13.09.1915
Efri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magn. Pétursson):

Frv. þetta hefir, eins og hv. þm. sjá, tekið allmikið breytingum síðan það fór hjer úr deild. Þegar frv. fór hjeðan var gert ráð fyrir kr. 248,176,92 tekjuhalla; en þegar það kom hingað aftur eftir eina umr. í hv. Nd., þá var tekjuhallinn orðinn 356,869,92 kr. Þegar þar við er bætt útgjöldum, sem greiðast eiga, samkv. öðrum lögum og ráðstöfunum, en þau munu nema um 80000 kr. minst, þá er tekjuhallinn kominn upp í hálfa miljón króna; og þótt lögin um verðhækkunartoll, sem nú eru á ferðinni í þinginu, verði samþykt, þá er ekki gjört ráð fyrir meira en 300000 kr. tekjuauka við þau; og auk þess, sem ekki er mikið á þeim tekjuauka að byggja, þá er ætlast til að fje því, sem fást kann við tekjuauka þennan, sje til annars varið en venjulegra landsútgjalda.

Með því að svo er háttað fjárhagshorfunum, vildi nefndin reyna enn að lækka tekjuhallann, og í því skyni hefir hún borið fram brtt. sínar á þgskj. 924; miða þær flestar að því, að lækka gjöldin, þó ekki allar. Verði allar tillögur nefndarinnar samþyktar, mun þó tekjuhallinn minka um 90–100000 kr. Nefndinni duldist það eigi, að ekki hæfði að hleypa kappi í málið, og stofna fjárlögunum í sameinað þing, nema því að eins, að verulega bæri á milli um skoðanir deildanna. Nú verður varla öðru vísi litið á en að svo sje, þar sem ágreiningur er um nálega 100000 kr.

Jeg get búist við því, að sumar af brtt. nefndarinnar þyki lítilfjörlegar, til þess að fara að hrekja þær milli deilda og í sameinað þing. En flestar byggjast þær annaðhvort á stefnumun eða fordæmi, þótt jeg neiti því ekki, að einstöku ein kunni að hafa flotið með, sem hvorugt þetta verður sagt um. Þess skal jeg geta, að auk. tekjuhallans, sem greiðast á úr viðlagasjóði, eru lánsheimildir um 200 000 kr. í fjárlögunum, og hafa þær hækkað í háttv. Nd. um 77000 kr.

Nefndin vonar að hv. deild styðji þessar brtt. hennar. Geta má þess, að þótt nefndin hafi ekki komið með fleiri brtt., þá er það ekki af því, að hún sje ánægð með alt annað í fjárlögunum, heldur af því, að hún vildi ekki halda fleiru til streitu; en hv. Nd. á auk þess að bera höfuðábyrgðina á fjárlögunum, enda er auðsjeð, að hún vill gjöra það.

Að svo mæltu sný jeg mjer að hinum einstöku brtt. nefndarinnar.

Fyrsta brtt. er um miðstöðvarhitunina í Holdsveikraspítalanum. Nefndin getur ekki fallist á athugasemd þá, sem hv. Nd. hefir hnýtt við þá fjárveitingu. Þingið verður að sýna þá mannúð, að hjálpa aumingjum þeim, sem hjer eiga hlut að máli, þótt verkið kunni nú að kosta nokkrum krónum meira, en það kynni að kosta á öðrum tíma; það hefir sennilega dregist of lengi að bæta upphitunina í spítalanum, og jeg vona að hv. deild sýni samúð sína með því, að allir standi upp, þegar þessi brtt., kemur til atkv. Þá hefir hv. Nd. sent hingað aftur fábjána-fjárveitinguna. Við umr. benti jeg á, hvað því hefði valdið, að vjer vildum ekki samþykkja fjárveiting þessa. Jeg tek það enn fram, að nú munu vera um 100 fábjánar hjer á landi, og mun líkt standa á með minsta kosti helming þeirra, eins og aumingja þennan. Ef gera ætti þeim öllum jafnt undir höfði, þá ætti ekki að veita einar 350 kr., heldur 17500 kr. Þess ber hjer vel að gæta, að ef þingið segir hjer a, þá hlýtur það síðar að segja b.

Þá kem jeg að þriðju brtt. við 13., gr. B. III. 5. Nefndin vildi ekki halda til streitu skoðun sinni á vegamálunum við fjárlaganefnd Nd., einkum af því, að hv. Nd. hefir tekið sumt til greina af því, sem hjer var lagt til, en lengra vildi hún ekki ganga en fjárlaganefnd Nd. Því leggur hún til, að fjárveitingin til Öxnadalsvegar sje feld niður, ekki þó af því, að hún vilji sjerstaklega leggjast móti þeirri vegagjörð, heldur fremur af því, hvernig um fjárveiting þessa hefir farið í hv. Nd., sem sýnir, að sú deild hefir áður álitið hana mega sparast. Við 2. umr. var feld þar fjárveiting til þessa vegar með 16:5 atkv.; en síðan var samþykt að vísu nokkuð lægri fjárveiting þar með 13:4 atkv. Slíkt gæti ekki komið fyrir hjer í deild.

Jeg ætla ekki að fjölyrða nú um brúargjörðina á Jökulsá á Sólheimasandi; það hefir þegar verið svo mikið um hana rætt,að varla er á bætandi, enda ekki hægt að segja neitt nýtt.

Fimta brtt. nefndarinnar er um, að úr athugasemdinni um brúargjörðirnar sjeu feld orðin: „eða af öðrum ástæðum“. Nefndinni finnast þau óviðkunnanleg, og nokkuð viðsjárverð, með því, að með þeim sje stjórninni gefið mikið undir fótinn; hún gæti lengi fundið ástæðu til að fresta brúargjörðunum, ef henni sýndist svo. En mjer hefir skilist svo, þangað til þetta innskot kom, að eigi væri tilætlunin, að svo væri gjört, nema því að eins, að efni væri sjerlega dýrt eða torfengið, eða þá fjárhagur landsins mjög þröngur.

Þá er að minnast á Hvítárbátinn. Nefndin hefir, um fjárframlag til hans, viljað halda sjer við tillögur strandferðanefndarinnar sem fyrr, og ekki viljað hækka tillagið til hans. Oss er kunnugt um, að víðar er eins mikil þörf að styrkja bátaferðir eins og um Hvítá. Þó leggur nefndin ekki til, að styrkur þessi sje feldur burtu, heldur færður í sama horf og hann var samþyktur hjer í deild.

Fleiri breytingar hefir nefndin eigi borið fram á 13. gr. En þá kemur að 14.gr. Fyrsta brtt. þar er við B.I.a. Það er sem áður, að nefdin vill ekki hækka laun eins háskólakennarans; henni þykir ekki rjett að taka hann einan út úr með launahækkun, einmitt nú meðan á rökstólum situr nefnd, sem á að athuga launakjör allra starfsmanna landsins; það væri að taka fram fyrir hendurnar á henni; og því minni ástæða virðist henni til þess, þar sem hjer er um mjög nýlegt embætti að ræða, og sá, sem um það sótti, vissi vel, að hverju hann gekk, og getur ekki verið mikil breyting á orðin síðan. Auk þess verður líklega samþykt frv. hjer á þingi, um dýrtíðaruppbót handa starfsmönnum landsins. (Stgr. Jónsson: Hún nær ekki til þessa manns). Það er eftir því, hvað þessi deild gjörir við það frv.

Þá kem jeg að styrknum til húsmæðrakenslunnar á Eyrarbakka. Nefndin getur ekki fallist á, að veita hann; og er það þó engan veginn af því, að hún tími ekki að sjá af þessum 200 kr., heldur af því, að vænta má, að sje þetta veitt, þá muni koma fram margar aðrar beiðnir um styrk til samsvarandi námsskeiða, sem hefðu alveg sama rjett á sjer til landssjóðsstyrks, en að svo vöxnu máli þykir nefndinni ekki ráðlegt, að stefnt sje inn á þá braut. Nefndin vill halda því til streitu, að Hólmfríði Árnadóttur sje veitt nokkurt fje til kvöldskólahalds hjer í Reykjavík. Þó hefir nefndin nú fært styrkinn ofan í 500 kr. á ári, og vonar að það geti orðið til samkomulags. Hjer í Reykjavík er næsta mikil þörf á slíkum skóla sem þessum, þar sem stúlkur geti í tómstundum sínum notið góðrar og hollrar fræðslu, og leiðst við það frá einhverjum gjálífisginningum bæjarlífsins á kvöldin.

Þá kemur að 15. gr., og er fyrsta brtt. nefndarinnar þar sú, við 3. d., að sett sje „gefa út“, í staðinn fyrir „semja“ skýrslur um Fornmenjasafnið frá 1876.

Breytingin, sem á varð í hv. Nd., var samþykt án atkvæðagreiðslu, og var þar þó um verulega efnsbreytingu að ræða. Ef orðið „semja“, er látið standa, þá má skoða þessar 300 kr. á ári sem einskonar persónulega launaviðbót, við hinn núverandi fornmenjavörð, en með því að þegar hefir verið samþykt handa honum veruleg persónuleg launaviðbót, þá virðist þessa nú eigi þörf; enda hefir styrkur þessi að undanförnu verið ætlaður til útgáfu skýrslnanna, þótt jeg hafi að vísu heyrt, að honum hafi verið varið til að semja þær; en það er ekki samkvæmt því, sem í fjárlögunum stendur.

Þá er um aðgjörðir á Þingvöllum það að segja, að nefndin hefir talað við þjóðmenjavörðinn um málið. Í hv. Nd. var helsta mótbáran gegn fjárveitingunni sú, að hún væri alt of lítil, og mundi því eigi koma að notum. Nú segir þjóðmenjavörður, að hjer sje ekki um óslitið, samfelt verk að ræða, heldur megi að skaðlitlu skifta því í sundur, og halda því síðar áfram, er meira fje fæst. Fjeð mundi hvort sem væri vera ódrjúgt, ef halda ætti dýran eftirlitsmann með verkinu; en hann hefði hugsað sjer, að hann gæti haft eftirlit með því, jafnhliða því, sem hann ynni að rannsóknum á Þingvelli, og gæti látið sjer nægja, að hafa bara 2–3 venjulega verkamenn þar við vinnu. Það sem mest riði á, væri að dýpka árfarveginn og girða vellina. Þó þyrfti að vísu að flytja til vegarspotta um 320 m. á lengd, en það mætti þá bíða í bili, því að eigi gjörði það mikið tjón, þótt vegurinn lægi enn um stund þar, sem hann er nú, ef vellirnir að eina væru girtir.

Nefndin sjer því eigi ástæðu til annars en að halda fast við þessa fjárveitingu. Næst kem jeg að 15. gr., 24., styrkveitingunni til Hjartar Þorsteinssonar til að ljúka námi við fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn. Það mun vera af misskilningi, að hv. Nd. hefir lækkað hana; hún vitnaði í styrkveitingu til Steingríms Jónssonar, en þar er sá munur, að Steingrímur Jónsson hefir í núgildandi fjárlögum 800 kr. styrk fyrir yfirstandandi ár, eða til ársloka 1915, og þá tekur við hinn nýi 800 kr. styrkur fyrir 1916; en Hjörtur Þorsteinsson hefir engan styrk, frá því hann missir Garðsstyrk sinn, nú í septemberbyrjun, og til ársloka. Hann ætlar að taka fullnaðarpróf eftir nýár 1917, og verða það þá um 16 mánuðir, frá því hann endaði Garðsstyrkstíma sinn. Vjer höfum því viljað hækka styrkinn til hans, til að koma meira samræmi á styrkveitinguna til hans og Steingríms Jónssonar. Þá skal jeg minnast á styrkinn til Einars Hjaltested. Eins og áður leggur nefndin til að hann sje látinn niður falla, og það af sömu ástæðum sem fyrr; hún lítur svo á, að hann mundi ekki muna mikið um, þótt hann fengi sendar einar 1000 kr. til Ameríku. Það gæti naumast orðið til að gjöra úr honum frægan mann. 3000 kr. gætu má ske orðið honum að einhverju liði, en þessar 1000 kr. að litlu eða engu. Auk þess er það, að ætti þessi fjárveiting að standa, þá ætti að skipa henni í flokk með styrkveitingum til skálda og listamanna, en ekki hafa hana sjerstaka, nafnbundna.

Jeg þarf ekki að fjölyrða um styrkinn til búnaðarfjelaganna; það hefir svo margt verið um hann talað áður. Það er full ástæða til að halda þessu máli til streitu, þar sem fjárlaganefndirnar í báðum deildum eru sammála um það, og margir bændur á sama máli.

Nefndin vill fella burtu litla athugasemd við 16. gr. 5. b., um að skógfræðingi Einari Sæmundsen sje veitt 250 kr. persónuleg launaviðbót; ástæðurnar fyrir tillögu þessari má sjá í nefndarálitinu, Nefndin tók tillit til brjefs skógræktarstjórans, en það er þannig vaxið, að jeg mun ekki lesa það upp, nema krafist sje.

1 16. gr. 19. a. vill hv. Nd. fella niður síðara árið fjárveitinguna til leiðbeiningar við ullarverkun og ullarmat. Eins og jeg tók áður fram, hefir maður sá, sem þessi starfi er ætlaður og sjálfsagt er manna best til hans fallinn, lýst því yfir, að hann vildi alls eigi taka hann að sjer, nema fyrir bæði árin væri; því vill nefndin heldur slaka til við hann, en bera ábyrgð á að missa hann frá þessu áríðandi starfi; hún telur rjettast, að hv. Nd. taki þá ábyrgð upp á sig, ef hún endilega vill.

Um næstu brtt. hefir áður verið talað; hún er að eins lítilfjörleg, og því ólíklegt, að hún þurfi að verða verulegt þrætuepli. Í hv. Nd. hefir verið lækkuð fjárveitingin til að leita eftir vatni í Vestmannaeyjum úr 5000 kr. í 3000 kr., og sett sú athugasemd við, að það, sem til vanti, skuli koma annarsstaðar frá. Nefndin hefir fengið upplýsingar um, að þessi vatnsleit og undirbúningur undir vatnsveitu, muni kosta alt að 7000 kr. Henni þykir því rjett, að fjárveitingin sje látin vera 5000 kr., eins og áður var samþykt hjer í deild, en athugasemdin látin standa, og hygg jeg að hv. Nd. muni gjöra sig ánægða með þau málalok.

20. brtt., um lánið til Guðm. E. Guðmundssonar, er í því fólgin, að meiri hluti nefndarinnar vill, að bætt sje við þeirri athugasemd: „Lánið veitist þegar í stað“. Þó má eigi skilja þetta þannig, eins og jeg hefi heyrt varpað fram, að lán þetta eigi að borga út strax eftir nýár, hvort sem handbært fje sje í landssjóði eða ekki.

Tilætlunin er að eins sú, að þetta lán sje látið ganga fyrir öðrum lánum.

21. brtt. tekur nefndin aftur. Nefndin hefir borið fram á sjerstöku þgskj., 948, tillögu um breytingu á orðalagi í 14. gr. B. XVII. b. Þessi breyting er borin fram eftir ósk sjálfs sundkennarans. Ef liðurinn væri orðaður eins og nú er, þá efaðist hann um, að sjer leyfðist að keppa sem „amatör“ á sundmótum erlendis, heldur mundi talinn „professionel“, en það mundi hann fá, ef liðurinn væri orðaður eins og hjer er gjört.

Fleira hefi jeg svo ekki að sinni að segja, um brtt. nefndarinnar. Jeg bið með að tala um brtt. háttv. þdm., þangað til jeg hefi heyrt þá færa rök fyrir þeim.