16.07.1915
Efri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

3. mál, kosningar til Alþingis

Flutnm. (Jósef Björnsson) :

Frv. það, er hjer liggur fyrir, og sem jeg er flutnm. að ásamt hv. þm. Strand. (M. P.), er samhljóða lögum þeim, er samþ. voru um þetta efni á síðasta Alþingi, að öðru en því, að 86. gr: frv. er breytt lítið eitt. Þá er frv. þetta var samþ. á síðasta Alþingi, var gengið út frá því, að lögin yrðu staðfest af konungi jafnhliða stjórnarskránni, en með því að ákvæðið um stundarsakir var þá orðið óframkvæmanlegt, þá sá hæstv. ráðherra sjer ekki fært að leggja til, að frv. yrði staðfest. Það er því að undirlagi hæstv. ráðherra, að við flutnm. flytjum frv.

Við flutnm. þurfum ekki að taka frekar fram um málið, en sökum þess, að hv. deild hafði í fyrra mjög lítinn tíma til að athuga það, þá mætti álíta það vel til fallið, að nú væri skipuð nefnd, til þess að athuga það. Eins getur það verið álitamál, hvort tímatakmörk þau eru heppileg, sem nú eru sett í ákvæðinu um stundarsakir, og er því rjett að það sje yfirvegað í nefnd. Af þessum sökum, leyfi jeg mjer að leggja til, að skipuð verði þriggja manna nefnd að þessari fyrstu umr. lokinni.