07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magn. Pjetursson) :

Fyrst vil jeg minnast á brtt. hv. 1. kgk. (E. B.) á þgskj. 802 um skrifstofukostnað póstmeistara. Meiri hluti nefndarinnar vill halda sjer við það, sem stjórnin hefir gjört í þessu efni. Að vísu hefir hún ekki, önnur rök við að styðjast en þau, að hún telur sjálfsagt, að stjórnin muni hafa athugað málið vandlega, áður en hún bar fram tillögur sínar.

Jeg skal leyfa mjer að benda hv.1. kgk. (E. B.) á, að svo lítur út, sem stjórnin hafi tekið til greina 2500 kr., af þeirri 4800 kr. hækkun, sem póstmeistari fór fram á. Eftir þessu vantar þá eigi nema 2300 kr., upp á að póstmeistari fái það, sem hann fer fram á. Stjórnin hefir nfl. í frv. sínu hækkað skrifstofukostnað póstmeistara um 1000 kr., frá því sem var í síðustu fjárlögum, og önnur gjöld undir staflið d um 1500 kr. eða samtals um 2500 kr.

Það er rjett sem hv. 1. kgk. (E. B.) sagði, að ekki er hægt að komast hjá að greiða fjeð, ef á þarf að halda. Þó hefir nefndin eigi viljað ganga lengra en stjórnin, því hún bjóst við, að stjórnin hefði haft betri föng á að rannsaka málið en nefndin hefir haft. Þá er brtt. við 13. gr. B. VIII. frá hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.). Jeg hefi lítið annað um hana að segja en að meiri hluti nefndarinnar mun ekki leggja móti henni, sjerstaklega af því, að hjer er um nauðsyn að ræða og fyrir liggur glögg áætlun um verkið frá verkfræðingi. Þá er hjer brtt. á þgskj. 786, frá hv. 6. kgk. (J. Þ.), nm 2800 kr. fjárveiting til kenslu í líffærameinfræði og sóttkveikjufræði. Meiri hluti nefndarinnar getur ekki aðhylst þessa tillögu; er mjer óhætt að segja, að það er af sparnaðar ástæðum en öðru ekki, og því get jeg bætt við, að atkvæði einstakra nefndarmanna um þennan lið eru óbundin. Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 778, frá sama hv. þm. (J. Þ.), um aukinn styrk til alþýðufræðslu. Nefndin viðurkennir, að hjer sje um þarft verk að ræða, og æskilegt sje, að fræðslan geti náð yfir stærra svæði en nú, og mælir því með, að tillagan sje samþykt. Um brtt. á þgskj. 784 þarf jeg ekki að fjölyrða; það hefir svo mikið og margt verið um hana talað nú í dag. Að eins skal jeg geta þess, að nefndin vill ekki taka hana að sjer.

Um brtt. á þgskj. 801 er það að segja, að nefndin vill ekki fara hærra í styrkveitingu til heimilisiðnaðar en hv. Nd., og er það, eins og fleira, sprottið af sparnaðarástæðum fyrir henni. Hún býst við, að það muni ekki hnekkja mjög starfi heimilisiðnaðarfjelagsins, þótt styrkurinn geti ekki orðið hærri í þetta sinn. Um lánsheimildirnar er það að segja, að eins og nefndin var á móti lánveitingu til raflýsingar í Húsavík, þótt hún gengi í gegn í deildinni, eins er hún á móti því, að samþyktar sjeu lánveitinga heimildir þær, sem farið er fram á í þgskj. 785 og þgskj. 806. Auðvitað ræður hv. deild, hvað hún gjörir við þær.

Mjer þótti óneitanlega, nokkuð kynleg ummæli hv. þm. Barðstr. (H. K.) um þetta. Hann sagði, að úr því að lánsheimildin til Húsavíkur hefði hafst fram, þá vildi hann líka fá sína fram; veit jeg þó ekki betur en hv. þm. (H. K.) greiddi atkvæði með Húsvíkingunum. En í þessu fannst mjer liggja það, að hann teldi ver farið, að Húsavíkurlánið var samþykt. Af þessum ástæðum vildi jeg taka fram og benda á, að honum er þetta sjálfum að kenna, og undan því getur hann ekki skotist. Það hefir lítið verið farið út í að andmæla brtt. nefndarinnar, nema lítillega um gerlafræðinginn. Hv. 5. kgk. (G. B.), finst það ver farið, að nefndin hefir viljað færa laun hans úr 1500 kr. niður í 1200 kr. Nefndinni finst, eftir því sem hún hefir getað kynt sjer málið, að starf hans nú í byrjun, muni ekki verða meira en svo, að hann muni fullsæmdur af 1200 kr. launum. Þegar fram í sækir, má búast við, að starf hans í landsins þarfir muni vaxa, og þá munu laun hans og verða hækkuð. Nú sem stendur hefir hann svo mikið starf við verksmiðju fyrir sjálfan sig, að ekki er líklegt, að hann geti varið nándar nærri öllum starfstíma sínum til gerlarannsóknanna. Það, sem jeg hefi hingað til talað, hefi jeg mælt fyrir hönd nefndarinnar. En fyrir mína hönd, lýsi jeg því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með brtt. hv. 6. kgk. (J. Þ.) á þgskj. 786, því jeg tel það ekki vansalaust fyrir þingið, að vilja ekki styðja þá kenslu við háskólann, sem hún fer fram á.