16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

99. mál, kornvöruforði

Flutningsm. (Sig. Eggerz):

Jeg vil að eins segja það, að ef háttv. l. þm. Húnv. (G. H.) hefði talað af hálfu stjórnarflokksins, sem hann mjer vitanlega stendur næst, þá færi jeg að skilja það, hvers vegna háttv. stjórn er mótfallin tillögu minni. Því að ef það er skoðunin, að hjer sje ekkert að óttast, þá er auðvitað afleiðingin sú, að ekkert þarf að gjöra. Ef þetta væri skoðun fleiri háttv. andstæðinga minna í þessu máli, þá væri gott að það kæmi beint fram. En mjer hafði nú reyndar heyrst á háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), að hann áliti hættuna töluverða, og þegar dýrtíðarmálið var hjer á ferðinni, þá sagði hann, að það gleddi sig, að jeg teldi ástæðu til að vera vel vakandi.

En hvað sem er nú um þetta, þá er jeg ekki sammála háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) um þetta mál. Jeg vildi óska, að ekkert væri að óttast, en mjer sýnist, eins og jeg sagði í gær, reynslan vera búin að benda á það, að margt verður það í þessu stríði, sem kemur öllum öldungis óvænt. Og án þess að jeg ætli að fara að ræða það, hvernig stríðið kunni að snúast og hver kjör þessu landi muni verða búin í hverju tilfelli, þá sýnist mjer ýmislegt það koma fyrir nú á dögum, að fátt sje ugglaust. Skip okkar geta orðið skotin í kaf, eins og skip annara þjóða, og eins og ófriðarþjóðirnar eyða nú miklu af kaupförum með sínum ógnarlegu morðtólum, og munu sjálfsagt eyða framvegis, þá er ekki annað sýnna en að skortur kunni að verða á þeim til nauðsynlegra samgangna. Einnig getur það vel komið fyrir, að síminn okkar bilaði eða honum yrði lokað, og ef svona færi, þá get jeg ekki betur sjeð, en að við. gætum staðið uppi alt í einu bæði símalausir og skipalausir, og það gæti orðið erfitt, ef það bæri nú að höndum um miðjan vetur t. d.

Þegar jeg hugsa út í þetta, þá verð jeg að telja það með öllu óverjandi, að við reynum ekki að tryggja okkur gegn slíku, og mjer er hrein ráðgáta, hvernig á slíku getur staðið. Danir og aðrar hlutlausar þjóðir hafa nú afarmikinn áhuga á því, að útvega sjer korn. Jeg hefi talað við einn mann úr þeirra »Velferðarnefnd«, eða matarnefnd mundi vera rjettast að kalla hana, og sagði hann, að það væri sitt stærsta áhugamál, að útvegað væri nóg af kornvörubirgðum. Þetta er áreiðanlega skoðað aðalatriðið hjá hlutlausu þjóðunum. Þetta ætti einnig að vera aðalatriðið hjá oss. En þegar þessu sjálfsagða máli er hreyft hjer, þá þarf að rannsaka alt í milli himins og jarðar, og svo lendir ef til vill við það, að alt af er verið að rannsaka, en ekkert annað gjört. En þetta er stundum venjan, þegar menn vilja skjóta sjer undan einhverjum framkvæmdum, að láta þær kafna í málamyndarannsókn.

Jeg á ákaflega erfitt með að skilja þann geig, sem virðist vera í háttv. deild við framkvæmdir í þessu máli. Margir eru þó sammála um það, að hjer geti verið hætta á ferð, ef ekkert er að gjört. En hver er nú hættan, þótt vjer keyptum oss kornvöru fyrir ½ miljón kr.? Er það fjárhagsleg áhætta? Það þarf mjög snögga breytingu til þess, að vöruverð falli svo, að til þess geti komið til nokkurra muna. Jeg gæti jafnvel ímyndað mjer, að matvara stigi enn um sinn, svo að það yrði beinlínis hagur. Nei, það er engin ástæða til að óttast það, að vjer biðum tjón af því fjárhagslega, og reynslan er sú frá því, er í fyrra var keypt frá Ameríku, að landsmönnum líkaði það ákaflega vel. Þeir töldu það happaráð, sem þá var tekið, og allar líkur eru til, að eins færi nú. Að vísu hafa heyrst raddir um það utan þings, sem ekki hafa við neitt að styðjast, að stjórnin hafi átt að ganga á kaupmenn með þeirri ráðstöfun. Jeg vil ekki amast við kaupmannastjett landsins, en hins vegar verð jeg að játa það, að jeg vil láta velferð landsins sitja í fyrirrúmi fyrir því, að þeir fái að græða nokkur % af þessari vöru. Auk þess er á það að líta, að sú stjett hefir yfir leitt stórgrætt á ófriðinum, hjer eins og annarstaðar. Innlenda varan hefir stigið svo í verði, að kaupmenn hljóta nú að fá skuldir sínar borgaðar betur en nokkurn tíma áður.

Jeg vil árjetta það enn og aftur, að hættan er alt af til, sú, að siglingar teppist, eða verði svo erfiðar og alt svo dýrt, að fullkomin vandræði hljótist af, en hinum megin er engin hætta til við vörukaupin. Þetta er því ekki nema sjálfsögð varúð, og mig furðar á að heyra raddir á móti því, svona rjett undir veturinn.