heimta inn samkvæmt því. Ef rangt er frá sagt, vil jeg að við liggi refsing, sem fyrir skjalafals væri. Því ætti það ekki að vera erfitt í hendi duglegrar stjórnar að inna þetta af hendi, og er því sú ástæðan, að það yrði ofraun, slegin niður.

Í öðrum löndum, og á Íslandi líka, eru ýmsir skattar, og borgast þeir inn, þótt ef til vill sje skakt sagt til á stundum. Erfiðast myndi verða, að fást við þetta hjer, þar sem um landbúnaðinn er að ræða, en þá mætti skipa til þess sjerstaka nefnd, að jafna skattinum þar niður.

Við aðrar atvinnugreinir og fyrirtæki er auðveldara að eiga; þar ætti því ekki að verða skotaskuld að finna tekjustofninn.

Jeg hefi því sett ákvæði þessu viðvíkjandi í lögin. En enn fremur hefi jeg sett í þau ákvæði, sem að minni hyggju eru bráðnauðsynleg, bæði í þessi og önnur dýrtíðarlög, sem hjer eru á ferðinni, og því flestir hljóta að fallast á, að stjórnin jafni tekjunum niður eftir því, sem misæri er í landinu ófriðarins vegna, með öðrum orðum, ljetta undir byrðina með þeim, sem verst verða úti, vegna þess, að þeir verða að kaupa alt, en framleiða ekkert sjálfir. Þetta ákvæði þarf að standa í lögunum, til þess að tekjurnar renni ekki í landssjóð og verði síðan notaðar til brúagjörða, eða renni ekki í vasa skjólstæðinga minna, eins og einhver háttv. þingm. komst áðan að orði.

Jeg vil engan aukaskatt leggja á þjóðina, nema það eitt, sem nauðsynlegt kann að verða, til þess að koma í veg fyrir hallæri eða misæri. Því væri rjett, ef það reyndist þannig, að misæri yrði ekki neitt í landinu, að ákvæði væri í lögunum um það, að þessa skatts skyldi aldrei krafist, ef sú yrði raunin á. Enda væri nægilegt, ef peningaforði væri fyrir hendi, eða þá að stjórninni sje veitt lánsheimild.

En þar sem hjer eru vitrir löggjafar á Alþingi Íslendinga, munu þeir, þótt þeim virðist annmarkar á lögum þessum, sjá, að það er eftir vonum, þar sem jeg hefi einn fengist við samning þeirra, og er því ekki að undra, þótt mjer kunni að hafa yfir sjest, enda þótt jeg færi eftir erlendum lögum. En þó að svo sje, geta þessir vitru löggjafar lagað lögin til 3. umræðu, svo að þau verði góð og vel við þau hlítandi.

Það er þá ekki annað eftir en að laga frumvarpið, því þetta er eina rjetta leiðin til að ljetta misærinu, ljetta undir með þeim, er ekki hafa nóg til lífsviðurværis, að þeir, er betur eru settir, gjöri það. (Guðmundur Eggerz: Háttv. grískudócentinn er of nískur, til að láta það lenda á sjer). Það lendir á háttv. grískudócentinum, en það lendir meira á háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), af því að hann hefir um 9 þús. kr. tekjur á ári. En þó að hann sje að gefa undir fótinn með, að jeg sje nískur, þá mundi ekki meira verða gefið hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) enn hjá mjer, ef leitað yrði samskota.

Þetta er rjettari grundvöllur, að taka ekki af fátæklingunum, sem sjálfir þurfa hjálpar við. Annar kostur þessara laga er sá, að tilgreint, er hvað gjöra skuli við skattinn og hve nær hann eigi að falla niður. Hundraðsgjaldið og annað er jeg fús til að laga, og veit jeg, að löggjafarnir munu ekki spara sína krafta, til þess að ráða bót á þessu.

Í síðustu grein laganna stendur, að þau skuli gilda til næsta þings, því þá er nægur tími til að framlengja lögin, ef þörf þykir, en hins vegar ekki rjett að láta þau gilda um langan tíma, ef þörf krefur ekki. Því að frumv. þetta er til þess, að jafna kjör landsmanna.

Jeg skal svo ekki verða margmæltari um þetta. En jeg vil að endingu láta þess getið, að mjer er frumv. þetta ekki neitt kappsmál af því, að jeg kom fram með það. Jeg vildi gjarna hafa hvíslað hugmyndinni að einhverjum, er hefði nógu sterkan flokk, til þess að koma því fram. En jeg vona nú, að menn haldi þá ekki hinu frumvarpinu, sem hjer var á ferðinni, til streitu af tómu flokkskappi, því að af flokkskappi verður það, ef það frumv. verður samþ. en þetta felt.