12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson :

Jeg hefi ekki getað orðið sammála hv. meðnefndarmönnum mínum um ýms atriði í þessu frv., og mun jeg því leyfa mjer að færa rök að því.

Jeg get strax tekið það fram, að frá upphafi hefi jeg verið andvígur bannmálinu. Þó hefir þessi óvilji gegn bannlögunum sjerstaklega magnast hjá mjer, síðan bannlögin gengu í gildi og fóru að starfa að fullu, og reynslan fór að sýna, að sárfáar af vilspám bannvina rættust, en því fleiri af hrakspám andbanninga.

Þrátt fyrir þetta, er jeg ekki á máli þeirra manna, sem þegar vilja láta af nema bannlögin. Veldur það, að því var teflt í þá miklu tvísýnu, að banna aðflutning á áfengi, þá álít jeg að lögin eigi að fá að reyna sig til hlítar, og býst jeg við að skýlan falli þá af augum margra bannvina.

En til þess að bannmennirnir komi ekki síðar og segi, að lögin hafi reynst illa af því einu, að þeir fengu ekki að laga á þeim agnúana, þá get jeg gengið inn á að rjetta þeim höndina, til þess að breyta lögunum til hins betra. Jeg get virt svo mikils þeirra sannfæringu, þó hún sje ekki mín, og þó jeg búist við alt öðru í framtíðinni í þessu efni en þeir. Enda þykir mjer alla ekki ósennilegt að sumir af þeim, sem gjörðu sjer glæsivonir um afleiðingar vínbannsins, sjeu nú þegar farnir að sjá dökkna fyrir eli því, sem fyrr eða síðar sópar þessu banni úr landinu.

Það sem mest virðist vaka fyrir meðnefndarmönnum mínum, eins og líka er tekið fram í nefndarálitinu, er, að gjöra lögin framkvæmanleg, og þetta er einmitt það, sem jeg undir vissum skilyrðum vil hjálpa þeim til.

Þetta, að gjöra lögin framkvæmanleg, má þó ekki lenda í öfgum. En það fer út í öfgar, ef beita á ofmikilli hörku og mannúðarleysi. Fjesektir og fangelsi, rjettarhöld og rekistefnur geta aldrei orðið til að afla slíkum lögum vinsælda, en vinsældir eru einmitt fyrstu skilyrði til þess, að ljettara verði að framkvæma lögin. Og allar mínar brtt., bæði þær, sem jeg er einn um, og engu síður þær, sem hv. þm. Vestm. (K. E.) er meðflutningsmaður að, miða einmitt að því, að minka vankanta þá hina mörgu, sem enn eru á bannlögunum og þessu frv., og þó tekur frv., stórum bótum frá því, sem var, með sumum breytingum nefndarinnar, enda veitti ekki af Og síður en svo að þessar brtt. mínar varni því að tilgangur hv. meðnefndarmanna minna náist. Þær miða allar að því, að gjöra lögin vinsælli, rjettlátari og framkvæmanlegri.

Þá kem jeg að hinum einstöku brtt., og þá fyrst að brtt. við 1. gr. frv. á þgskj.. 264. Þessi brtt. er til orðin vegna þess, að mjer finst ósanngjarnt, ilt til orðs og líklega óframkvæmanlegt, að skipa fyrir með lögum, að skipverjar á útlendum skipum megi ekki neyta áfengis meðan þeir eru hjer við land. Og þó jeg sje ekki. lögfræðingur, og kann ske líka af því að jeg ekki er löfræðingur, þá finst mjer það mjög vafasamt, hvort við hefðum nokkurn rjett eða getu til þess að banna útlendum útgerðarmönnum að veita skipverjum hvað sem þeim sýnist, að minsta kosti ekki utan landhelgi. Í nefndinni var því haldið fram, sem sjálfsagt má til sanns vegar færa, að íslensk skip sjeu partur af Íslandi. Ef svo er, þá gildir hið sama um útlendu skipin, að þau eru hvert partur af sínu föðurlandi. Og ef við getum sett. lög, sem gilda á dönsku, norsku eða sænsku skipi utan Íslands, utan landhelginnar, ja, þá getum við, að mjer finst einnig sett lög úti í þeim sömu löndum. Gjörum nú ráð fyrir, að brotið sje, utan landhelgi á útlendu skipi, innsigli fyrir vínforða. Hvað er þá hægt að gjöra? Er hægt að sekta fyrir það? Jeg skil ekki í því. Að eins hægt að innsigla aftur. Vel getur verið, að lögfræðingarnir reki alt þetta ofan í mig, en þá er að taka því, og beygja sig fyrir vísdóminum, en enn. sem komið er fæst þetta ekki inn í mig. Brtt. mín við brtt. er gjörð eftir tillögum lögfræðings, til þess að gjöra hana aðgengilegri. Skeð getur, að haga mætti þessu öðru vísi betur, en þó held jeg að brtt. mín sje talsvert til bóta, og gjöri frv. ofurlítið vitmeira og framkvæmanlegra.

Þá er næsta brtt. mín á sama þgskj. Hún miðar til þess sjerstaklega, að gjöra frv. ofurlítið mannúðlegra og líkara til vinsælda. Hún fer fram á að sleppa fjesektum þeim, er leggja á við, ef menn sjást ölvaðir á almanna færi, 10–100 kr. Mjer finst, satt að segja, bannofstækin teygja sig nokkuð út í gönur, þegar á að fara að beita fjesektum fyrir það, þó að menn sjeu við öl á alfara vegi. Halda nú hinir hv. bannfrömuðir, að slík ákvæði lengi mjög lífdaga bannlaganna, eða afli þeim enn meiri vinsælda. Ja, ef þeir halda slíkt, þá er jeg sannfærður um; að þeim skjátlist hrapallega. Til þess að varna bannlagabrotum, er það sannarlega nóg, að leyft sje að leiða hvern góðglaðan náunga fyrir, dómara og láta hann þar gjöra grein fyrir, hver á hann hafi dreypt. Og ef hann vill ekki um það segja, þá sje hann sekur um vínaðflutning. Hvað viljið þið hafa það meira? Nei, þessar fjesektir eru alls ekkert viðkomandi aðflutningsbanni; þær eru einungis spark bindindismanna í þá menn, sem eiga löglega fengnar birgðir og einhvern tíma kynnu að sjást ölvaðir sjálfir, eða gesti þeirra. Sama er að segja um síðustu málsgrein þessarar gr. frv.

Þá kem jeg að 2. brtt. á sama þgskj., og skal jeg straks taka fram, að það er sú brtt., sem jeg legg mesta áherzlu á. Jeg veit að nú, eftir ræðu hv. framsm., er öllum hv. deildarmönnum kunnugt um þenna stjórnarráðsúrskurð frá 8. apríl 1914, sem sker úr því, að ekki megi flytja inn til lækninga önnur áfeng lyf en þau, sem í lyfjaskránni standa.

Þessi úrskurður stjórnarráðsins er feldur samkv. tillögum landlæknis, og verð jeg að segja það, að hann kom mjer mjög á óvart og sjálfsagt mörgum öðrum læknum og landsmönnum. Því jeg hafði aldrei búist við því, að bannlögin yrði skilin svo, eða notuð til þess, að sparka í íslensku læknastjettina og brjóta á henni eðlilegan og sjálfsagðan rjett, þann rjett, að geta fyrirskipað í hverjum einstökum sjúkdómi þau lyf eða efni; sem hver um sig álítur bezt henta eftir sinni eigin reynslu og sannfæringu.

Mjer finst það liggja í hlutarins eðli, að löggjafarvaldið geti ómögulega með nokkru viti, rjetti eða sanngirni sett læknum stólinn fyrir dyrnar og sagt við þá: Þessi efni, þessar blöndur bönnum við ykkur að nota til lækninga, því við álítum að þið getið gjört ilt með því og misbrúkað þær. Hafa nú hv. alþingismenn gert sjer ljóst, hversu hjákátlegt og fáránlegt þetta er og hvers konar braut þingið er komið inn á með þessu? Ætli það gætu ekki orðið nokkuð mörg lyf, er banna þyrfti innflutning á, ef taka ætti öll þau efni, sem hægt væri að gjöra skaða með og sem einhver læknir kynni að álita að ekki væru bráðnauðsynleg? Talsvert skarð gæti orðið í lyfjaforðann, ef sú braut yrði troðin.

Það er þá gaman að íhuga ofurlítið lítið ástæður þær, sem færðar eru fyrir þessari nú gildandi rjettarskerðingu læknanna. Jeg held, að ástæðurnar komi hvergi fram, nema í tillöguskjali landlæknis, og að þar sje tjaldað því, sem til er. Þetta skjal er að vísu ekki eins skýrt og ljóst eins og búast hefði mátt við úr þeirri átt, eða svo, að hægt sje að taka það lið fyrir lið, og síst svo, að ólæknisfróðir menn geti fylgst með. Ætla jeg því að eins að taka helstu máttarstoðirnar undan þeirri byggingu.

Fyrsta ástæðan er sú, að vinin standa ekki á lyfjaskránni. Auðvitað; því ef þau stæðu á lyfjaskránni, þá þyrfti ekki framar vitnanna við. — Ólærðir menn gætu nú ef til vill ímyndað sjer, að á þessari lyfjaskrá standi öll lyf, sem læknar nota. Nei, því fer svo fjarri. Það er fjöldi af lyfjum, sem ekki standa á skránni, sem notuð eru afarmikið og mörg bráðnauðsynleg. Það, að vínin standa ekki á lyfjaskránni, er því síður en svo að sje nokkur sönnun þess, að þau sjeu ekki nauðsynleg til lækninga. Og svo er annað. Okkar lyfjaskrá er danska lyfjaskráin, löggilt með auglýsingu 21. sept. 1908. Framan við sjálfa lyfjaskrána er þess getið, að vínum og öðrum auðfegnum efnum sje ekki lýst í skránni (Vine — — — og andre lettilgængelige Stoffer). Nú eru vín auðfengin utan lyfjabúða í Danmörku og voru það hjer á landi, þegar lyfjaskráin gekk í gildi, og því engin þörf að hafa þau á lyfjaskrúnni, en nú geta þau varla talist hjer auðfengin. Mjer datt því ekki annað í hug en að eins mundi vera með vínin og önnur lyf, sem standa ekki á lyfjaskránni, að lyfsalar myndu útvega læknum þau þegar þeir óskuðu eftir, og þannig átti það að vera. Annars ættu lyfsalar að vera skyldir til að útvega læknum alt, sem þeir vilja nota til lækninga, en lyfsalar hjer eru greiðviknir menn, svo þetta hefir ekki komið að sök.

Jeg held að háttv. deildarmönnum hafi á þessu skilist, að ekki hefir sú ástæða, að vínin standa ekki á lyfjaskránni, mikið sönnunargildi.

Þá kemur næst sú ástæða landnæknis, að hann telur vín ekki nauðsynleg til lækninga. Ekki svo að skilja, að honum detti í hug að mótmæla að vínandinn sje lyf, heldur hitt, að vínin í þessari mynd sjeu óþörf; — hægt sje að nota sprittblöndu í staðinn. Á þessum vettvangi álít jeg alveg tilgangslaust að deila mikið um þetta. Ólæknisfróðir menn gætu ekki fylgst með í slíku. Jeg skal að eins nefna eitt dæmi.

Jeg gæti ímyndað mjer, að einhver af hv. deildarmönnum hefði einhvern tíma fengið rauðvín sem læknislyf. Mundu hinir sömu geta látið sjer detta í hug, að sama væri þó þeir hefðu fengið líkt sterka sprittblöndu? Frá vísindalegu sjónarmiði geta hv. deildarm. ekkert um þetta sagt. En heilbrigð skynsemi getur leitt þá á rjetta leið í þessu. En setjum nú svo, að þetta væri rjett, að sprittblöndur og vín gætu haft sömu verkanir. Við skulum ganga út frá skoðun landlæknis. Þá kemur hjer til greina annað mikilvægt atriði. Til þess að sjúklingarnir hafi gagn af lyfjunum, þarf fyrst og fremst að koma lyfjunum í þá. En nú er straks fengin talsverð reynsla fyrir því, að sjúklingar eiga miklu verra með að taka inn sprittblöndurnar heldur en vínin, og nokkur dæmi eru þess, að ómögulegt hefir verið að láta sprittblönduna tolla niðri í þeim, þó vín með sama áfengisstyrkleika hafi gjört það. Aldrei má heldur gleyma því, hvernig sjúklingunum er við meðulin. Það hefir áreiðanlega oft mikil áhrif á verkanir lyfja, hvort sjúklingarnir treysta þeim. — Og það er að búast. við, að þeir treysti betur þeim lyfjum, sem þeim áður hafa reynst vel og sjeð góðar verkanir af, heldur en öðrum blöndum, þá reynt sje að telja þeim trú um, að í þeim sje alveg sama. Jeg gæti nefnt mörg dæmi til sönnunar öllum þessum atriðum,. en vil ekki lengja mál mitt með því, að svo stöddu.

Af þessu, og reyndar fleiru, ætti öllum að vera ljóst, að vínin eru nauðsynleg til lækninga, að minsta kosti fyrir þá, sem telja vínandi lyf og auðvitað fleiri, og mig stórfurðar á því. að nokkrum skuli hafa. komið til hugar að halda því fram, að sprittblöndur geti all af komið í staðinn fyrir vín.

Jeg skal þá minnast á þá ástæðu, sem. hv. framsögumaður mintist á úr tillöguskjali landlæknis, að hann hefði skoðað? hjá fjölda lækna á árunum 1908–1911, og fundið vín að eins hjá litlum minni-hluta. Jeg bið háttv. deildarmenn að taka sjerstaklega vel eftir þessu „á árunum 1908 –1911“, — á þeim árum, sem vínin voru auðfengin svo afarvíða, að ekki þurfti annað en segja við sjúklingana: „fáið ykkur þetta vín þarna og þarna“, þá sjá allir, að ástæðulaust var fyrir nema einstaka lækna að hafa vínbirgðir, þó þeir ætluðu að nota vín til lækninga. Og svo vildi jeg jafnframt skjóta, því til hv. 5 kgk. þm. (G. B.) hvort ekki gæti skeð að suma af þessum læknum hefði einnig vantað talsvert af öðrum lyfjum, sem nauðsynleg hefðu þótt eða þættu. Mjer finst því þessi ástæða hafa nauðalítið sönnunargildi.

Þá kem jeg að þeirri síðustu, og jeg held veigamestu ástæðu, sem háttv. Alþingi á auðveldast með að dæma um. En ástæðan er sú, að læknar væru leiddir í mikinn vanda, ef þeir mættu ná í vín, til þess að lækna með þeim. Mjer skilst svo, að í þessum vanda muni eiga að felast tvent. Fyrst og fremst það, að við sjálfir freistumst til að drekka vínin í öðru skyni en beint til heilsubótar, og svo það, að við munum freistast til að láta kunningjana fá flösku eða lyfjaseðil, til þess að gleðja sig á. Jeg ætla nú ekkert að fara hjer að dæma í sjálfs mín sök, eða þræta hjer um þetta atriði. Hitt ætla jeg að eins að benda á, að ef þessi vandi eða voði, hverju nafni sem það nefnist, getur verið fyrir læknana, þá er þessi vandi þegar fyrir hendi, úr því við megum fá spíritus. Enn sem komið er getum við fengið vínanda ótakmarkað og búið til úr honum blöndur, sem eru nægilega ljúfar þeim, sem áfengi vilja ná í til nautna, þó veiku fólki síður geðjist að þeim. Við erum því áreiðanlega þegar í þessum voða vanda staddir, og hann mun ekkert eða sárlítið vaxa, þó vínin bætist við. Eða haldið þjer, herra forseta, og háttv. deildarmenn, að maður, sem óskar eftir að drekka sig drukkinn, að hann fari til læknis og biðji hann um sherry eða rauðvín eða þvíumlíkt. Nei, það er sannarlega spíritusinn, sem þá mundi fyrst óskað eftir. Þessi ástæða er því alveg út í hött, og er líkust því eins og gengið væri út frá því, að læknar nú hafi ekkert áfengi undir höndum.

Svo er nú einnig það; að áreiðanlega mikill fjöldi lækna landsins óskar eftir að fá að nota þessi lyf, þegar þeim sýnist svo, og eru þeir þá ekki sjálfir þeim vanda vaxnir, sem slíkt hefir í för með sjer, eins og svo mörgum öðrum vanda, sem læknum ylgja? Bera þeir ekki sjálfir ábyrgð á sínum gjörðum? Eða er það ef til vill meiningin, að löggjafarvaldið og aðrir ætli að bera sig að eins og nokkurs konar stóri bróðir gagnvart læknastjettinni og passa að hún fari sjer ekki að voða? Jeg býst við að flestir læknar frábiðji slíka umhyggju. Að minsta kosti geri jeg það.

Og þó nú það væri vitanlegt, að einhverjir læknar mundu vanbrúka vínin, sem jeg verð algjörlega að mótmæla, væri það þá næg ástæða til þess að banna öllum að hafa þau um hönd? Það vita sjálfsagt margir, að í öllum löndum koma fyrir læknar, sem misbrúka sum efni, bæði handa sjálfum sjer og öðrum t. d. morfín og cocain. Ætli nokkrum mundi þess vegna detta í hug að banna öllum læknum að hafa þau um hönd? Já, sjálfsagt engum, nema þá löggjafarþingi Íslendinga. Jeg gæti trúað því til þess, ef það fellir þessa brtt. okkar háttv. þm. Vestmannaeyja.

Jeg gat þess áðan, að mikill fjöldi lækna mundi á mínu máli, og til þess að færa sönnur fyrir því, að jeg stend ekki hjer einn uppi í dýrahjörð dýralæknisins, eins og háttv. framsögumanni fórust orð, er hjer álit nokkurra utanþingslækna úr Rvík.

Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa það upp:

„Um breytingartillögu á þingskjali 263 hefir álits vors verið leitað.

Að vísu teljum vjer æskilegast, að samþykt, sem gjörð var í læknafjelagi Reykjavíkur 10. febr. 1914, gæti komist í framkvæmd, því hún ein fullnægir þeim kröfum, sem vjer viljum gera. Hún hljóðar svo:

„Læknafjelag Reykjavíkur telur sjálfsagt, að rjettur lækna til að fyrirskipa sjúklingum hvert það efni, er þeir álíta gagnlegt, sje í engu skertur og lyfsalar sjeu því gegn borgunartryggingu skyldir til að útvega alt það, er læknar æskja eftir til lækninga, jafnt öl og vín sem annað, er ekki fæst utan lyfjabúðar hjer á landi“.

Þótt. breytingartillaga á þingskjali 263, sem hjer er um að ræða, sje miklu yfirgripsminni en samþykt Læknafjelagsins, eins og eðlilegt er, eftir því sem málið horfir við á Alþingi, viljum vjer undirritaðir láta þá skoðun vora í ljós, að vjer teljum hana til bóta á því ástandi, sem nú er.

Reykjavík 10. ág. 1915.

Matth. Einarsson. Jón Kristjánsson.

Gunnl. Clæssen. M. Júl. Magnús.

Sig. Magnússon. V. Bernhöft.

P. J. Halldórsson. Sæm. Bjarnhjeðinss.

G. Magnússon. Þ. J. Thoroddsen.

Þórður Sveinsson. Ól. Gunnarsson.

Þ. Edílonsson. Ól. Þorsteinsson.

Þessi fríði læknahópur talar nógu greinilega, svo eiginlega ætti ekki að þurfa að bæta fleiru við. Þetta eru nefnilega allir læknar bæjarins, sem heima voru og ekki sitja á Alþingi, nema einn, sem liggur veikur.

Vilja nú háttv. deildarmenn virkilega taka þá ábyrgð á sig að banna okkur, þessum læknum og sjálfsagt mörgum fleirum, að ná í það, sem við óskum eftir að hafa til lækninga? En það gjöra þeir hv. þingmenn, sem atkvæði greiða á móti brtt: okkar, því í frumv, stendur beint, að bannað sje að löggilda vín til lækninga.

Jeg get ekki stilt mig um að spyrja: Hvað hefir eiginlega íslenska læknastjettin unnið til saka, svo að hefta þurfi og takmarka rjettindi hennar og samþykkja lög, sem fela í sjer megnasta vantraust á læknum og um leið römmustu getsakir.

Jeg skal endurtaka það, sem jeg drap á í upphafi máls míns, að jeg er alveg á sömu skoðun og þessir 14 hv. stjettarbræður mínir, sem jeg áðan nefndi, um að hið eina rjetta og sjálfsagða hefði verið fyrir þingið að láta okkur hafa alveg óbundnar hendur, eins með notkun áfengra lyfja sem annara. Og það er takmarkið; þangað vona jeg við keppum og ljettum ekki fyrr en því er náð.

Þessi brtt. mín er fram komin til samkomulags og að eins til að bæta úr bráðustu nauðsyninni, þar sem hún inniheldur þær áfengistegundir, sem algengast er að nota til lækninga.

Nú hefi jeg um hríð talað um þá hlið þessa máls, sem að okkur læknunum veit. En til er önnur hlið á þessu máli, sem að almenningi veit, og þá sjerstaklega að bannvinunum.

Það er þegar farinn að koma kurr víða, sem jeg hefi til spurt, meðal almennings út af því, að læknar skuli ekki mega láta vínin til lækninga, eins og verið hefir. Og jeg verð að segja það, ef mjer væri eins ant um bannlögin. eins og hv. framsögumanni, þá mundi jeg hiklaust greiða atkvæði með þessari brtt., til þess að afla lögunum vinsælda, því það er mín hjartanleg sannfæring, að ef þetta verður ekki lagað, þá verði þetta fyrsti og stærsti steinninn í götu bannlaganna, sem þau fyrst hnjóta um.

Jeg get t. d. sagt sem dæmi, að jeg hefi heyrt þann orðróm úr nokkrum hjeruðum, að sumir væru farnir að kenna bannlögunum um, hvað lungnabólgan er afarmannskæð. Jeg er ekki að segja þetta af því, að jeg álíti þessa skoðun rjetta. Það dettur mjer ekki í lifandi hug. Að eins vildi jeg benda bannvinum á, að ef óvinir bannsins notuðu þennan streng hjá þjóðinni til að slá laglega á hann, þá gef jeg ekki mikið fyrir framtíð bannlaganna.

Áður en jeg sest niður get jeg ekki stilt mig um að segja við háttv. deildarmenn: Ef þið nú háttv. bændur og búaliðar, prestar og prelátar og aðrir, sem ekkert vit getið haft á gagnsemi vína til lækninga, eftir að hafa hlustað hjer á tvær andstæðar skoðanir um þetta, segið svo við mig og okkur, sem viljum fá að nota vínin til lækninga: Við bönnum ykkur að nota þetta til lækninga, þið þurfið þess ekki, þá vildi jeg helst geta sagt við ykkur, sem betur vitið: Viljið þið þá ekki gjöra svo vel og taka við að lækna sjálfir ?