30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

121. mál, þegnskylduvinna

Sveinn Björnsson:

Jeg vil ekki fara í óþarfa kappræður út af þessu máli, sem háttv. þingm. Dal. (B. J.) taldi einberan hugarburð. En sje þetta mál ekki meiri hugarburður en það, að sami háttv. þingmaður hafi nú í fyrsta sinni talað að óþörfu á Alþingi, þá er málið ekki lítilsvert. Jeg tel þessa hugmynd vel þess verða, að með alvöru sje um hana talað og hugsað, og leitað fyrir sjer, hve mikið fylgi hún hafi í landinu.

Mjer finnst aðalatriðið vera þetta, að menn geti fengið tækifæri til þess snemma á æfi sinni, að vinna þjóðarheildinni heill og gagn, án nokkurs endurgjalds. Því það er trúa mín, að það myndi geta orðið mörgum til góðs, að vinna landi sínu í eitt skifti dálítinn tíma, án þess að peningahagnaðurinn sje í aðra hönd. Jeg tel heldur engan vafa á því, að því skipulagi mætti koma á þegnskylduvinnuna, að við Íslendingar fengjum dálítið af þeim aga, sem okkur óneitanlega vantar. Við erum aldrei samhentir, vegna þess, að við höfum aldrei lært að hlýða vilja eins stjórnandi manns.

Jeg gæti til fært þó nokkrar aðrar ástæður, en finst það nægilegt, að kjósendur fái að láta í ljós, hvort þeir geti hugsað sjer þetta fyrirkomulag. Þetta er lítt hugsað enn þá, en þarf að hugsast, og það mun verða gjört, ef því er tekið alvarlega hjer á Alþingi. Jeg skal fúslega játa það, að jeg hefi ekki gjört mjer fullkomlega grein fyrir fyrirkomulaginu, en hugmyndina vænti jeg að allir skilji, en hún er þessi: Er það gott fyrir land og þjóð, að hver einstaklingur vinni landinu einu sinni á æfinni ókeypis í stuttan tíma. Annað er frekar fyrirkomulagsatriði.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á tvö atriði. Mjer þykir fyrst og fremst leitt, að því skuli vera dróttað að mjer, að fyrirætlun mín sje, að sá löstum og uppskera dygð. Þetta er nú reyndar líklega hugsunarvilla, en annars finst mjer fyrri hl. nefndarálitsins miður góðgjarnlega og stillilega orðaður. (Bjarni Jónsson: Jeg skal skýra þetta síðar). Jæja, háttv. þm. Dal. (B. J.) ætlar þá enn þá einu sinni að tala að óþörfu. Það er nú ekki í fyrsta sinn. Mig furðar enn fremur á því, að háttv. þm. Dal. (B. J.) skuli af tómri ákefð gjöra sig sekan um svo hroðalega reikningsvillu, sem háttv. þingmaður komst út í áðan, er hann fann það út, að þegnskylduvinnan myndi kosta landið 1–l½ miljón króna á ári. (Bjarni Jónsson: Jeg talaði að eins um 1. árið). Já, það rann víst upp einhver glæta fyrir háttv. þingmanni um það, að þetta væri ekki alls kostar rjett, og þá reyndi hann að klóra yfir það aftur og rjettlæta það, er hann sagði, með þessu náðarári sínu. En jeg efast mikillega um, að svo alvarlega verði tekið á þessu í byrjun, að allir menn á aldrinum frá 17–25 ára sjeu teknir þegar í stað fyrsta árið. Það mun tæplega reynast framkvæmanlegt. Enn fremur myndi aldrei fult 1000 manns komast undir þessi lög á ári. Eftir síðustu skýrslum, þá yrðu þeir aldrei nema 700–800. Og þegar svo þar frá dragast þeir, sem ekki mættu vinna sökum vanheilsu, þá hygg jeg að miljónin fari að rýrna ískyggilega, svo að jafnvel 10 sinnum lægri tala væri sanngjarnari. Og það er því meira en helmingur, sem sagt er þó, að margir haldi sjer við, þegar um ýkjur er að ræða.

Jeg vil þess vegna vekja athygli manna á því, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir í þessari djúpu fyrirlitningu fyrir þessu máli, sem þó að flestra mætra manna dómi er hið mesta alvörumál, komist út í meiri öfgar en nokkru sinni áður, er hann hefir talað að óþörfu hjer í þingdeildinni.