07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Björnson :

Jeg vildi leyfa mjer að minnast á örfáar af brtt. þeim, sem hjer eru komnar fram. Fyrst er þá að nefna brtt. á þgskj. 778, um að hækkaður sje styrkurinn til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins, um 200 kr. á ári, og að stúdentafjelaginu á Akureyri sjeu greiddar af styrk þessum 200 kr. hvort árið, eða því sem hækkuninni nemur. Jeg verð að vera samdóma hv. flm. brtt., hv. 6. kgk. (J. Þ.) um það, að sú alþýðufræðsla. sem Stúdentafjelagið heldur uppi, sje gagnleg, og að hún hafi þegar orðið alþýðu í Reykjavík allmikil menningarbót. Því mun jeg greiða atkvæði með tillögunni. En jafnframt vil jeg vekja athygli á því, að þegar alþýðufræðslan var sett á stofn, þá vakti það fyrir okkur, — jeg var nfl. einn af forgöngumönnunum —, að koma hjer upp sem líkastri fræðslu þeirri, er háskólar í Englandi og víðar, þar á meðal í Danmörku, hafa haft með höndum, og á útlendu máli er nefnd University Extention. Hjer var þá enginn háskóli, og tókum við því það ráð, að fela Stúdentafjelaginu fræðsluna á hendur, og hefir sú tilhögun haldist síðan, eins eftir að Háskóli var stofnaður hjer. Eins og nú er komið, tel jeg rjettast að Háskólanum sje fengin umsjón starfs þessa. Efast jeg ekki um, að hv. 6. kgk., sem ann Háskóla vorum svo mjög, og vill í öllu efla veg hans, sje mjer samdóma í þessu. Það kann að þykja of seint, að koma með brtt. í þessa átt nú, en jeg óska, að þetta sje tekið til athugunar síðar, því að jeg er fyllilega samdóma hv. 6 kgk. (J. Þ.) um, að gagnlegt sje að halda áfram alþýðufræðslunni, og nauðsyn að hún sje styrkt með rífari fjárframlögum en hingað til.

Aðra brtt, á hv. 6. kgk. hjer, um að veitt sje fje til kenslu í líffærameinfræði, og sóttkveikjufræði. Jeg er samdóma hv. þm. (J. Þ:) um að það var illa farið, að felt var í hv. Nd. frv. um að stofna docentsembætti við Háskólann í þessum fræðum, því jeg tel mikla nauðsyn fyrir Háskólann, að kensla í þeim komist á.

Í sambandi við tilögu þessa mintist hv. þm. (J. Þ.) á fjárveitinguna til gerlsrannsóknanna. Það er allsendis óskylt mál, og má eigi blanda því tvennu saman. (Jón Þorkelsson: Jeg gat þess líka). Jeg er mjög þakklátur hv. fjárlaganefnd, að hún hvarf frá því, að fella niður fjárveiting þessa. Nú sje jeg að vísu, að, fram er komin tillaga um, að lækka kaup manns þess, sem fyrir rannsókninni á að standa.

Mjer þykir það að vísu sárt, en gleðst þó yfir að rannsókninni á að koma á stofn. Þeir, sem hafa kynt sjer meðmæli Gísla Guðmundssonar, munu og hafa sannfærst um, hve góðrar mentunar hann hefir aflað sjer í sinni grein. Hann er svo óvenjulega vel mentaður, að vandfundnir munu aðrir honum jafnsnjallir í sínum greinum; enda hefir hann notið kenslu hjá heimsfrægum sjerfræðingum, bæði í Berlín og París. Jeg efast um, þótt vjer fengjum ungan lækni til að búa sig undir að gefa sig við gerla rannsóknum, að hann mundi reynast jafngóður Gísla, hvað þá betri. Gerlafræðin grípur svo víða inn í iðnað og atvinnu og er svo þýðingarmikil á marga lund, að mjer er það ljóst, að stór hagur muni verða af því, að koma upp rannsóknarstofnun hjer í landi undir umsjón jafngóðs manns og vjer nú eigum kost á. Þetta hefir hv. fjárlaganefnd líka sjeð og. því eigi viljað fella fjárveitinguna niður, þótt hún því miður fari fram á, að hún sje nokkuð lækkuð.

Vjer höfum samþykt að veita 3000 kr. á ári til sálfræðisrannsókna, og vonum að þær geti bætt vinnubrögð í landinu. Fyrir þetta höfum vjer fengið margar ákúrur. Jeg fyrir mitt leyti tek þeim með mestu rósemd, því jeg hefi besta traust á manninum, sem rannsóknirnar á að gjöra, og trú á því, að hann muni leysa af hendi þjóðnytjastarf. En ef rjett er að veita 3000 kr. til þessa — og það segi jeg vera — , þá er eigi síður rjett að veita 1500 kr. á ári til gerlarannsóknanna, því að enginn vafi er á því, að af henni munu leiða margvíslegar verklegar framfarir hjer í landi, ef hún verður ekki kæfð í fæðingunni eða svelt úr henni lífið. Loks skal jeg minnast á nýja brtt. á þingskj. 811, um að veita Ragnari Lundborg 5000 kr. hvort árið, til að gjöra Ísland kunnugt erlendis.

Mjer finst það dálítið undarlegt að slík tillaga, sem þessi, skuli koma frá formanni fjárlaganefndar fyrst við 3, umr., öllum á óvart.

Jeg hefi tvent um tillögu þessa að segja. Það er full ástæða fyrir oss, eins og nú stendur á, að gjöra málsstað vorn kunnan erlendis. Jeg mintist á það í fyrra, en fjekk enga áheyrn. Viljum vjer nú ganga inn á að gera það, sem þingið vildi eigi gjöra í fyrra, þá verðum vjer ótvírætt að velja Íslending til starfsins. Það má ekki spyrjast, að vjer þykjumst engum Íslendingi hafa á að skipa til þess. Slíkt væri þjóðarminkun. Hins vegar gæti það verið hættulegt, að velja á þessum ófriðartímum ríkisborgara úr öðru ríki, til að vera málsvara vorn erlendis. Svíþjóð getur fyr en varir, lent inn í ófriðinum. Sjálfur konungur Svíanna hefir lýst því opinberlega yfir, að enn vofi styrjaldarhætta yfir ríkinu.

Jeg vona það, að hv. deild sjái sjer ekki fært að samþykkja tillögu þessa, eins og hún er fram borin.