16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

99. mál, kornvöruforði

Sveinn Björnsson:

Jeg hefi aldrei verið þess letjandi, að ráðstafanir yrðu gjörðar til þess, að afstýra þeim voða er leitt gæti af Norðurálfuófriðnum, og þess vegna vil jeg ekki taka á móti þeirri ásökun þegjandi, að jeg »fljóti sofandi að feigðarósi«, eins og meiningin var hjá háttv. flutnm. (S. E.). Háttv. flutnm. (S. E.) má vita það, ef hann á annað borð hefir verið sjer þess fyllilega meðvitandi, hvað hann sagði í þessari tölu, er hann flutti nú síðast af þessum mikla móði, að þessi ásökun er algjörlega ástæðulaus, eins og líka er algjörlega ástæðulaust, að bera þeim mönnum hjer í háttv. deild, sem ekki greiða þingsályktunartillögunni atkvæði, það á brýn, að það sje sökum þess að þeir vilji ekki gjöra, eða láta gjöra, neinar fulltryggilegar ráðstafanir. Það má lofa svo einn að lasta ekki annan, og þegar háttv. flutnm. (S. E.) tildrar sjálfum sjer upp sem landsbjörg og landsins höfuðstoð og styttu, þá væri það lafhægt fyrir hann, án þess að lasta aðra, sem ekki eru á sömu skoðun um eitthvert atriði sem hann. Og þegar hann reynir að skifta mönnum í tvent, öðrum sem alt vilja gjöra, en hinum, sem ekkert vilji gjöra, þá liggur ekkert það fyrir í umræðum þeim, er fram hafa farið um þetta efni hjer í sumar, er gefi tilefni til slíkra aðdróttana.

Það er ekki af því, að jeg áliti ekki brýna nauðsyn, að hafa sem best vakandi auga á öllu nú, að jeg er ekki fylgjandi þessari tillögu. Það er af því, að jeg álít, að hún sje óskýr, óljós, vanhugsuð og yfir höfuð eitthvað það í kring um hana, sem jeg álít rjettast að kalla »humbug«. Það er »humbug« að vaða fram í jötunmóði með þessa tillögu, einmitt þegar verið er að gefa stjórninni heimild til þess, að kaupa allskonar nauðsynjavörur, korn, kol, steinolíu o. m. fl. Það ríður t. d. ekki síður á, að landið sje vel birgt af kolum og ýmsum fleiri nauðsynjavörum en korni. Og ef hugur fylgdi svo máli, sem hv. flutnm. (S. E.) lætur, þá hefði hann með þessari tillögu sinni átt að skora á stjórnina, að birgja landið að fleira en kornvöru. (Sigurður Eggerz: Það hefi jeg og gjört). Jú, en fyrst eftir að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) var búinn að benta á, að það væri nauðsynlegt. (Sigurður Eggerz: Nei, jeg gjörði það strax í framsöguræðunni). Jafnskjótt sem dýrtíðarlögin verða samþykt, þá verður kosin Velferðarnefnd, sem í samráði við stjórnina á að gjöra áætlun um, hvað eigi að kaupa af vörum, hvar eigi að úthluta þeim og hvar sje nauðsynlegt að liggja með birgðir. Þetta alt er nauðsynlegt að athuga, en það verður aldrei hægt með einni þingsályktunartillögu, að ákveða hve mikið þurfi af kolum, hve mikið af steinolíu o. s. frv. í hverjum stað. Mergur málsins er, að vakandi auga þarf að hafa á því, að tryggja landið sem best að öllu leyti. En að bera fram af slíkum móði og háttv. flutnm. (S. E.) hefir gjört áskorun þessa efnis, er að eins snertir eitt einstakt atriði, er humbug, og það því meira, sem umr. lengjast um þetta. Háttv. flutnm. (S. E.) kvað sig og tillögu sína hafa gjört það að verkum, að flýtt hefir verið fyrir dýrtíðarmálinu. Sjálfsánægjan var bersýnileg, og ekki vil jeg verða til þess, að svifta hann henni. En jeg vil að eins leyfa mjer að benda á, að dýrtíðarnefndin lagði áherslu á, að þessu yrði flýtt sem mest gegnum þingið. Vilji hv. flutnm. (S. E.) vjefengja þetta, þá getur hann flett upp í þingskjölunum, það stendur þar með ljósu letri. Sama hafði nefnd sú, er sett var í málið í Ed., ákveðið, og það áður en hún sá þessa merkilegu tillögu háttv. flutnm. (S. E.).

Og ástæðan til alls þessa er sú, að hann vill geta sagt við kjósendur: Það var jeg, sem sá um, að þessar ráðstafanir væru gjörðar, svo að landinu væri engin hætta búin. (Sigurður Eggerz: Þetta er ósatt). Jeg skrifaði upp hjá mjer ummæli háttv. flutnm. (S. E.), svo að jeg veit að þetta er rjett.

Jeg get endurtekið það, er jeg sagði í fyrri ræðu minni, að hyggilegra hefði verið að kjósa þessa nefnd, þegar lögin voru samþykt, og láta hana annast um öll kaup. Ef menn hefðu svo orðið óánægðir með ráðstafanir hennar, þá var alt af nægur tími til þess, að koma með slíka þingsályktunartillögu, svo að háttv. flutnm. (S. E.) þyrfti ekki að standa orðalaus fyrir kjósendum sínum, þegar þar að kemur. Nei, rjetta leiðin var að samþykkja þessa heimild til stjórnarinnar og veita til þess ca. 1 miljón króna. Í því fólust öll þau ákvæði, er nauðsynleg voru. Hitt, hve marga sekki eða tunnur skuli kaupa af hverri tegund fyrir sig, er áreiðanlega betur komið í höndum stjórnarinnar og Velferðarnefndarinnar en að flækjast fyrir þinginu marga daga í röð. Og þegar svo langt er komið, að háttv. flutnm. (S. E.) leyfir sjer að láta sjer þau orð um munn fara, að þeir sjeu unnandi sjálfstæði landsins, er sjeu fylgjandi þingsályktunartillögu hans, en við hinir ekki, þá er skörin farin að færast svo upp í bekkinn, að segja má um þá: »Fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra«. Jeg fullyrði að minsta kosti fyrir sjálfan mig, að jeg er fullkomlega eins unnandi sjálfstæði þessa lands, og háttv. flutnm. (S. E.) og hans fylgifiskar. Aðrir svara fyrir sig. Jeg heimta, að vera laus við slíkar aðdróttanir, sem háttv. flutnm. (S. E.) hefir komið hjer fram með, algjörlega að ástæðulausu.

Hið eina rjetta er það, að gjöra ráðstafanir til þess, að keypt verði, ekki að eins korn, heldur einnig kol, olía, salt og aðrar nauðsynjar, sem þarf til þess, að tryggja landið gegn þeirri hættu, sem af ófriðnum kann að leiða. Og þegar dýrtíðarfrumv. hefir verið afgreitt, hefir þingið gjört sitt til að koma þessu í framkvæmd.

Hitt getur vel verið, að einhverjum þeirra manna, sem ekki vildu tryggja landið gegn voða, með því að heimila landsstjórninni, að leggja útflutningsbann á íslenskar afurðir, finnist þessi tillaga einhverskonar plástur á samviskur sínar. Um það skal jeg ekki ræða. — Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að ef till. yrði ekki samþykt, en korn samt sem áður keypt, þá væri það fyrir áhrif þessarar tillögu. Jeg ann háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og háttv. flutningsm. (S. E.) þess fullkomlega, að bera þá hugmynd í brjósti, að þeir hafi gjörst bjargvættir landsins, með því að bera þessa tillögu fram. En það hygg jeg, að geti orðið álitamál, hvort sú hugmynd hafi við rök að styðjast. Í þessu máli er það ekki höfuðatriðið, með hve miklum móði talað er, eða hve miklir leikarataktar eru viðhafðir hjer í deildinni, heldur það hvað gjört er.