10.08.1915
Neðri deild: 29. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

35. mál, verkamannamálið

Framsm. (Guðm. Hannesson):

Jeg vonast eftir því, að háttv. flutningsmaður upprunalegu tillögunnar misvirði það ekki við landbúnaðarnefndina, þó hún hafi vikið tillögu hans dálítið við, því sama er meiningin hjá báðum, að gjöra þessum stjettum gagn. Hvað skýrslur um hag húsmanna erlendis snertir, þá ber þess að gæta, að húsmenn vorir eiga við alt önnur kjör að búa en þeir í útlöndum, því þar hagar víðast svo til, að þeir mega miklu fremur kallast bændur. Upprunalega var að vísu jarðrækt þeirra og búskapur aukaatvinna ein, en þetta hefir breytst, og lifa þeir nú eingöngu eða mestmegnis af búum sínum.

Nefndinni fundust ekki sambærileg kjör húsmanna okkar og húsmanna annarra þjóða, en eigi að síður er ekkert á móti því, að þingmenn sæju skýrslur um aðalatriðin viðvíkjandi hag þeirra, einkum þar sem líkt hagaði til og hjer.

Þó að nefndin hafi þannig ekki búist við miklum árangri af erlendu skýrslunum, þá taldi hún, að meira mundi vera að græða á innlendum skýrslum um allan hag húsmanna, hvernig þeir kæmust af og hvort þeir hefðu allir land það, er lög mæla fyrir. Nefndin taldi ekki ólíklegt, að ástæða væri til þess, að breyta löggjöfinni um húsmenn og þurrabúðarmenn, sjerstaklega hvað landsstærðina snertir, sem sýnist alveg úr lausu lofti gripin. Landið var upprunalega ákveðið 400 ? faðmar. Þetta var helsti stórt fyrir kálgarð og of lítið fyrir tún. Seinna var það ákveðið 900 ? faðmar, en einnig þetta er of lítið fyrir tún handa t. d. einni kú.

Annað er ekki um þetta að segja frá nefndarinnar hálfu, en vilji einhver gjöra einhverjar fyrirspurnir, þá skal þeim fúslega svarað.