09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Kristinn Daníelsson:

Aðeins örstutt athugasemd: Í sjálfu sjer er það ekki hættulaust fyrir málið, að því sje frestað. Að því leyti hefir hv. 5. kgk. (G. B.), höfundur dagskrárinnar, ekki rjett fyrir sjer, þar sem hann þó segist vera málinu hlyntur. Jeg lít svo á, að málið eigi að ganga fram með engu minna fjárframlagi en gjört er ráð fyrir í frumvarpinu. Þess vegna er ekki hættulaust, að því sje frestað.

Ef málið er saltað, geta önnur mál og aðrar kröfur rutt sjer til rúms, en það orðið á hakanum. Þetta mál er svo þýðingarmikið, að það verður að þoka öðrum málum, en ekki víkja sjálft.

Jeg vil ekki orðlengja þetta meira, en vil lýsa því yfir, að jeg er á móti dag. skránni. Þótt ekki sje víst, að málið sje dautt með því móti, þá þori jeg ekki að treysta því, að svo fari ekki. Jeg skal fúslega taka frumvarpið til nánari athugunar með meðnefndarmönnum mínum.