06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

85. mál, rannsókn á hafnarstöðum og lendingum

Guðmundur Hannesson:

Jeg hefi ekki margt að segja, úr því að hv. framsögumaður tekur svo vel í þessar brtt. á þgskj. 242. Það er víst eflaust rjett, að enginn skoðanamunur sje milli mín og sjávarútvegsnefndarinnar, en jeg kom fram með breytingartill. af því, að mjer þótti orðalagið þannig skýrara. En annars vildi jeg geta þess, að ef þetta verður framkvæmt, og það tekið til greina af stjórninni, sem þingið fer fram á, þá er hjer um mikilsvert mál að ræða — stórpólitík.

Nokkur hafnastæði og lendingar hafa verið athugaðar undanfarið, en einkum þar sem kröfur og kvartanir hafa verið háværastar. Í þessu hefir ekki ráðið full fyrirhyggja, með tilliti til fiskveiða landsmanna yfir höfuð, heldur handahóf eitt og því óábyggilegt að mestu leyti. Hefir þetta líka reynst kostnaðarsamt, eins og sjest t. d. á Þorlákshöfn. Og verði svo ekkert úr öllu saman, fyrst um sinn, þá er fje þetta að vísu ekki glatað, en það er arðlaust fyrst um sinn, og hefði þá verið betra, að verja því til einhvers annars, er brýnni nauðsyn bar til. Enda hefir oft verið illa frá þessu gengið, vantað alla heildaráætlun, og ekki tekið svo tillit til þess, sem skyldi, hvað arðsamast var og þýðingarmest.

Að sjálfsögðu tel jeg nauðsynlegt, að breytt. sje samþykt, og það sem hún fer fram á.