10.09.1915
Efri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson :

Eins og háttv. deildarmenn sjá, hefi jeg skrifað undir nefndarálitið fyrirvaralaust, en þetta er þó ekki svo að skilja, að jeg sje ánægður með frumvarpið. Að eins þannig, að jeg hefi ekki ætlað mjer að bera fram brtt. við það nú við þessa umræðu, en sem nefndarmaður hefi jeg óbundið atkvæði um brtt. hv. þm. Ísaf. (S. St.) og mun ljá henni atkvæði.

Jeg vil taka það fram, að jeg mætti reyndar vera ánægður með frv. nú, því það lítur eins út nú, og ef allar tillögur mínar og hv. þm. Vestm. (K. E.) hefðu verið samþyktar hjer í hv. deild við fyrri meðferð málsins. Það lítur því út fyrir, að hv. bannvinir í Nd, hafi talið þær til bóta, úr því þeir tóku þær upp. Þetta hljóta allir að sjá, sem lesa frumvarpið og muna eftir tillögum mínum, en jeg vil að eins undirstrika það, til þess að það sje lýðum ljóst, hve miklar öfgar voru við hafðar hjer í deildinni, þegar þessar tillögur voru á ferðinni. En jeg vil enn fremur taka það fram, að þó jeg nú hafi ritað undir nefndarálitið ágreiningslaust, þá er það að eins af því, að jeg tel frv. bæta í bráð úr brýnustu þörf og nauðsyn okkar læknanna, en alls ekki hitt, að þar með sjeu rjettmætar rjettarkröfur vor læknanna þaggaðar niður.