30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Frsm. (Guðm. Björnson):

Jeg hafði ekki tekið eftir breytingartill. hv. 2. þm. K.-G. (K. D.), en jeg get, sagt það, eftir að jeg hefi litið á hana, að meiri hluti nefndarinnar getur ekki fallist á hana, eins og nefndarálitið ber með sjer.

Það var annars fróðleg upplýsing, er — háttv. 2. þm. G. K. (K. D.) gaf, um að þetta hálfa legkaup fyrir börn innan tveggja ára aldurs kæmi af því, að þau væru svo oft látin í gröf hjá fullorðnum, svo þau þyrftu ekki neitt sjerstakt pláss. En mjer sýnist að eina rökrjetta ályktunin af þessu sje sú, að það setti ekkert legkaup að greiða fyrir börn innan tveggja ára aldur.

En jeg býst nú við því, að það komi ekki svo sjaldan fyrir, að börn á þessum aldri sjeu grafin sjer, án þess að vera látin í gröf með fullorðnum, og þá er rjett að legkaup sje greitt, ef legkaup eiga sjer stað.

Nú er það sýnt, að tvö börn taka jafnmikið rúm í kirkjugarðinum og fullorðin manneskja; þetta hefir reynst svo ytra, og er skýrt frá því í nefndarálitinu.

Það virðist því öll sanngirni mæla með því, að aldurstakmarkið sje að minsta kosti fimm ár, enda fanst mjer hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) ekki vera kappsmál um tillögu sína. Það mætti heldur álasa nefndinni fyrir að hún hefði ekki aldurstakmarkið nógu hátt.