27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

94. mál, vegalög

Sigurður Sigurðsson:

Jeg heyrði illa ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), en það sem jeg heyrði var á litlu viti bygt. Samkvæmt grundvelli kenningar hans, þá á landssjóður helst að kosta vegina þar, sem strjálbygðast er og þörfin er minst á þeim, en síst þar, sem þjettbýlast er og mest er þörfin. Jeg vil nú minna menn á það, að jafnvel þótt um þjettbýlar sveitir sje að ræða, þá er það oft tilfinnanlegt og kostnaðarsamt, að gjöra vegi um þær og halda þeim við. Kostnaðurinn fer meðal annars mjög mikið eftir því, hversu auðvelt er að ná í ofaníburð, og ef háttv. þm. veit það ekki, þá get jeg frætt hann um það, að í þjettbygðum sveitum getur það oft orðið svo örðugt og kostnaðarsamt, að afla ofaníburðar í vegi, að það nemur fullum helmingi kostnaðarins við vegalagninguna.

Háttv. þm. gat þess, að póstvegirnir væru ekki rjettur mælikvarði fyrir viðhaldi veganna, því að ekki væri sönnun fyrir því, að þeir væru fjölfarnari en aðrir vegir á landinu, en það eru þeir nú þó, yfirleitt.

Annars viðurkenni jeg það fúslega, að helsti lítill tími hefir verið til þess, að athuga málið, síðan það kom frá nefndinni, svo langt sem þó er síðan því fyrst var hreyft og síðan í það var skipuð nefnd. Og ef verulegur áhugi hefði verið fyrir því, og menn viljað einlæglega leggja gott til málanna, þá hefði átt að vera nægur tími til þess. En hitt get jeg tekið undir, að örðugt muni vera að fullnægja 2. lið, sem sje, að leita að tekjustofnun handa sýslufjelögunum, til þess að standast vegaviðhaldskostnaðinn. Það er vandamál, og jeg gjöri ekki ráð fyrir því, þótt þingið sæti lengur yfir því máli, að það myndi finna lausn á því spursmáli, svo að dygði. Og þegar svo er ástatt, þá er ekki um annað að gjöra, en að vísa málinu til stjórnarinnar, í því trausti, að hún muni með ráðunautum sínum geti fundið heppilega leið. Jeg vona því, að það verði samþykt, þótt það væri hins vegar ekki nema gott og þakklætis vert, ef einhver gæti nú þegar í stað bent á leið, sem að haldi gæti komið, en jeg býst ekki við því.